
Hvalrekinn
20. janúar 2022

Heimanám - Hvatning
Við viljum minna á að samkvæmt reglum um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar er nám nemenda sem er í leyfi, sóttkví eða sjálfskipaðri sóttkví á ábyrgð foreldra. Því viljum við benda á að allar áætlanir nemenda í 1. – 10. bekk má finna inn á Mentor og hjá nemendum með spjaldtölvur/Ipad eru verkefni, áætlanir og annað efni er einnig að finna inni á Google Classroom.
Foreldrar geta nálgast námsbækur og önnur gögn í skólanum.
We would like to remind you that according to the rules on school attendance in Hafnarfjörður, the education of students who are on leave, quarantine or self-appointed quarantine is the responsibility of the parents. We would also like to point out that all plans for students in 1st - 10th grade can be found on Mentor. In addition, for students with Ipads, assignments, plans and other material can also be found on Google Classroom.
Parents can arrange to get books from the school.
Námsviðtöl 2. febrúar 2022
Eins og kemur fram í skóladagatalinu fyrir þetta skólaár þá eru námsviðtöl ráðgerð miðvikudaginn 2. febrúar. Í ljósi aðstæðna teljum við ekki ráðlegt að stefna foreldrum í skólann þann 2. febrúar. Þess vegna koma námsviðtölin til með að eiga sér stað með rafrænum hætti.
Foreldrar panta viðtal í Mentor eins og verið hefur. Opnað verður fyrir skráningu þriðjudaginn 25. janúar og er skráningin opin til og með 30. janúar. Þórunn Harðardóttir skrifstofustjóri hefur sett inn þau viðtöl þar sem túlkur er með. Ekki hægt að breyta tímasetningu þeirra viðtala.
Ef einhverjir foreldrar hafa tök á eða óska eftir að funda á öðrum degi en 2. febrúar, þá vinsamlegast sendið umsjónarkennara tölvupóst. Við horfum til þess að nýta Google Meet en appið er uppsett á spjaldtölvum nemenda í 5. - 10. bekk.
Stöðumat í janúar 2022
Fyrir fundina þurfa foreldrar ásamt börnum sínum, að skoða námsframvinduna inni á Mentor. Opnað verður fyrir stöðumatið í Mentor þann 25. janúar. Athygli er vakin á því að hæfnikortið er lifandi plagg og því getur síðasta mæling ekki alltaf gefið rétta mynd. Sum hæfniviðmið eru metin oftar en einu sinni en það á frekar við eftir því sem börnin verða eldri. Þegar svo er þarf að skoða hæfniviðmiðið í Mentor og þá kemur upp saga/námsferill, þ.e. hvaða hæfni barnið hefur náð frá því skólinn hófst. Gott er að skoða það til að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu.
Nú í janúar er gefin einkunn fyrir framvindu, sem ætluð er til að gefa nemendum og foreldrum nokkra hugmynd um stöðu barnsins í hverri grein. Einkunnin lýsir stöðu barnsins í janúar 2022 en hún birtist efst á hæfnikorti nemandans í hverju fagi. Eins og áður segir opnar hæfnikortið þriðjudaginn 25. janúar. Til að gefa fyrir framvinduna notum við skalann; góð framvinda, hæg framvinda, í hættu að ná ekki lágmarkshæfni.
Hér má nálgast leiðbeiningaglærur fyrir foreldra til að skoða námsmat barna sinna.
Þú getur þjálfað upp þínar svefnvenjur og stuðlað þannig að bættri heilsu
Fyrir okkur flest, þá er svefn bara eitthvað sem við þurfum að gera og við leggjum oft ekki neina vinnu í að hámarka gæði svefns til þess að stuðla að bættri heilsu. Margir hafa orðið varir við umræðu varðandi svefnvenjur unglinga og að þeir séu ekki að fá nægan svefn og séu jafnvel með ranga líkamsklukku. Það er staðreynd að skortur á gæðasvefni getur haft skaðleg áhrif á heilsu okkar. Hér eru nokkrar staðreyndir:
- Skortur á gæðasvefni veikir ónæmiskerfið í okkur og við verðum oftar veik. Við þurfum sérstaklega að huga að þessum þætti í baráttu við kórónuveiruna. Sterkt ónæmiskerfi ver okkur fyrir veikindum.
- Skortur á gæðasvefni í langan tíma getur ýtt undir alvarleg veikindi eins og hjartasjúkdóma, háan blóðþrýsting, óreglulegur hjartsláttur, sykursýki, o.fl.
- Skortur á gæðasvefni ýtir undir andleg veikindi eins og þunglyndi og kvíða.
- Skortur á gæðasvefni ýtir undir þyngdaraukningu
En hvað getum við gert til þess að þjálfa upp góðar svefnvenjur? Það eru til margar aðferðir til þess að tryggja það að þú fáir góðan nætursvefn og vaknir endurnærð/ur næsta morgun með orku í amstur dagsins. Hér eru aðferðir sem virka vel:
- Slökktu á skjánum um 1.5 tíma áður en þú ferð að sofa. Bláa ljósið frá síma/ipad hefur neikvæð áhrif á svefn.
- Kældu svefnherbergið niður. Kjöraðstæður fyrir svefn er um 18° og til að hefja svefn er gott að minnka kjarnahita okkar um 1 gráðu. Þú sofnar fyrr, helst sofandi yfir nóttina og bætir svefngæðin.
- Myrkur. Ekki fara að sofa með bjart í herberginu.
- Búðu til svefnáætlun. Farðu ALLTAF að sofa á sama tíma og vaknaðu ALLTAF á sama tíma. Líka um helgar.
- Ekki fara svöng/svangur að sofa. Ekki borða þunga máltíð rétt fyrir svefninn.
- Stundaðu líkamsrækt. Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing bætir svefn.
Fyrir marga hljómar þetta eins og mikið af atriðum sem þarf að huga að en eins og með allt annað, þá þarf ekki nema smá tíma til þess að búa sér til nýjar venjur.
Ég þjálfa mikið af afreksíþróttafólki og fæ ósjaldan fyrirspurnir varðandi næringu og fæðubótarefni. Hvað sé hægt að gera til þess að bæta afköst. Svarið mitt er alltaf það sama: Skoðaðu svefnvenjur þínar og bættu þær ef þörf er á. Þegar svefninn er kominn í lag, þá fyrst fer allt hitt að virka.
Vilhjálmur S. Steinarsson, íþróttakennari

Ferðalög erlendis / travel abroad / podróżować zagranicę
Samrómur - Þriðja Lestrarkeppni grunnskóla hefst 20. janúar 2022
Þriðja Lestrarkeppni grunnskólanna hefst þann 20. janúar næstkomandi og stendur til 26. janúar. Fyrirkomulagið verður með sama hætti og í fyrri keppnum. Sem fyrr gengur keppnin út á að lesa setningar inn í gagnasafn, í gegnum vefinn samrómur.is. Upptökurnar verða svo notaðar til að þróa máltæknilausnir sem kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku. Forseti Íslands og forsetafrú munu hefja keppnina og verðlaunaafhending að henni lokinni fer fram á Bessastöðum.
Nemendur, foreldrar og starfsfólk skóla geta lesið inn fyrir sinn skóla. Við hvetjum alla til að taka þátt því miklu skiptirað fá framlög frá breiðum hópi og tryggja þannig að tæknin skilji raddir og framburð allra.
Viðtökur við síðustu Lestrarkeppni Samróms fóru fram úr björtustu vonum. Alls tóku um 6.000 einstaklingar þátt fyrir hönd 136 skóla og lásu rúmlega 776 þúsund setningar. Við erum því afar spennt fyrir komandi keppni og vonumst eftir þátttöku sem flestra skóla.
Mikilvægi læsis og móðurmáls.
Hér er hægt að nálgast bæklinga á ýmsum tungumálum um mikilvægi móðurmálsins. Að hafa gott vald á móðurmálinu hjálpar börnum að læra íslensku, þar sem tungumál vinna saman, en er ekki síður mikilvægt til að þroska með einstaklingum öryggi og sterka sjálfsmynd.
https://www.ryerson.ca/mylanguage/brochures/
Hér er bæklingur frá Bókasafni Hafnarfjarðar um mikilvægi lesturs og að skapa notalegar lestrarstundir foreldra og barna. Þessi bæklingur er bæði á íslensku, ensku og pólsku.
https://www.hafnarfjordur.is/media/auglysingar/laesisbaeklingur-isl.pdf
https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-ens.pdf
https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/laesisbaeklingur-pol.pdf
Skólasöngur Hvaleyrarskóla
Munum öll - að þakka fyrir það.
sem okkur er gefið, sama hvað,
Með jákvæðni og æðruleysi.
Það sem bætir lífið okkar er kurteisi.
- Viðlag -
Við í Hvaleyrarskóla stöndum hönd í hönd
Ekkert mun slíta okkar vinabönd.
saman skínum skært sem kertaljós
því skólinn minn er mitt leiðarljós
-BRÚ -
Við hjálpumst alltaf að
nefndu stund og stað,
þá kem ég með
og stend með þér.
Umhverfið - pössum við vel
Og pössum hvort annað, líka jafn vel.
Erum vafin vinatryggð.
Það sem bætir lífið okkar er ábyrgð
- VIÐLAG -
Bjóðum hjálp, ef eitthvað er að
og tökum vel eftir, hugsum um það
Í amstri dagsins er mörgu að sinna
Það sem bætir lífið okkar er, samvinna.
- VIÐLAG Í KEÐJU
lag : Guðrún Árný. Texti : Palli ( Páll S. Sigurðsson) og Guðrún Árný
Bekkjartenglar geta sótt um styrk fyrir viðburðum
Hverfisrölt á Hvaleyrarholti
Búið er að setja upp skipulag fyrir hverfisrölt hér á Holtinu. Skráningarskjal er í gegnum Google sheet sem virkar þannig að þið foreldrar/forráðamenn sem viljið leggja okkur lið og taka þátt í hverfisröltinu skráið ykkur sjálf inní skjalið þá daga sem þið hafið tök á. Í lok hverrar vaktar biðjum við ykkur svo um að setja inn nokkur orð um hvernig gekk, hvað þið sáuð, hvert var farið og ef þið hafið einhverjar ábendingar eða athugasemdir.
Ef þið hins vegar verðið vör við hættulega eða ólöglega hegðun þá skal hringja beint í 112.
Í upphafi verða settir inn mánudagar og föstudagar og gert er ráð fyrir að allavega 2 aðilar fari í hvert skipti. Ef ekki næst að fylla einhverja daga fellur röltið niður þann dag. Öll samskipti fara í gegnum Margréti Heiðu deildarstjóra eða Dísu aðstoðardeildarstjóra tómstundamiðstöðvarinnar í Hvaleyrarskóla. Hægt verður að nálgast gul vesti merkt foreldrarölti í félagsmiðstöðinni í Hvaleyrarskóla til kl 22. Við höfðum hugsað okkur að prófa þetta fyrirkomulag til áramóta og sjá hvernig gengur. Eftir áramót myndum við mögulega hafa röltið á öðrum dögum en það kemur þá bara í ljós hvernig það verður.
Hér er hlekkur á skjalið: https://docs.google.com/spreadsheets/d/1NMNCZe4F7N9dv2BracLYOPfqoGH4PuIoCqujkkccTZo/edit?fbclid=IwAR0sGFkyumQeh_BZuhZTkRHCo4TlCI8cdrpVDCnYS3_uNzBf90urCNC6f5o#gid=0
Ef þið hafið frekari spurningar bið ég ykkur vinsamlegast að senda mér póst á margretm@hvaleyrarskoli.is.
KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA
Hvalrekinn
Opnunartími skrifstofu:
Kl. 7:45 - 15:00 mán-fim
Kl. 7:45 - 14:00 fös
Email: hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is
Website: www.hvaleyrarskoli.is
Location: Akurholti 1
Phone: 354 565 0200
Facebook: https://www.facebook.com/hvaleyri/