
Fréttabréf
Fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar
9. tbl. janúar 2018. Ábyrgðarmaður Dóróþea Reimarsdóttir, kennsluráðgjafi
Um fræðslusvið Dalvíkurbyggðar
Fræðslu- og menningarsvið Dalvíkurbyggðar veitir öllum skólum í sveitarfélaginu þjónustu en þeir eru Árskógarskóli, Dalvíkurskóli, Krílakot og Tónlistarskólinn á Tröllaskaga.
Samkvæmt lögum er sveitarfélögum skylt að veita annars vegar stuðning við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra og hins vegar stuðning við nemendur og foreldra þeirra. Einnig ber sveitarfélaginu að hafa almennt eftirlit með skólastarfi og að það sé í samræmi við lög, reglugerðir, námskrár og stefnur sem sveitarfélagið hefur sett. Skólaskrifstofan í Ráðhúsinu sinnir þessu hlutverki. Þar starfa Hlynur Sigursveinsson sviðsstjóri og Dóróþea Reimarsdóttir kennsluráðgjafi. Auk þess er í gildi samningur við Eyrúnu Ingvadóttur talmeinafræðing. Lögð er áhersla á forvarnarstarf, snemmtæka íhlutun og stuðning við starfshætti í skólunum. Sérstök athygli er vakin á að þjónusta kennsluráðgjafa er ekki einungis bundin vinnu hans með skólunum heldur stendur foreldrum einnig til boða að leita ráðgjafar hjá honum.
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, Gísli Rúnar Gylfason, starfar einnig á fræðslu- og menningarsviði. Undir hann heyrir Íþróttamiðstöð Dalvíkurbyggðar, Félagsmiðstöðin Týr, Vinnuskólinn, Æskuræktin, Heilsueflandi Dalvíkurbyggð og samstarf við íþróttafélögin í sveitarfélaginu.
Bókasafn Dalvíkurbyggðar, Hérðasskjalasafn Dalvíkurbyggðar og Byggðasafnið Hvoll tilheyra líka sviðinu.
Krílakot
Eins og aðrir skólar í Dalvíkurbyggð fylgir Krílakot markaðri uppeldisstefnu sveitarfélagsins, Uppbyggingarstefnunni. Áhersla er lögð á sjálfsaga, sjálfsstjórn og uppbyggileg samskipti. Uppbyggingarstefnan beinir því sjónum að lífsgildum og ábyrgð fremur en blindri hlýðni. Börn fæðast ekki með þann hæfileika að geta metið hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á aðra. Það er því hlutverk okkar sem fullorðin erum að efla þann skilning í gegnum samskipti og hafa í huga að það sem við gerum og segjum hefur áhrif á börnin. Á næstu mánuðum verða unnir deilda- og starfsmannasáttmálar í Krílakoti með það að markmiði að samræma enn betur skilning okkar á því hvernig við, börn og fullorðnir, viljum koma fram hvert við annað og eftir hvaða reglum við ætlum að fara í skólanum.
Krílakot er Grænfánaskóli, öðru nafni Skóli á grænni grein, sem stefnir að því að flagga Grænfánanum í fjórða sinn nú í vor. Grænfánaverkefni okkar núna er hnattrænt jafnrétti. Lögð er áhersla á að allir eigi að vera jafnir sama hvar í heiminum þeir búa, þrátt fyrir að allir hafi það ekki jafn gott.
Hér að ofan eru talin stærstu verkefni okkar á Krílakoti um þessar mundir. Þau eru skemmtileg, gefandi og unnin út frá þroska og getu hvers og eins.
Dalvíkurskóli
Síðastliðið haust áttu sér stað nokkrar tilfæringar í húsnæði Dalvíkurskóla. Frístund var flutt úr Víkurröst upp í skóla, í stofu við hlið aðalinngangs þar sem tölvustofan var áður. Tölvuverið var flutt í rými við bókasafnið og gerðar nýjar dyr inn á safnið. Einnig var ákveðið að færa tónmenntakennsluna upp í skóla í stað þess að kenna hana í húsnæði Tónlistarskólans eins og undanfarin ár.
Foreldrafélag Dalvíkurskóla hefur stutt dyggilega við skólastarfið í vetur sem endranær og afhenti skólanum kennslugögn að andvirði 200.000 kr. nú á haustdögum. Um er að ræða vélmenni til forritunar, legó og önnur námsgögn sem m.a. nýtist í skapandi kennslu, tæknimennt og forritun. Unnið hefur verið markvisst með forritun í 1. - 6. bekk og í smiðjuhópum í unglingadeildinni og hafa þessi nýju kennslugögn komið að góðum notum við þá kennslu.
Árskógarskóli
Nýtt ár fer vel af stað í Árskógarskóla. Þar eru 40 nemendur á leik- og grunnskólastigi, elstu nemendur 10 ára og yngstu 9 mánaða. Við skólann eru 7 stöðugildi. Skólasamfélagið býr afar vel að foreldrum sem styðja við skólastarfið. Á síðasta skólaári bauð foreldrafélag skólans nemendum í krakkajóga. Jógað reyndist svo hressandi, nærandi og skemmtilegt að okkar frábæra foreldrafélag býður nú nemendum skólans á ný upp á jóga hjá Gerði Ósk Hjaltadóttur sem er jógakennari, krakkajógakennari og danskennari frá Akureyri. Alls er um 10 skipti að ræða, 30 mínútur í senn, í tveimur hópum þ.e. leikskólastig og grunnskólastig. Nemendur læra jógastöður í gegnum leik, að finna muninn á spennu og slökun, að fara inn á við og greina hvernig þeim líður og æfa einfaldar og skemmtilegar hugleiðslur/núvitund. Jóga fellur vel að ýmsum markmiðum aðalnámskrár leik- og grunnskóla þar sem einn hornsteinanna og grunnþáttur menntunar er Heilbrigði og velferð. Jóga fellur einnig vel að markmiðum skólans í vinnu tengdri Grænfána árin 2016-2018 þar sem þemað er Lýðheilsa. Þar eru áherslurnar meðal annars: Líður okkur vel í skólanum og daglega lífinu? Erum við góð hvert við annað?
Sem sagt, í byrjun árs horfum við inn á við.
Tónlistarskólinn á Tröllaskaga
Í haust, við upphaf annars starfsárs Tónlistarskólans á Tröllaskaga, hófu 205 nemendur nám. Skólinn varð til við sameiningu Tónskóla Fjallabyggðar og Tónlistarskóla Dalvíkur haustið 2016 og hefur sameiningin þegar sannað gildi sitt. 15 tónlistarkennarar vinna nú við skólann í um 11,5 stöðugildum og þrír starfsmenn sjá um ræstingar, einn í hverjum byggðakjarna. Nýir kennarar skólans eru Ösp Eldjárn Kristjánsdóttir, sem kennir söng á Dalvík, og Guðmann Sveinsson sem kennir söng og á gítar. Hann kennir einnig tónmennt í grunnskólum Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar og heimsækir vikulega alla leikskóla á Tröllaskaga með söng á sal. 170 nemendur komu fram á jólatónleikum skólans sem alls voru níu og kennarar heimsóttu að venju alla leik- og grunnskólana í sveitarfélögunum í desember.
Samstarf við foreldra hefur breyst í gegnum árin og fer orðið æ meira fram rafrænt í gegnum dagbækur og netpósta Visku sem er umsjónarkerfi skólans.
Félagsmiðstöðin Týr
Félagsmiðstöðin Týr, sem er staðsett í Víkurröst, fékk nýtt yfirbragð nú í haust samhliða því að starfsemi Tónlistarskólans á Tröllaskaga og Símeyjar fluttist einnig í húsið. Félagsmiðstöðin er opin fyrir ungmenni í 8. - 10. bekk öll mánudags-, miðvikudags,- og föstudagskvöld yfir vetrarmánuðina. Á fimmtudagskvöldum er opið fyrir 16 ára og eldri. Ekki er fastur opnunartími fyrir 1. - 4. bekk og 5. - 7. bekk en nokkrir viðburðir ætlaðir þeim aldurshópum dreifast á veturinn. Mestur þungi starfsins nær til 13 - 15 ára aldursins. Þar bera hæst árlegir viðburðir eins og söngkeppni, landsmót og SamFestinginn.
Nýlokið er undankeppni þar sem valið var atriði félagsmiðstöðvarinnar til þátttöku í NorðurOrgi, söngkeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi. Valið stóð á milli þriggja atriða þar sem drengir í 8. bekk sigruðu. Þeir eru Þormar Ernir Guðmundsson, söngur, Þorsteinn Jakob Klemenzson, píanó og Elvar Freyr Jónsson, bassi. NorðurOrg verður haldið á Sauðárkróki 26. janúar næst komandi og þar verða fimm atriði valin til þátttöku í söngkeppni Samfés sem verður í Laugardalshöllinni síðar í vetur. Framundan er því að fylgja drengjunum eftir og standa vonir til þess að farið verði með fulla rútu af stuðningsmönnum til Sauðárkróks til að fylgjast með keppninni. Þormari, Þorsteini og Elvari er hér með óskað til hamingju með sigurinn hér heima og góðs gengis í NorðurOrgi. Undanfarin ár hefur söngkeppni Samfés verið sjónvarpað beint á RÚV og sannarlega væri gaman ef okkar atriði yrði meðal þeirra fimm sem þangað kæmust.
Bóka- og héraðsskjalasafn
Bókasafn Dalvíkurbyggðar mun halda áfram að bjóða upp á nýjungar í vetur þar sem unnið er að því að styrkja læsi í margvíslegu formi fyrir stóra og smáa. Við munum halda áfram með foreldramorgna og hugleiðsluhádegi í hverju fimmtudagshádegi auk þess sem boðið verður upp á áhugaverðan hádegisfyrirlestur mánaðarlega. Fastir liðir eins og leik- og grunnskólaheimsóknir verða á sínum stað og stefnt er að nýju ljósmyndaverkefni á árinu í samstarfi við ljósmyndahópinn á Héraðsskjalasafni Svarfdæla.
Í janúar stendur yfir ljósmyndasýning á vegum Héraðsskjalasafns Svarfdæla en hún er unnin með styrk frá Menningarráði Dalvíkurbyggðar.
Byggðasafnið Hvoll
Frekari upplýsingar
Email: dora@dalvikurbyggd.is
Website: dalvikurbyggd.is
Phone: 460-4900
Facebook: facebook.com/Dalvíkurbyggð