
Flataskólafréttir
Skólaárið 2021-2022 - 25. maí 2022
Kæra skólasamfélag!
Þá líður að lokum skólaársins og nú eru bara nokkrir skóladagar eftir hjá grunnskólanemum þar til sumarfríið skellur á. Veturinn hefur um margt verið undarlegur sökum sóttvarnaráðstafana en allt er gott sem endar vel og undanfarna mánuði höfum við sem betur fer náð að halda uppi þróttmiklu skólastarfi án takmarkana. Við vonum svo að sjálfsögðu að við getum tekið upp þráðinn af fullum krafti í lok sumars!
Allra síðustu dagar skólaársins verða með hefðbundnu vorsniði þar sem við brjótum upp stundaskrána og nýtum okkur góða veðrið (vonandi) til vettvangsferða, útivistar og leikja. Þar sem skíðaferðir féllu niður hjá okkur í vetur ætlum við að nýta okkur rútur í meira mæli en venjulega á útivistardögunum í næstu viku og gera víðreist um umhverfið. Skólatími nemenda þessa daga verður hins vegar sá sami og venjulega, þ.e. skóladeginum hjá 1.-4. bekk lýkur kl. 13:30 en í 5.-7. bekk á bilinu 13:30-14:00 eftir því hvenær komið er til baka úr ferðalögum. Þessa daga er svo að sjálfsögðu afar mikilvægt að nemendur séu klæddir eftir veðri.
Sú hefð virðist hafa skapast hjá mörgum árgöngum að kveðja umsjónarkennara í lok skólaárs með gjöfum eða glaðningi af einhverju tagi. Þetta er að sjálfsögðu engin skylda en ef foreldrar og nemendur ákveða að hafa þennan hátt á biðjum við um að gjafir verði hófsamar þannig að fjárútlát verði ekki íþyngjandi fyrir neinn og að enginn verði skyldaður til þátttöku. Þá biðjum við jafnframt um að gjafir verði þá í nafni hópsins en nemendur ekki látnir skrifa undir neitt því ekki er víst að allir geti eða vilji taka þátt í samskotum vegna þessa.
Þar sem þetta er síðasta fréttabréf skólaársins viljum við nota tækifærið og þakka fyrir afar gott samstarf í vetur, ekki síst í gegnum erfiðar sóttvarnaraðgerðir en þar eiga nemendur, foreldrar og starfsfólk sannarlega þakkir skildar fyrir yfirvegun og æðruleysi.
Með von um gott og gleðilegt sumarfrí fyrir nemendur okkar og fjölskyldur þeirra!
Stjórnendur Flataskóla
Helstu viðburðir framundan:
- 26. maí - Uppstigningardagur - frí
- 27. maí - Skipulagsdagur leik- og grunnskóla
- 31. maí - Unicef hreyfingin
- 1.-2. júní - Útivistardagar
- 3. júní - Flataskólaleikar
- 6. júní - Annar í hvítasunnu - frí
- 8. júní - Skólaslit grunnskóla
- 23. ágúst 2022 - Skólasetning
Skólaslit vorið 2022
- Kl. 8:30 - 1.-3. bekkur
- Kl. 9:30 - 4.-6. bekkur
- Kl. 12:00 - útskrift 7. bekkjar
- Kl. 15:00 - útskrift 5 ára nemenda
Breyting á skóladagatali næsta skólaárs
Í námsferðinni mun starfsfólk skólans sitja námskeið um leiðsagnarnám og kynna sér starf í skólum sem framarlega standa á því sviði.
Skólasetning haustið 2022 verður þriðjudaginn 23. ágúst.
Dagana 15.-22. ágúst verður sumarskóli fyrir verðandi nemendur í 1. bekk skólans.
Sumarlestur
Hins vegar má nefna að mörg bókasöfn víðsvegar um land standa fyrir sumarlestri og það á einmitt við um Bókasafn Garðabæjar. Þar hefst lestrarátakið með opnunarhátíð og skráningu þann 28. maí kl. 12-14 - Nánari upplýsingar hér
Á myndinni hér fyrir neðan má svo sjá yfirlit yfir fyrirkomulag sumarlestrarins en upplýsingar má nálgast á heimasíðu Bókasafnsins.
Unicef hreyfingin
Þriðjudaginn 31. maí tökum við í Flataskóla að venju þátt í verkefni sem kallast Unicef-hreyfingin. Um er að ræða fræðslu og fjáröflunarviðburð sem byggir á hollri hreyfingu og útivist. Markmið verkefnisins er að fræða börn um réttindin í Barnasáttmálanum og virkja þau til samstöðu með jafnöldrum sínum um allan heim. Árlega fer því fram fræðsla í tengslum við atburðinn þar sem sýnd eru myndbönd og efnt til umræðna um aðstæður og réttindi barna. Myndbandið í ár var unnið af ungmennaráði Unicef á Íslandi í tilefni af Alþjóðadegi barna árið 2021 og þar er talað fyrir auknum réttindum barna og gegn rasisma, aldursfordómum og fötlunarfordómum.
Í Unicef-hreyfingunni taka allir nemendur skólans þátt og stefna að því að hreyfa sig í 30 mínútur. Hlaupið er í hringi á Samsung vellinum. Fyrir hvern hring fá nemendur límmiða í þar til gerðan passa. Um er að ræða áheitahlaup þar sem börnin safna áheitum fyrir hvern hring sem þau hlaupa. Einnig er hægt að heita fastri upphæð fyrir þátttöku.
Hægt er að láta upphæðina í áheitaumslag sem barnið kemur með heim á næstu dögum og skilar aftur til skólans eða leggja beint inn á styrktarreikning UNICEF á Íslandi: 701-26-102010, kt:481203-2950 eða AUR: 789-6262. Vinsamlega skrifið nafn skólans sem útskýringu með greiðslunni. Kjósi styrktaraðili að leggja upphæð sína beint inn á reikning UNICEF á Íslandi sendir hann kvittun úr heimabanka eða tilkynningu á hreyfingin@unicef.is.
Börnin geta að sjálfsögðu tekið þátt í UNICEF -hreyfingunni án þess að nokkur heiti á þau. Engin skylda er að safna áheitum. Þátttakan ein og sér er mikilvæg og börnin geta sýnt velvilja sinn með því að láta sig málefnið varða og tala til dæmis um það við fjölskyldu sína og vini. Nánari upplýsingar eru á www.unicef.is/unicef-hreyfingin.
Þriðjudaginn 31. maí þurfa því allir að mæta í skólann búnir til útivistar og hlaupa. Mikilvægt er að koma í skóm sem hægt er að hlaupa í (ekki er gott að hlaupa í stígvélum, töflum eða þungum gönguskóm). Ef eitthvað er óljóst þá hikið ekki við að hafa samband við okkur í skólanum.
Schoolovision
Menntastefna Garðabæjar
Nú er komin út endurskoðuð menntastefna Garðabæjar 2022-2030. Stefnan byggir á grunni skólastefnu bæjarins frá 2014 en undanfarna mánuði hefur verið unnið að uppfærslu hennar í samráði við nemendur, skólastarfsfólk, kjörna fulltrúa, forráðamenn og bæjarbúa. Stefnan tekur mið af þeim fjölmörgu lagabálkum og stefnum sem gilda um og taka til skólastarfs og tengdrar þjónustu, aðalnámskrám grunn- og leikskóla og verkefna sem unnið er að og tengjast menntastefnu enda er skólastarf barna að 16 ára aldri á verksviði sveitarfélaga.
Garðabær er aðili að Heilsueflandi samfélagi þar sem unnið er að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa og verið er að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Þá er leitast við að láta alla stefnumótun taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmiðin eru samofin og samverkandi en mikil tenging er við menntastefnu stjórnvalda, þá sérstaklega markmið um
menntun fyrir alla, markmið um heilsu og vellíðan.
Menntastefnu Garðabæjar er ætlað að leggja grunn að farsælu og framsæknu skólastarfi sem einkennist af jákvæðum skólabrag og veitir öllum börnum menntun og færni til mæta þeim áskorunum sem felast í hröðum og stöðugum samfélags- og tæknibreytingum.
Það er um að gera fyrir foreldra og aðra áhugasama að kynna sér plaggið en það má nálgast hér.
Opnunartími skrifstofu
Skrifstofa skólans verður lokuð á tímabilinu 27. júní til 1. ágúst. Ef þörf krefur verður á því tímabili hægt að senda tölvupóst á flataskoli@flataskoli.is
Almennur opnunartími
Skrifstofa skólans er opin kl. 7:45-15:00 alla daga vikunnar nema á föstudögum til kl. 14:30Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Öll leyfi skal sækja um í gegnum Mentor.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500