
Delta, Kappa, Gamma á Íslandi
Kveðja frá forseta við lok ársins 2018
Hugleiðingar við lok árs
Árið hefur verið viðburðaríkt, eins og þau eru nú yfirleitt. Það hefur verið bæði skemmtilegt og lærdómsríkt að fá að starfa sem forseti DKG og margt í því stússi mun verða eftirminnilegt þegar frá líður. Vorþingið á Egilsstöðum sem menntamálanefnd og Zetakonur sáu um með miklum ágætum var gott sýnishorn af því hver útkoman verður þegar konur í fræðslustörfum leggja saman krafta sína. Svo er alltaf gaman að fá fréttir og myndir af störfum deilda og nefnda og efst í minninu núna hvað það varðar er afmælishátíð Þeta - deildar sem haldin var með glæsibrag í nóvember. Þátttaka í alþjóðastarfinu hefur líka gefið mér mikið og þar eru tækifæri sem ég hvet ykkur til að skoða, þar getum við sannarlega haft áhrif þó að við séum ekki margar.
Það eru líka næg verkefni framundan og ber þar hæst undirbúning alþjóðaráðstefnunnar í júlí og Landssambandsþings í byrjun maí. Ég bind vonir við að þátttaka í þessum viðburðum verði góð því þetta eru næringaleiðir samtakanna.
Að lokum
Sem lokaorð þetta árið langar mig að leggja út af sjöunda markmiði samtakanna sem er að:
- Að fræða félagskonur um það sem efst er á baugi í efnahagsmálum, félagsmálum, stjórnmálum og menntamálum og stuðla með því að vaxandi skilningi og virkri þátttöku þeirra í samfélagi þjóðanna.
Ég hef velt vöngum, eins og fleiri, yfir þeirri hugsun sem birtist okkur í samræðum þingmanna á Klaustri í lok nóvember. Þetta var með öllu óafsakanlegt og maður hlýtur að velta fyrir sér hvað hafi brugðist í samfélagi þar sem ráðamenn leyfa sér svona orðræðu. Þeir sem áttu í hlut eru auðvitað ábyrgir fyrir eigin hegðan en ég velti fyrir mér hvort samfélagsleg mörk og það taumhald sem þau eiga að búa til sé á einhvern hátt skakkt í íslensku samfélagi og hvað sé hægt að gera til að færa þau til baka þannig að engum detti í hug að láta svona orð út úr sér, í það minnsta ekki á almannafæri.
Í þessu samhengi finnst mér gott að hugsa um DKG og meðal annars sjöunda markmiðið. Í félagi eins og DKG er kurteisi og virðing innifalið í öllu starfi og við höfum því miklu að miðla til samfélagsins hvað það varðar.
Ég hef trú á að það hjálpi samfélaginu að þroskast að konur sem vilja láta til sín taka og eru færar um að taka þátt í umræðum á málefnalegan og kurteisan hátt setji svip sinn á öll samræðuefni.
Í sjöunda markmiði DKG er meðal annars skýrt tekið fram að mikilvægt sé að fræða konur um það sem efst er á baugi í stjórnmálum. Það er oft flókið að ræða stjórnmálaskoðanir í fjölmennu félagi sem á að rúma fjölbreyttar skoðanir og DKG eru ekki pólitísk samtök í þeim skilningi sem við leggjum venjulega í það orð. En ég veit að við erum allar sammála um að við viljum byggja upp samfélag þar sem virðing og kurteisi eru sjálfsagðir hlutir og niðrandi talsmáti ráðamanna viðgengst ekki.
Þó að umræðan sé stundum afleit tel ég mikilvægt að reyna hafa áhrif á hana og ef okkur tekst að láta markmið DKG speglast í orðum okkar leggjum við okkar af mörkum til að færa umræður á yfirvegaðra og hærra plan og hjálpum þannig til að setja samfélaginu mörk.
Við höfum valið okkur hlutverk sem meðal annars felur í sér að hafa áhrif á menntun og uppeldi og það gerum við með virkri þátttöku í því sem fram fer í samfélaginu hverju sinni.
Verum virkar og tökum þátt og höfum þar með jákvæð áhrif á samfélagið í kringum okkur.
Bestu kveðjur til ykkar allra og takk fyrir samstarfið á líðandi ári.
Kveðja úr léttri sumarblíðu vestan af fjörðum
Jóna