
Fréttamolar úr MS
13. febrúar 2023
Dagsetningar framundan 📌
- 16. febrúar - fimmtudagur - Ráðstefna nemenda í lokaverkefnum í hádegishléinu
- 17. febrúar - föstudagur - Síðasti kennsludagur vetrarannar
- 16.-17. febrúar - íþróttadagar og fótboltamót í kjölfarið á matsdögum (íþróttaráð SMS skipuleggur)
- 20. - 21. febrúar - mánudagur / þriðjudagur - Matsdagar
- 22. febrúar - miðvikudagur - Einkunnabirting kl. 20
- 23. febrúar - fimmtudagur - Námsmatssýning - tími og staðsetning kynnt á Innu
- Sunnudagur 26. febrúar - stundatöflur vorannar birtast í Innu
- 27. febrúar - mánudagur - Upphafsdagur annar
- Móttaka nýrra nemenda kl. 10
- Hægt að gera töflubreytingar í Innu til kl. 15.
- 28. febrúar - fyrstu kennsludagur vorannar skv. stundaskrá.
Fréttir af rakamálum í MS
Rakaskimun á húsnæði Menntaskólans við Sund sýnir að hluti húsnæðisins hefur orðið fyrir rakaskemmdum.
Rannsökuð voru bæði byggingasýni og DNA sýni. Flest byggingasýni sýndu merki um myglu en gró í DNA sýnum voru í minna magni eða B á skalanum A til F þar sem F lýsir mjög slæmu ástandi. Verkfræðistofan EFLA sá um rannsóknirnar.
Niðurstöður úttektarinnar voru kynntar fulltrúum FSRE, MS og mennta- og barnamálaráðuneytisins í lok janúar og kynntar nemendum, starfsfólki og forráðafólki skólans fimmtudaginn 9. febrúar.
Ástand bygginga er verst á þriðju hæð í Loftsteini og á fyrstu hæð í Þrísteini. Kennslustofum og vinnurýmum á þeim svæðum hefur verið lokað nú þegar. Verða þau lokuð þar til viðgerðir hafa farið fram í sumar.
Raki og mygla fundust einnig á afmörkuðum svæðum í sex kennslustofum og tveimur vinnurýmum annars staðar í eldra húsnæði. Þar verður rakaskemmt byggingarefni fjarlægt og endurnýjað með sértækum viðgerðum á annarskilum nú í febrúar. Samhliða verður farið yfir ytra byrði bygginganna til að fyrirbyggja leka og undirbúa frekari aðgerðir.
Lofthreinsitækjum hefur verið komið fyrir í sýktum rýmum. Áður en kennsla getur hafist að nýju í lok febrúar verður allur skólinn rykræstur af fagfólki með það að markmiði að hefta dreifingu myglu gróa í skólanum. Lykilatriði er að komið sé í veg fyrir skaðleg áhrif rakaskemmdanna á nemendur og starfsfólk og munu fyrirhugaðar aðgerðir samkvæmt ráðgjöf EFLU og FSRE stuðla að því.
Samkvæmt ráðleggingum frá fagfólki er gengið er út frá því að skólastarf geti farið fram að óbreyttu vikuna 13.-17. febrúar með notkun lofthreinsitækja.
Dagskrá matsdaga (20.-24. febrúar) fer eingöngu fram í Aðalsteini og Langholti á meðan unnið er að viðgerðum. Skipulag aðgerða gengur út frá því að skólastarf verði fyrir sem minnstu raski á vorönn.
Nemendur sem ekki hafa látið skólann vita af langvarandi veikindum sem mögulega tengjast mygluvandamálum er bent á að hafa samband við skólann og skila inn veikindavottorði svo koma megi betur á móts við þarfir þeirra í námi.
Með von um gott gengi og bjartari daga
Helga Sigríður Þórsdóttir
rektor Menntaskólans við Sund
Námsver í stærðfræði
Nú er boðið upp á námsver í stærðfræði tvisvar í viku með það að markmiðið að styðja við þá nemendur sem þurfa viðbótaraðstoð í náminu. Öll velkomin!
Stjórnlagaþing SMS 📑
SMS hélt sitt annað stjórnlagaþing í vikunni undir dyggri leiðsögn Kríu félagsmálastjóra. Í fyrra voru lög félagsins endurskoðuð og þetta árið voru reglugerðir skrifaðar fyrir nefndirnar. Þessi vinna er afar dýrmæt, hún eflir lýðræðisvitund nemenda auk þess að vera afar leiðbeinandi fyrir þá sem taka við keflinu eftir kosningar í vor. Vel gert 👏👏
Pepp við lok vetrarannar
Nú eru örfáir dagar eftir af vetrarönn, síðustu verkefnin að klárast og vonandi gengur allt að óskum hjá ykkur á lokametrunum. Vorið nálgast og sólin hækkar á lofti - í mars verður haldin árshátíð skólafélagsins með tilheyrandi fjöri, Thalía frumsýnir leikritið Pitsh perfekt, vonandi fer lægðunum að fækka og sólin að skína.
Við hlökkum til áframhaldandi farsæls samstarfs og að takast á við sameiginlegar áskoranir á vorönn!