
Fréttamolar úr MS
24. janúar 2023
Dagsetningar framundan
- 25.-26. janúar: Matsdagar - sjá dagskrá matsdaga hér
- 26. janúar: Valviku nýnema lýkur - sjá nánar HÉR.
- 23. janúar- 9. febrúar: MS keppir í deildarkeppni FRÍS (rafíþróttakeppni íslenskra framhaldsskóla)
- 17. febrúar: Síðasti kennsludagur vetrarannar.
Nú eru rúmlega þrjár vikur eftir af vetrarönn og við óskum nemendum góðs gengis á lokasprettinum! Það er því um að gera að bretta upp ermar og klára önnina með stæl. Snemma á vorönninni verður árshátíð nemenda og leikfélagið Thalía frumsýnir leikritið Pitsh Perfekt og það eru því spennandi tímar framundan.
Tilkynningahnappur á heimasíðu
Markmið Menntaskólans við Sund er að tryggja öllum nemendum og starfsmönnum skólans öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Mikilvægur liður í því að bæta þjónustu skólans við nemendur er að fá upplýsingar um það sem betur má fara og eins það sem þykir vel gert.
Í gegnum heimasíðu skólans er hægt að senda tilkynningar, ábendingar, kvartanir eða hrós með rafrænum hætti.
EKKO-ferlar
Á skólaárinu hefur verið unnið í stefnu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreiti og ofbeldi í skólanum (EKKO). EKKO stefnan og verkferlar er nú aðgengileg á heimasíðu skólans. Það er mikilvægt að nemendur og starfsfólk þekki EKKO ferlana og viti í hvaða farveg slík mál fara. Ferlarnir verða nánar kynntir fyrir nemendum á næstunni og við bendum á umfjöllun um þá á Instagram síðu skólans.
Stöðupróf í tungumálum
Nemendur sem tala erlent tungumál geta tekið stöðupróf til að sanna kunnáttu sína á því sviði. Á næstunni verða haldin stöðupróf í MS í þýsku, spænsku, rússnesku, ensku, arabísku og albönsku.
Nemendur sem hafa áhuga á að taka stöðupróf geta haft samband við Örn Valdimarsson (ornv@msund.is) verkefnisstjóra. Smellið á myndirnar fyrir nánari upplýsingar.
EKKI skíðaferð
Eins og í síðasta fréttabréfi viljum við í MS ítreka að það er engin skíðaferð á vegum skólans eða skólafélagsins áætluð á Akureyri. Ef nemendur ætla sér að hópast á Akureyri á skíði þá er mikilvægt fyrir foreldra að vera vakandi yfir ferðum sinna barna og fylgjast með.
Einnig viljum við ítreka að miðvikudagur og fimmtudagur 25.-26. janúar eru matsdagar og þá þurfa margir nemendur að mæta í sjúkrapróf eða önnur verkefni. Föstudaginn 27. janúar er svo kennsla samkvæmt stundaskrá.
Heimildaskráning með APA kerfinu
Hér er frábært myndband frá Elvu Björk Ágústsdóttur sálfræðikennara í MH um mikilvægi þess að vísa í heimildir. Skýrt er frá muninum á ,,góðum" og ,,slæmum" heimildum og grunnatriðum APA kerfisins gerð skil. Höfundur deildi þessu sjálf og hvetur til notkunar.
Á síðu náms- og starfsráðgjafar er að finna ýmis gagnleg verkfæri og bjargráð í námi og við hvetjum nemendur og forsjárfólk til að kynna sér það sem er í boði.