
Flataskólafréttir
Skólaárið 2021-2022 - 2. desember 2021
Kæra skólasamfélag!
Þá er aðventan gengin í garð og orðið heldur jólalegt um að litast þessa dagana þar sem snjórinn gleður okkur með nærveru sinni. Desembermánuður verður að mestu með hefðbundnu sniði í skólanum en vegna sóttvarnaráðstafana höldum við enn að okkur höndum varðandi morgunsamverur og eins gerum við ráð fyrir að fyrirkomulag litlujóla þurfi að taka mið af fjöldatakmörkunum. Það er hins vegar að venju ýmislegt brallað sem tengist árstímanum. Árgangar skipuleggja sitt starf og senda út upplýsingar sem varða einstaka viðburði í hverjum árangi. Á yfirlitinu hér neðar má hins vegar sjá upplýsingar um sameiginlega viðburði í skólastarfinu.
Það hefur verið hefð í skólanum að nemendur láti gott af sér leiða fyrir samfélagið í desembermánuði og undanfarin ár hefur verið staðið fyrir söfnun matvæla í því skyni. Þetta árið munu nemendur í hverjum árgangi fyrir sig ákveða hvernig þeir leggja sitt af mörkum til að gleðja aðra í mánuðinum. Má því búast við fjölbreyttum framlögum þar sem nemendur sjálfir hafa atkvæðisrétt um hvernig við látum gott af okkur leiða.
Þar sem um er að ræða síðasta fréttabréf ársins óskum við ykkur ánægjulegrar aðventu og svo gleðilegra jóla. Jafnframt þökkum við fyrir gott samstarf á árinu sem senn hverfur á braut!
Bestu kveðjur úr skólanum!
Stjórnendur
Helstu viðburðir framundan:
- 8. des - Jólalegi dagurinn (mæta í einhverju jólalegu.. peysur, húfur, eitthvað rautt...)
- 16. des - Jólamatur
- 20. des - Litlujólin og jólaleyfi grunnskólanemenda hefst
- 3. jan - Kennsla hefst skv. stundaskrá að loknu jólaleyfi
Skráningar í frístund í jólaleyfi
Búið er að opna fyrir skráningar í Krakkakot í jólafríinu en skráningar þurfa að hafa borist í síðasta lagi 6. desember. Ekki verður tekið á móti nýjum skráningum eftir þann tíma.
Krakkakot verður opið frá 8:30-16:30 í jólaleyfinu. Þessa daga þurfa krakkarnir að koma með morgunnesti og hádegismat, þau fá síðdegishressingu hjá okkur.
Skráningin fer fram í gegnum Völuna (www.vala.is) undir "lengd viðvera". Minnt er á þegar skráning hefur farið fram á forráðamaður að fá staðfestingarpóst um að skráningin hafi tekist. þannig vitið þið að skráningin tókst.
Ef það er eitthvað óljóst má alltaf hafa samband við umsjónarmann frístundar í gegnum netfangið: flataskoli-fristund@flataskoli.is
Litlu jólin
Síðasti skóladagur nemenda fyrir jólafrí er mánudagurinn 20. desember. Sá dagur er að venju stuttur hjá nemendum og er skólatími þeirra sem hér segir:
- 1. bekkur í skóla 9:00-10:30
- 2. bekkur í skóla 9:30-11:00
- 3. bekkur í skóla 10:00-11:30
- 4. bekkur í skóla 9:30-11:00
- 5. bekkur í skóla 9:30-11:00
- 6. bekkur í skóla 9:30-11:00
- 7. bekkur í skóla 9:30-11:00
Vegna fjöldatakmarkana náum við væntanlega ekki að hafa jólaball í eldri árgöngunum en í 1.-3. bekk fer einn árgangur í einu í salinn og dansar í kringum jólatréð.
Kennsla að loknu jólaleyfi hefst skv. stundaskrá mánudaginn 3. janúar.
Hátíðamatur 16. desember
Fimmtudaginn 16. desember verður boðið upp á hátíðarmáltíð í skólanum fyrir alla áskrifendur. Í ár verður boðið upp á kalkúnabringur, hátíðarmeðlæti og ís í eftirrétt.
Þeir sem ekki eru í áskrift en óska eftir að taka þátt í hátíðarmáltíðinni geta keypt sérstaka matarmiða í mötuneyti skólans frá 8.-14.desember. Miðinn kostar 850 kr. og aðeins er hægt að greiða með peningum.
Nánari upplýsingar má nálgast á skrifstofu Skólamatar, Sími: 420-2500 eða á skolamatur@skolamatur.is
Jóladagatal Samgöngustofu
Í þetta sinn er það í samstarfi við Leikhópinn Lottu og Sjónvarp Símans. Í dagatalinu fá börnin að fylgjast með Hurðaskelli og Skjóðu í fjársjóðsleit í 24 þáttum þar sem þau kenna börnunum umferðarreglurnar samhliða því að lenda í spaugilegum aðstæðum.
Endurskinsmerki
Gjafir frá Foreldrafélaginu
Varðandi inniveru í frímínútum
Viðbrögð við óveðri
Nú er kominn sá árstími að allra veðra er von og því rétt að vekja athygli foreldra á upplýsingum sem varð viðbrögð við óveðri. Skólastarf fellur ekki niður nema tilkynnt sé um það sérstaklega. Í upphafi skóladags getur í verstu veðrum tafist að fullmanna skóla og mega forsjáraðilar þá búast við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra.
Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í eða úr skóla vegna veðurs, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forsjáraðilar aðstæður svo að ekki sé óhætt fyrir börn þeirra að sækja skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það sem lítur þá á tilvikið sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða forsjáraðilar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa. Nánari upplýsingar um viðbrögð við óveðri má finna hér.
Opnunartími skrifstofu
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500