
Fréttabréf
Ágúst 2023
Kæru foreldrar og forráðamenn
Nú styttist í að skólinn hefjist og samkvæmt venju byrjum við á að kennarar, nemendur og foreldrar hittist og ræði saman um komandi vetur.
Fyrstu skóladagarnir einkennast af hópefli, vinnu við bekkjarsáttmála og útiveru. Þá er nauðsynlegt að rifja upp skólareglur, og reglur sem gilda í umferðinni og á skólalóðinni á skólatíma. Við þurfum að gera nemendum ljóst að reglur eru settar til þess að auka öryggi allra.
Við skólabyrjun er úthlutað námsgögnum. Við viljum fara vel með gögnin og nýta þau á ábyrgan hátt. Það að útvega nemendum námsgögn stuðlar að jöfnuði, sparnaði og jákvæðum umhverfisáhrifum. Með fræðslu og aukinni meðvitund um umhverfið ættum við í sameiningu, skólinn, foreldrar og nemendur að geta náð árangri í að nýta gögnin vel.
Eins og staðan er núna eru 450 nemendur í skólanum, um 70 starfsmenn og hver veit hve margir forráðamenn:-) Við bjóðum nýja nemendur, foreldra og nýtt starfsfólk velkomið í hópinn okkar. Við erum fjölmennt samfélag sem þarf að standa vörð um skólastarfið og það gerum við m.a. með því að hafa einkunnarorð skólans í huga.
MENNTUN - GLEÐI - UMHYGGJA - FRAMFARIR
Með von um gott samstarf í vetur,
starfsfólk Brekkuskóla
Umferðaröryggi
Þegar skólinn byrjar fjölgar börnunum okkar í umferðinni. Við fullorðna fólkið þurfum að hjálpa þeim að fara varlega og það gerum við bæði með fræðslu og með því að vera góðar fyrirmyndir.
Gott að hafa í huga:
# Hjálpum börnunum að velja öruggustu leiðina í skólann og kennum þeim að fara yfir götur, með og án ljósastýringar.
# Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir.
# Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla.
# Tvímennum ekki á hlaupahjólum.
Brýnum fyrir börnunum að ganga vel og örugglega frá hjólum og hlaupahjólum við skólann.
Við bendum á að á skólatíma má ekki hjóla á skólalóðinni.
Á döfinni
- Samtöl nemenda, foreldra og kennara dagana 22. og 23. ágúst.
- Útivistardagur 5. september. Nánari upplýsingar koma frá umsjónarkennurum.
- Nemendur koma á sal næstu daga og farið verður yfir skólastarfið framundan.
- Lesfimipróf lögð fyrir í september í öllum árgöngum.
- Foreldrasamstarf 1 - 3 - 5 - 8 er áætlað í september, nánar auglýst síðar.
Mentor
Foreldrar geta sjálfir skráð börnin veik í gegnum Mentor. Ef sækja þarf um leyfi fyrir nemendur þá er það gert með því að fara á heimasíðu skólans og óska þar eftir leyfi. Alltaf skal haft samráð við umsjónarkennara þegar óskað er eftir leyfi.
Á heimasíðu Mentors er m.a. handbók fyrir aðstandendur þar sem hægt er að nálgast ýmsar gagnlegar upplýsingar og notkunarleiðbeiningar. Athugið að ekki er víst að skólinn nýti alla möguleika sem Mentor býður upp á - það er valkvætt hvernig skólar ákveða að nota kerfið.
Uppeldi til ábyrgðar & áætlun gegn einelti
Í Brekkskóla höfum við valið okkur þessar tvær leiðir; Uppeldi til ábyrgðar og áætlun gegn einelti til að stuðla að öryggi og vellíðan nemenda.
Uppeldi til ábyrgðar - Uppbygging sjálfsaga. (Restitution - Self Discipline) Gengur í stuttu máli út á það að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga.Nemendur læra:
Að setja sér markmið, gera uppbyggingaráætlanir, stunda sjálfsrannsókn
Að rækta og efla sinn innri áhuga
Að bera ábyrgð á eigin námi
Að læra leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun
Aðferðir við lausn ágreiningsefna
Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum.(Minni freisting að taka vonbrigði sín út á öðrum eða leggja aðra í einelti)
Að mynda tengsl við aðra
Að bera ábyrgð á eigin mistökum, leiðrétta þau og bæta fyrir þau
Að verða þeir sjálfir - þær manneskjur sem þeir vilja vera.
Að gera bekkjarsáttmála
Áætlun gegn einelti
Á heimasíðu Brekkuskóla er að finna áætlun gegn einelti sem er hugsuð til að fyrirbyggja einelti, bæta líðan og öryggi nemenda og bregðast við grun um einelti á fullnægjandi hátt. Því miður er einelti til staðar í skólanum og samfélaginu okkar og því verðum við í sameiningu að vinna hörðum höndum að fyrirbyggjandi aðgerðum og bregðast ákveðið við þegar upp kemur einelti.
Brekkuskóli er hnetulaus skóli
Við minnum á að Brekkuskóli er hnetulaus skóli. Það gildir bæði fyrir nemendur og starfsfólk.
Hér að neðan er slóð inn á síðu Astma og ofnæmisfélags Íslands þar sem eru frekari upplýsingar.
https://ao.is/index.php/utgefidh-efni/28-fraedsla/ofnaemi/faeduofnaemi/292-leidhbeiningar-til-skola-leikskola-og-adhila-i-fristundastarfiHafðu samband
Email: brekkuskoli@brekkuskoli.is
Website: brekkuskoli.is
Location: v. Skólastíg
Phone: +354 414-7900
Facebook: https://www.facebook.com/brekkuskoli.is/