
Fréttabréf Síðuskóla
6. bréf - febrúar - skólaárið 2023-2024
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Þá er janúar að baki og ótrúlegt hvað birtir hratt þessa dagana. Í síðustu viku voru samtalsdagar í skólanum og vonum við að samtölin hafi nýst vel til að ræða nám og líðan nemenda.
Dagana 19. febrúar til 1. mars mun 100 miða leikurinn fara fram í skólanum en hann er árlegur viðburður í skólastarfinu. Leikurinn stendur yfir í tvær vikur og er markmiðið með honum að hvetja nemendur til að fara eftir SMT skólareglunum. Starfsmenn gefa 10 nemendum á dag sérstaka hrósmiða sem eru settir á spjald með reitum merktum frá 1 til 100. Búið er að velja vinningsröð á spjaldinu og kemur svo í ljós í lok leiks hvaða nemendur eru í vinningsröðinni.
Við viljum minna á það að ef nemendur eru keyrðir í skólann þá á að nýta sleppisvæðið nema sérstakar ástæður kalli á annað.
Við minnum svo á að klæða sig vel eftir veðri ekki síst þeir sem fara út í frímínútur. Það er kalt þessa dagana þó það sé fallegt vetrarveður.
Bestu kveðjur úr skólanum,
Ólöf, Malli og Helga
Leiðsagnarnám í Síðuskóla
Haustið 2023 hófst markviss vinna við innleiðingu leiðsagnarnáms í Síðuskóla undir leiðsögn Nönnu Krístínar Christiansen. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Markmið með innleiðingunni er að starfsfólk fái í hendur verkfæri til að þróa og efla kennslu, gera kennslustundir enn markvissari, efla virkni nemenda í kennslustundum, fá þá til að bera meiri ábyrgð á eigin námi, að þeir sjái framvinduna o.s.frv.
Megintilgangur leiðsagnarnáms er að er að auka hlutdeild og ábyrgð nemenda á eigin námi og stuðla þannig að bættum árangri. Nemendur eiga alltaf að vita hvert þeir stefna í námi sínu og hafa viðmið um árangur. Þeir þurfa að vita hvar þeir eru staddir á leið sinni og fá leiðsögn sem hjálpar þeim til að brúa bilið þar á milli.
Námsfélagar
Námsfélagar eru eitt helsta einkenni leiðsagnarnáms. Ein besta leiðin til að fá nemendur til að hugsa um nám sitt er að hvetja þá til að tala um það. Samræður námsfélaga stuðla að því að nemendur velti í sameiningu fyrir sér spurningum sem tengjast náminu og skipuleggi það saman en þannig geta þeir lært hverjir af öðrum.
Námsfélagar eru valdir tilviljunarkennt, oftast til einnar viku í senn. Námsfélagar eru sessunautar á tímabilinu og ræða saman samkvæmt fyrirmælum kennara. Samræður námsfélaga eru mjög markvissar og tíminn sem nemendur fá til að hugsa og ræða spurningu eða fullyrðingu kennara miðast við að ekki skapast tækifæri til að hugsa eða ræða um óskylt efni. Um leið þarf tíminn að vera nægilega rúmur til að allir nemendur hafi tök á að ígrunda og ræða spurninguna sem um ræðir.
1. bekkur - 100 daga hátíð
Í 1. bekk er unnið hörðum höndum að því að halda 100 daga hátíð sem verður á morgun. Hún markar þau tímamót að nemendur hafa verið 100 daga í skólanum og ætla svo sannarlega að halda upp á það. Í morgun voru þau að gera kramarhús þar sem þau munu safna í 100 góðgætum í, að eigin vali fyrir daginn. Góðgætið er m.a. morgunkorn af ýmsum tegundum og því er verkefnið tengt talnavinnu. Á þessum skemmtilegu myndum má sjá að allir voru að teikna myndir á blöð sem síðan var breytt í kramarhús.
Bílastæði við skólann
Við viljum minna á að svæðið sem merkt er blátt á myndinni er hugsað sem sleppisvæði fyrir leikskóladeildina. Græna svæðið er gestabílastæði. Hin bílastæðin við skólann eru langtímabílastæði.
Á döfinni
6. febrúar
Nemendaþing um símamál, fulltrúar úr 7.-10. bekk úr öllum skólum á Akureyri
2. bekkur - Krakkarnir í hverfinu
8. bekkur - markmiðasetning, Þorgrímur Þráinsson
8. bekur - kynfræðsla (stelpur)
7. febrúar
Opið hús fyrir foreldra verðandi 1. bekkinga
8. bekkur - kynfræðsla (strákar)
8. febrúar
9. bekkur - kynlífs chat pack
13. febrúar
Flokkunarkeppni
14.-16. febrúar
Vetrarfrí í Síðuskóla, Frístund lokuð á öskudag en opnar kl. 13 fimmtudag og föstudag.
20. febrúar
10. bekkur - Margrét Lára með fræðslu um andlega og líkamlega heilsu
21. febrúar
8.-10. bekkur, Skúli Bragi ræðir um stafrænt umhverfi, símanotkun og fleira
Lumar þú á gulli?
Eins óskum við eftir legói, ef það liggur inni í geymslu ónotað er tilvalið að koma því í daglega notkun hjá okkur.