
Fréttabréf
Mars - apríl 2021
Kæra skólasamfélag
Í byrjun mars kom fram enn ein reglugerðin um sóttvarnir í skólum og gildir hún til loka aprílmánaðar. Dregið er úr takmörkunum og gildir nú 1 metra regla milli starfsfólks. Sé ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun skal nota andlitsgrímur. Starfsmenn mega vera 50 í hverju rými og er heimilt að fara milli hópa.
Nemendur í 1.–10. bekk eru undanþegnir 1 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 150 nemendur í hverju rými innan dyra. Blöndun nemenda milli hópa er heimil.
Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl., eru heimilir í skólabyggingum með fjölda- og nálægðartakmörkunum sem eru í gildi.
Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi skulu sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar og gæta að sóttvörnum. Þeir skulu gæta að minnst 1 metra nálægðartakmörkun jafnt milli sín sem og gagnvart starfsfólki og skulu bera andlitsgrímur.
Við fögnum að sjálfsögðu þessari reglugerð og reynum að sníða starfið okkar að henni. Nú getum við farið að huga að auknu samstarfi og samkomum í skólanum.
Með góðri kveðju, starfsfólk Brekkuskóla
Viðburðir framundan
Brekkuvision - hæfileikadagar verða í vikunni fyrir páskafrí.
Miðvikudaginn 24. mars verður Brekkuvision hjá 4. - 6. bekk.
Fimmtudaginn 25. mars verður Brekkuvision hjá 7. - 8. bekk
Föstudaginn 26. mars verður Brekkuvision hjá 9. - 10. bekk
Nemendur koma á sal og sýna fjölbreytt atriði á sviði, árgangar horfa á hjá hver öðrum. Að þessu loknu verður nemendum boðið upp á veitingar.
Hið árlega páskabingó verður að sjálfsögðu á sínum stað en það er orðin gömul hefð í Brekkuskóla að bekkir og árgangar spili bingó og í vinning eru lítil páskaegg.
Páskafríið hefst 29. mars og nemendur mæta aftur í skólann þriðjudaginn 6. apríl.
Miðvikudaginn 21. apríl verður Sumargleði hjá 1. - 3. bekk þar sem árgangarnir stíga og stokk og sýna fyrir hvern annan.
Í maí er svo ráðgert að vera með þemadaga sem verða tvinnaðir saman við Brekkuskólaleika. Þemadagarnir verða tileinkaðir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem fara vel við markmið Brekkuskólaleika.
Fjölþjóðlegt verkefni á bókasafni
Alþjóðadagur móðurmálsins var 21. febrúar. Að því tilefni var unnið verkefni á bókasafninu með nemendum skólans sem eiga foreldra af erlendum uppruna. Fimm hópar unnu að sameiginlegu verkefni sem fólst í að teikna fána, skrifa nafnið á landinu og gera þrjár talblöðrur sem skrifað var í á tungumáli landsins. Verkefnið gekk vel og var ánægja meðal nemenda með að fá að hittast, vinna með systkinum sínum og kynnast öðrum með svipaða tengingu við önnur lönd. Afrakstur verkefnisins er hægt að skoða í suðurgluggum bókasafnsins en þar eru kynnt 21 tungumál og enn fleiri fánar og lönd sem eru hluti af menningarauði Brekkuskóla.
Stóra upplestrarkeppnin 2021
Stóra upplestrarkeppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að valdir eru þrír bestu upplesarar í hverju byggðarlagi, eða í umdæmi hverrar skólaskrifstofu. Aðalkeppnin fór fram í Menntaskólanum á Akureyri 10. mars. Fyrir hönd Brekkuskóla kepptu þau Birkir Kári Helgason og Snædís Hanna Jensdóttir. Til vara voru þeir Heiðar Húni Jónsson og Starkaður Björnsson. Lesarar stóðu sig með stakri prýði og var þetta góð skemmtun.
Lestrarfígúra í Brekkuskóla
Grunnskólar á Akureyri hýsa lestrarfígúrur sem smíðaðar voru síðasta sumar af nemendum á Sumarlestrarnámskeiði Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins. Þetta eru fígúrur sem gerðar eru úr timbri og eru þær sumar um mannhæðaháar.
Lilli hefur vakið eftirtekt og kátínu hér í skólanum og gefur tækifæri til umræðna og vinnu nemenda í tengslum við bókmenntir, ritun o.fl.
Orðaþrennan
Eitt af því sem hefur verið í gangi í vetur er Orðaþrennan sem sérkennarar hafa staðið fyrir. Ákveðin orð eru tekin fyrir í hverjum mánuði, rýnt í merkingu þeirra og notkun og unnið með orðin á fjölbreyttan hátt. Þetta er gott framtak sem nær yfir allan skólann. Ekki veitir víst af að vinna með íslenska orðaforðann!
Símar
Nú er unnið hörðum höndum að því að framfylgja þeim reglum sem gilda um símanotkun nemenda í skólanum. Það sem þarf að leggja áherslu á er að símar trufli ekki nám nemenda og því er almennt ekki gert ráð fyrir að þeir séu í notkun í kennslustundum. Einnig þarf að minna á að allar hljóð- og myndupptökur eru bannaðar.
Í sáttmála Brekkuskóla um upplýsinga– og samskiptatækni í skólastarfinu segir:
-Við nýtum tæknina á uppbyggilegan hátt við nám og kennslu
-Við virðum verkstjórnarhlutverk kennara í kennslustundum
-Við virðum rétt félaga okkar til að stunda nám sitt án truflunar
-Við virðum rétt kennara til að kenna án truflunar
-Við óskum eftir leyfi kennara ef við viljum nota tölvur eða önnur samskiptatæki í kennslustund
Óskilamunir
Hafðu samband
Email: brekkuskoli@brekkuskoli.is
Website: brekkuskoli.is
Location: v. Skólastíg
Phone: +354 462 2525
Facebook: https://www.facebook.com/brekkuskoli.is/