
Styttist í vikulok
22.04.2020
Lokaspretturinn
Hér á eftir eru ýmsar gagnlegar upplýsingar um annarlok sem ég hvet nemendur og forsjáraðila til að kynna sér mjög vel.
Vinnustofudagur er framundan, próftafla með óhefðbundnu sniði og svo eru tilbúnar stundatöflur fyrir nemendur í iðnnáminu sem koma inn í skólann í maí til að ljúka verklegum áföngum.
Útlit er fyrir að nemendur á starfsbraut komi inn einn dag í maí í námsmat og skólaslit, Auður deildarstjóri starfsbrautar mun upplýsa nemendur nánar um þetta. Veðurguðirnir munu hafa áhrif á þessa ákvörðun þar sem tveggja metra reglan er í gildi áfram.
Einnig er unnið að skipulagningu brautskráningar sem verður með óhefðbundnu sniði. Það ætti ekki að verða vandamál, við erum orðin afar fær í að laga okkur að óvenjulegum aðstæðum, ekki satt?
Hugsið vel um ykkur og verið dugleg að klappa ykkur á bakið fyrir hversu vel þið hafið tæklað krefjandi aðstæður þessar síðustu vikur. Ég er að rifna úr stolti yfir ykkur öllum - þið eruð frábær.
Hlýðum Víði og klárum þetta saman, hvort sem um er að ræða önnina eða samkomubannið!
Gleðilegt sumar!
Lilja
Stundatöflur fyrir verklega áfanga í iðnnámi - maí
Brautskráning
Vegna aðstæðna verða eingöngu útskriftarnemar á staðnum og þeir starfsmenn sem nauðsynlega þurfa að vera. En við erum öll aðlögunarhæf og gerum gott úr þessu. Hér er um að ræða sögulega brautskráningarathöfn, ekki amalegt að vera þátttakandi í því.
Athöfninni verður streymt á netinu og koma nánari upplýsingar um það síðar.
Brautskráningarnemar sem eru tilbúnir til að vera með tónlistaratriði við athöfnina eru beðnir um að hafa samband við skólameistara, lilja@va.is Venjan hefur verið sú að hafa 2-3 tónlistaratriði á þessari hátíðlegu stundu.
Heimavist og mötuneyti í maí
Gert er ráð fyrir að nemendur komi ekki inn á vist fyrr en þörf er á, þ.e. ekki fyrr en seinnipart dags áður en kennsla hefst en eins og sjá má hér fyrir ofan þá eru stundatöflur breytilegar.
Einnig er óskað eftir því að vistarbúar tæmi herbergi sín, þrífi þau og yfirgefi vistina um leið og kennsludögum þeirra lýkur.
Mikilvægt er að alltaf séu virt fyrirmæli um 2ja metra fjarlægð á milli einstaklinga.
Útbúnir verða morgunverðarpakkar fyrir vistarbúa og hádegismatur verður afgreiddur á Hildibrand hotel þar sem mötuneytið á vistinni verður ekki opnað aftur vegna sóttvarna.
Gert er ráð fyrir nemendum í mötuneyti frá og með kvöldmat daginn áður en kennsla hefst hjá þeim (sunnudagar undanþegnir). Ekki er gert ráð fyrir nemendum í kvöldmat daginn sem kennslu lýkur hjá þeim.