

Fréttamolar úr MS
14. apríl 2023
Dagsetningar framundan 📆
- Mánudagur 17. apríl: Miðannarmat birtist í Innu kl. 20.
- Fimmtudagur 20. apríl: Sumardagurinn fyrsti - frídagur
- Föstudagur 21. apríl: Matsdagur
- Vikan 24.-28. apríl: Umhverfisvika í MS skipulögð af umhverfisnefnd skólans
Niðurstöður úr sýnatökum í Aðalsteini
Verkfræðistofan Efla hefur nú skilað skýrslu með niðurstöðum úr sýnatökum í Aðalsteini (nýbyggingu) og er skýrslan meðfylgjandi. Því miður var niðurstaðan sú að Aðalsteinn reyndist ekki myglufrír. Rektor fundaði með öryggisnefnd í vikunni og var þar farið yfir skýrsluna og Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir munu fara í þær viðgerðir sem þarf á Aðalsteini eftir að skólastarfinu lýkur í vor. Unnið er í því að fá fleiri loftræstitæki í hús nú þegar.
Styrkir úr afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands til framhaldsskólanema
Í ár verður úthlutað í sextánda sinn styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands til framhaldsskólanema sem ná afburðaárangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Frá upphafi hafa yfir 400 nýnemar við Háskólann hlotið styrki úr sjóðnum. Styrkirnir eru að fjárhæð 300.000 kr. hver auk 75.000 kr. til endurgreiðslu á skrásetningargjaldi við Háskóla Íslands.
Nemendur sem hafa íslensku sem annað mál eru sérstaklega hvattir til að sækja um.
Við val á styrkhöfum er tekið mið af:
- framúrskarandi námsárangri á stúdentsprófi
- virkni í félagsstörfum
- árangri nemenda á öðrum sviðum, s.s. í listum og íþróttum
- sérstökum framförum í námi eða góðum námsárangri þrátt fyrir erfiðar aðstæður
Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna undir eftirfarandi slóð: https://www.hi.is/sjodir/afreks_og_hvatningarsjodur_studenta_haskola_islands
Umsóknarfrestur um styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands er til 5. júní nk. líkt og umsóknarfrestur um nám við skólann.
Föstudagstónar 🎶
Í myndbandinu hér að neðan má heyra framlag MS í Söngakeppni framhaldsskólanna sem fór fram þann 1. apríl. Ketill Ágústson var hreint út sagt frábær á sviðinu 👏👏👏
Umhverfisvika í MS 24. - 28. apríl♻️🍀💚
Umhverfisnefnd nemenda MS með stuðningi kennara í grænfánaáfanga hefur sett saman glæsilega dagskrá fyrir umhverfisvikuna sem sjá má hér fyrir neðan. Nánari upplýsingar koma þegar nær dregur.
Mándagur 24.4.
- Fatamarkaður
- Gróðursetning
- Zumba
Þriðjudagur 25.4
- Fatamarkaður
- Fyrirlestur Landverndar
Miðvikudagur 26.4
- Fatamarkaður
- Ungir umhverfissinnar
- Grænn fatnaður
Fimmtudagur 27.4
- Fatamarkaður
- Kahoot spurningakeppni
- Brúsasala
Föstudagur 28.4
- Grænn fatnaður
- Bíllaus dagur
- Afhending Grænfánans