Bundið áfangaval og valáfangar
HAUSTÖNN 2023
- Bóklegur áfangi haustið 2023 er íþróttasálfræði. Þú þarft að velja þína íþróttagrein:
- BLAK BLAK3ÍS05
- BOGFIMI BOGF3ÍS05
- FJALLAHJÓLREIÐAR FJHJ3ÍS05
- HANDBOLTI HAND3ÍS05
- KNATTSPYRNA KNAT3ÍS05
- KÖRFUBOLTI KÖRF3ÍS05
- ÓLYMPÍSKAR LYFTINGAR ÓLFT3ÍS05
- SKÍÐAGANGA SKÍG3ÍS05
- SKOTFIMI SKOT3ÍS05
- SUND SUND3ÍS05
Nemendur sem ætla sér í háskólanám eru hvattir til að taka fleiri 3. þrepsáfanga en lágmark á brautinni segir til um.
EÐLISFRÆÐI-VARMAFRÆÐI, HRINGHREYFING, SVEIFLUR OG BYLGJUR
BUNDIÐ ÁFANGAVAL/VALÁFANGI
Undanfari: EÐLI2AF05 og STÆR2VH05
Í þessum áfanga er farið yfir grunnatriði í tengslum við varmafræði, hreyfingu hluta í fleti, hringhreyfingu. Þyngdarlögmálið, sveiflu- og bylgjuhreyfingar og bylgjur í fleti. Nemendur vinna bæði sjálfstætt og í hópum og lögð er áhersla á sjálfstæði og ábyrgð nemandans á eigin námsframvindu.
ALMENN EFNAFRÆÐI
BUNDIÐ ÁFANGAVAL/VALÁFANGI
Undanfari: STÆR2JA05
Í þessum fyrsta áfanga í efnafræði fyrir nemendur á náttúruvísindabraut verður farið í grunnatriði almennrar efnafræði. Frumefni, atóm, jónir og sameindir, lotukerfið, rafeindaskipan og efnatengi, nafnakerfi ólífrænna efna, efnahvörf og efnajöfnur, mólhugtakið, lausnir, gas og magnútreikninga.
ENSKA - YNDISLESTUR
BUNDIÐ ÁFANGAVAL/VALÁFANGI
Undanfari: ENSK3HO05
Áfanginn gengur út á að nemendur lesi enskan texta sér til ánægju og yndisauka. Í stað tímasóknar er lögð áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemenda þar sem þeir nýta tímann til lesturs og verkefnavinnu sem tengist textanum. Nemendur velja sér fjórar bækur, lesa þær og skila inn skýrslum. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á að útvega sér les efninu. Nemendur geta sjálfir ákveðið hvaða bækur þeir lesa en þó með ákveðnum reglum, kennari útskýrir nánar.
FÉLAGSFRÆÐI - KENNINGAR OG SAMFÉLAG
BRAUTARKJARNI/VALÁFANGI
Undanfari: FÉLV1IF05
Í þessum áfanga er fjallað um frumkvöðla félagsfræðinnar og kynntar helstu kenningar greinarinnar. Samfélagið er skoðað í ljósi mismunandi kenninga og nokkrar þekktar rannsóknir innan félagsfræði skoðaðar. Farið er yfir vítt svið félagsfræðinnar og nemendur þjálfaðir í að beita félagsfræðilegu innsæi við túlkun á samfélagslegum málefnum.
FJÁRMÁLALÆSI DAGLEGS LÍFS
VALÁFANGI
Undanfari: Enginn
Markmið áfangans er að opna augu nemenda fyrir mikilvægi þess að hafa yfirsýn yfir eigin útgjöld og tekjur, þekkja réttindi og skyldur neytenda og kunna skil á helstu atriðum á almennum fjármálamarkaði. Réttindi og skyldur á vinnumarkaði verða til umfjöllunar auk þess sem nemendur verða þjálfaðir í gerð ferilskrár og starfsumsókna. Markmið áfangans er að gera nemendur sjálfbjarga í raunverulegum fjármálaaðstæðum daglegs lífs.
GRUNNÁM MÁLM- OG VÉLTÆKNIGREINA 1. ÁR (GRMVH2023)
Undanfari: Enginn
Grunnnám málm- og véltæknigreina veitir nemendum undirbúning til áframhaldandi náms í málm- og véltæknigreinum s.s. í stálsmíði, bifvélavirkjun og vélstjórn. Auk kjarnagreina taka nemendur faggreinar s.s. málmsuðu, málmsmíðar, rafmagnsfræði og vélstjórn.
INNGANGUR AÐ HEIMSPEKI
BRAUTARKJARNI/VALÁFANGI
Undanfari: FÉLV1IF05
Hvernig vitum við að veruleikinn er eins og hann birtist okkur? Hvað er þekking? Hvað er sannleikur? Hvað er vitund? Er guð til? Í áfanganum verða teknir fyrir valdir þættir í vestrænni heimspekisögu frá Grikklandi til forna fram að lokum 20. aldar. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist undirstöðuþekkingu í þróun heimspeki í gegnum mannskynssöguna ásamt grundvallarskilningi á helstu heimspekikenningum sem hafa mótað viðhorf mannsins til siðferðis, frelsis, guðs og eðli heimsins í kringum hann. Ásamt völdu lesefni verður notast við bíómyndir, tónlist og myndbrot úr dægurlífinu.
HÖNNUN OG BLÖNDUÐ TÆKNI
Undanfari: ENGINN
Í áfanganum verður kennd markviss hugmyndavinna. Nemendur halda dagbók og vinna markvissa skissuvinnu og safna hugmyndum sínum í hugmyndabanka. Nemendur að temja sér aðferðir við að skynja umhverfi sitt og nýta það til listsköpunar, eins og með endurnýtanleg efni. Nemendur fá að spreyta sig á ólíkri tækni, aðferðum og efnum innan hönnunar. Verkefnin eru undir leiðsögn kennara og nemendur hanna hluti úr mismunandi efnum með tilliti til efnis, litavals og útlits.Nemendur þjálfaðir í að vinna sjálfstætt og þjálfist í gagnrýnni hugsun gagnvart eigin verkum og annarra. Lögð er áhersla á skapandi, vönduð og sjálfstæð vinnubrögð.
HÖNNUN OG ENDURNÝTING
Undanfari: HÖNN1BL05
Í áfanganum verður unnið með endurnýtingu og sjálfbærni í hönnun. Vistspor mannsins skoðað út frá þörfum og neyslu. Áfanginn er verkefnamiðaður þar sem lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð út frá áhugasviði. Mismunandi tækni beitt við að breyta gömlum textíl og hlutum í nýja hönnun. Sprettum upp, saumum saman á nýjan hátt, litum eða aflitum. Skreytum með stenslum, þrykkramma, fatafilmu eða útsaum og fl. Farið er í vettvangsferðir og aflað efnis af ýmsum toga sem nýtt er til verkefnavinnu.
HREYFING OG HEILSURÆKT
Undanfari: 4 einingar í íþróttum
Hreyfing og heilsurækt utan skóla í samstarfi við íþróttakennara.
HREYFING OG HEILSURÆKT
ALMENNUR KJARNI/VALÁFANGI
Undanfari: 4 einingar í íþróttum
Hreyfing og heilsurækt utan skóla í samstarfi við íþróttakennara.
SÉRHÆFING Í ÍÞRÓTTAGREIN
Undanfari: Enginn
Áfangi ætlaður nemendum sem leggja stund á íþróttagreinar en eru ekki nemendur á afreksíþróttasviði.
JAFNRÉTTIS OG KYNJAFRÆÐI - áfangi fyrir fjarnemendur með MÍ sem heimaskóla
ALMENNUR KJARNI
Undanfari: FÉLV1IF05
Í áfanganum er fjallað um jafnrétti, mannréttindi og kynjafræði. Leitast verður við að tengja viðfangsefni við daglegt líf nemenda. Viðfangsefni áfangans eru réttindahugtakið, mannréttindi, jafnrétti, fjölmenning, kynþáttamisrétti, réttindi fatlaðra, réttindi barna, stéttamisrétti, jafnrétti kynjanna, femínismi, kynhlutverk, feðraveldi, kynbundið ofbeldi og klám.
KYNFRÆÐSLA, KYNHEILBRIGÐI OG SAMSKIPTI
VALÁFANGI
Undanfari: Enginn
Í áfanganum verður farið yfir vítt svið kynfræðslu sem fer inn á svið sjálfsmyndar, samfélags, kynlífs og kynverundar. Nemendur fá öruggt rými til að rækta sjálfsþekkingu og fræðast um kynverundina og kynferðisleg samskipti.
ÓLYMPÍULEIKAR Í LÍFFRÆÐI
VALÁFANGI
Undanfari: NÁTV1IF05
Áfanginn er hannaður til að efla undirbúning nemenda fyrir háskólanám í líffræði eða heilbrigðisvísindum og vekja áhuga og þekkingu á viðfangsefnum sem við getum nýtt okkur til framtíðar.
Í þessum áfanga sem er fyrir nemendur með áhuga líffræði, en námsefnið er miðað við möguleika á þátttöku í Landskeppni framhaldsskólanna í sem er haldin í janúar á hverju ári. Landskeppnin hefur það að markmiði að efla áhuga og þátttöku íslenskra menntaskólanema í líffræði auk þess að velja 4 nemendur sem munu taka þátt í alþjóðlegri keppni, Ólympíukeppni í líffræði, fyrir Íslands hönd (https://ibo2020.org/en/home/). Alþjóðlega líffræðikeppnin hefur verið árviss viðburður frá 1990 (https://www.ibo-info.org/en/) og er markmið keppninnar er að hvetja og aðstoða nemendur til þekkingar á líffræði og tengdum vísindagreinum og að stuðla að samskiptum milli þeirra sem vísindamanna framtíðar.
Námsefnið er að mestu á ensku. Námið byggir á lestir umfangsmikils en áhugaverðs námsefnis um sem flest svið líffræðinnar og að taka þátt í verklegum æfingum til að fá þekkingu og reynslu í sem flestum af rannsókanraðferðum hennar. Áhersla verður á megin viðfangsefni næstu ólympísku keppni. Nemendur kanna þekkingu sína með fjölmörgum hlutaprófum sem lögð hafa verið fram í keppninni.
MANNERFÐAFRÆÐI
BUNDIÐ ÁFANGAVAL/VALÁFANGI
Undanfari: LÍFF2LE05
VERKEFNALÍFFRÆÐI
Undanfari: LÍFF2LE05
Í þessum valáfanga í líffræði fyrir náttúruvísindabraut nýtir nemandinn þá þekkingu og færni sem hann hefur aflað sér í fyrri líffræðiáföngum og öðrum námsgreinum við vinnu að fjölþættum úrlausnarefnum og verkefnum. Meginmarkmið áfangans er að nemandinn geti einn eða í teymi, aflað sér viðhlítandi þekkingar úr viðurkenndum heimildum og með eigin rannsóknum. Að nemandinn geti mótað eigin afstöðu studda rökum leiddum af þekkingaröfluninni sem áfanga til sköpunar nýrra hugmynda, við úrlausn flóknari verkefna eða til að afla nýrrar þekkingar.
MARGMIÐLUN
BUNDIÐ ÁFANGAVAL/VALÁFANGI
Undanfari: UPPT1UV05
Í áfanganum geta nemendur valið að vinna með þann miðil (videó, hljóð, stafrænar ljósmyndir, verk fyrir vef) sem þeir helst kjósa að kynnast betur. Ætlast er til að nemendur séu á þessu stigi tilbúnir til að móta sín verkefni sjálfir en fái leiðbeiningar kennara varðandi tæknileg atriði eftir þörfum til að ná fram þeirri tilfinningu eða sýn sem nemendur leita eftir. Mikilvægt er að nemandi velji sér viðfangsefni út frá áhugasviði sínu en með áherslu á listræna framsetningu. Markmiðið er að nemendur dýpki skilning sinn og reynslu á þeim miðli sem þeir velja s.s. ljósmyndun, stafrænni ljósmyndun eða myndbandi og geti nýtt sér þessa þekkingu við framsetningu verka og eigin kynningu. Það er mikilvægt að nemandi leggi fram handrit áður en hafist er handa við gerð myndbands. Í myndbandsferlinu kynnast nemendur tímatengdum þáttum eins og klippiforritum og hljóðvinnslu. Í tölvuhluta áfangans fá nemendur tækifæri til að vinna sjálfstætt út frá áhugasviði sínu. Þar má nefna hreyfimyndir í opnum hugbúnaði, rýmisstúdíur eða önnur hönnunartengd verkefni á forrit sem í boði eru hverju sinni. Nemendur geta einnig dýpkað skilning sinn á vefsíðugerð þar sem vefumsjónarkerfið Wordpress er skoðað með það að markmiði að nemendur hanni sinn eigin vef.
MYNDLIST - SKÚLPTÚRTEIKNING
Undanfari: MYNL2FF05
Í áfanganum er unnið með hugtökin rými, tvívídd, þrívídd, ljós, skuggi og myndbygging auk annarra hugtaka sem tengjast skúlptúrum og þrívíðum verkum. Leitast verður við að kynna nemandanum fjölbreytta þrívíða vinnu og að hann skoði hvernig koma má tvívíðum skissum í þrívítt form. Unnið verður með ýmis efni. Nemandinn heldur utan um skissur, hugmyndir, prufur og þróunarvinnu sína og setur fram með skipulögðum hætti.
HÖNNUN, VERKLEG SMIÐJA
VALAÁFANGI/BUNDIÐ ÁFANGAVAL
Undanfari: Enginn
Að nemendur búi yfir færni og þekkingu til þess að geta unnið með timbur og málma. Þekkja helstu galla og kosti þessara efna við hönnun á hinum ýmsu viðfangsefnum. Geta notfært sér efnin við útfærslu á vinnu þeirra í áfanganum sem og í framtíðinni, þar á meðal tenging við önnur efni. Þekki þá öryggisþætti sem við kemur vinnu með timbur og málm og þeim vélum og verkfærum sem til þess þarf.
AFBROTASÁLFRÆÐI
Undanfari: SÁLF2IS05
Farið verður í hluti eins og af hverju fremur fólk glæp, af hverju eru raðmorðingjar til, falskar játningar og fleira.
SJÓNLISTIR - LITA OG FORMFRÆÐI
VALÁFANGI
Undanfari: Enginn
Í áfanganum kynnist nemandinn lögmálum myndbyggingar og rannsakar hvernig eðli myndflatar breytist eftir því á hvaða hátt línur og form skipta honum upp. Nemandinn þjálfar sig í óhlutbundinni myndgerð með það að markmiði að ná fram mismunandi áhrifum á tvívíðan flöt en einnig í þrívídd. Grundvallaratriði í meðferð lita eru einnig viðfangsefni áfangans og kannar nemandinn samspil þeirra, virkni og áhrif. Nemandinn þjálfast í að blanda liti og beita þeim á markvissan hátt. Hann þjálfast í notkun margvíslegra efna og áhalda við rannsóknir sínar. Nemandinn kynnist verkum nokkurra listamanna og hönnuða í tengslum við verkefnavinnu. Samhliða henni þjálfast hann einnig í notkun grunnhugtaka í lita- og formfræði.
SJÚKRALIÐANÁM (SJÚK1H2023)
Undanfari: Eins árs nám í framhaldsskóla
Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Að lokinni brautskráningu frá skóla getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum.
SKYNDIHJÁLP
VALÁFANGI
Undanfari: Enginn
12 klukkustunda námskeið í skyndihjálp, kennt þrjá eftirmiðdaga.
STUÐNINGUR Í NÁMI - NÁNAR AUGLÝST SÍÐAR
VALÁFANGI
Undanfari: Enginn
Vilt þú fá stuðning í námi? Áfangi fyrir nemendur sem vilja fá stuðning í námi, fyrir nemendur sem eru með annað móðurmál en íslensku eða hafa búið erlendis. Í stuðningsáfanganum koma nemendur með sín eigin verkefni og fá aðstoð kennara eftir þörfum.
ÁLYKTUNARTÖLFRÆÐI
VALÁFANGI/BUNDIÐ ÁFANGAVAL
Undanfari: STÆR2LT05
Fjallað er um nokkrar aðferðir sem notaðar eru til að draga tölfræðilegar ályktanir. Nemendur læra að draga ályktanir um þýði á grundvelli úrtaka, setja fram tilgátur og prófa þær. Farið verður yfir helstu líkindadreifingar, grunnatriði úrtaksfræða, úrtaksdreifingu, höfuðsetningu tölfræðinnar, öryggisbil, tilgátupróf, fylgnireikninga og aðhvarfsgreiningu.
STÆRÐFRÆÐI - HEILDUN, RUNIR OG RAÐIR
BUNDIÐ ÁFANGAVAL/VALÁFANGI
Undanfari: STÆR3DF05
Í áfanganum er unnið með stofnföll falla, óákveðið og ákveðið heildi og heildunaraðferðir. Deildajöfnur af fyrsta stigi eru skoðaðar og runur og raðir.
FORRITUN
Undanfari: Enginn
Farið er lauslega yfir sögu forritunar, uppbyggingu tölvu og helstu stýrikerfi. Farið er í undirstöðuatriði forritunar og lausnir einfaldra forritunarverkefna í hlutbundnu forritunarmáli, t.d. Python og Pygame eða Java. Áfanginn getur hentað nemendum á öllum brautum. Helstu hugtök: Uppbygging tölvu, hugbúnaður og vélbúnaður, breytur, virkjar, fylki, heiltölur, kommutölur, gildissvið (scope), slembitölur, strengir, listar, grafík, föll, stafasett, tvíundar-, tuga- og sextándaform, búlskar segðir og skilyrðissetningar, lykkjur, inntak og úttak í textabundnum notendaskilum, athugasemdir röðun, prófun og villuleit.
INNGANGUR AÐ UPPELDIS- OG MENNTUNARFRÆÐI
Undanfari: FÉLV1IF05
Í áfanganum er uppeldi skoðað frá ýmsum sjónarhornum. Fjallað er um foreldrahlutverkið og rætt um hverju væntanlegir foreldrar geta búist við þegar von er á barni. Kynntar eru aðferðir atferlisstefnunnar við uppeldi og agastjórnun.
Menntaskólinn á Ísafirði
Tölvupóstur: misa@misa.is
Heimasíða: www.misa.is
Heimilisfang: Torfnes, Ísafjörður, Iceland
Sími: 450 4400
Fésbókarsíða: https://www.facebook.com/menntaisa/