
Fréttabréf Lundarskóla
Ágúst 2023
Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda í Lundarskóla
Nú styttist í skólabyrjun. Við hlökkum til að hitta nemendur og takast á við viðfangsefni næsta skólaárs í samvinnu við nemendur og foreldra/forráðamenn skólans. Við höfum metnað til að gera gott skólastarf enn betra. Við vinnum ávallt samkvæmt stefnu skólans um SMT, heilsueflandi grunnskóla, teymisvinnu starfsfólks og í samræmi við menntastefnu Akureyrarbæjar. Í Lundarskóla er starfið í stöðugri þróun með áherslu á aukin gæði náms, vellíðan og velferð nemenda.
Á næsta skólaári verður lögð áhersla á þróun leiðsagnarnáms. Rannsóknir sýna að leiðsagnarnám hefur jákvæð áhrif á námsárangur og sjálfstraust nemenda. Í leiðsagnarnámi er lögð áhersla á sýnileg og skýr markmið, markvisst mat og leiðsögn um næstu skref í námi, samvinnu og félagastuðning og að veita nemendum hlutdeild í ákvarðanatöku um nám sitt.
Einnig verður lögð áhersla á að efla foreldrasamstarf enn frekar. Í því felst að efla skólaráð, auka samstarf við foreldraráð, og styðja bekkjarfulltrúa í að efla foreldrahóp hvers árgangs. Á áætlun er að bjóða foreldrum ýmist á fræðslufundi, kaffihúsafundi, haustkynningar og/eða heimsóknir í árganga í tengslum við kynningar eða þemadaga.
Ef einhverjir foreldrar hafa áhuga á að starfa með okkur í skólaráði og/eða foreldraráði þá væri gott að fá upplýsingar um það. Ef vilji er fyrir hendi þá má senda póst til skólastjóra (Maríönnu) á netfangið marianna@akmennt.is.
Einnig munu umsjónarkennarar óska eftir bekkjarfulltrúum í öllum árgöngum. Mögulega er nú þegar skipulag á því hverjir taka að sér hlutverk bekkjarfulltrúa hverju sinni í árgöngum.
Farsælt samstarf milli heimila og skóla gerir skólastarfið enn betra og við vonumst til að sjá ykkur þegar boð berast um sérstaka viðburði eða heimsóknir í skólann. Við minnum einnig á að foreldrar eru velkomnir í skólann til að taka þátt í skólastarfi í samvinnu við kennara og stjórnendur skólans.
Skólasetning
Skólasetning Lundarskóla verður á sal skólans þriðjudaginn 22. ágúst á eftirfarandi tímum:
2.- 4. bekkur kl. 9:00
5. - 7. bekkur kl. 10:00
8. - 10. bekkur kl. 11:00
Skólastjóri setur skólann og eftir það fara nemendur með umsjónarkennurum í stofu þar sem þeir fá upplýsingar um skólastarfið.
Nemendur í 1. bekk mæta í viðtöl samkvæmt sérstökum pósti frá umsjónarkennurum.
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 23. ágúst hjá öllum árgöngum nema 1. bekk sem byrjar í viðtölum 22. og 23. ágúst. Kennsla hefst hjá þeim miðvikudaginn 24. ágúst.
Frístund verður opin frá og með 22. ágúst skv. skráningu nemenda í Frístund. Nánari upplýsingar um Frístund og starfið þar veitir nýr umsjónarmaður Frístundar sem heitir Íris Björk Árnadóttir.
Gögn og upplýsingar
Fyrir skólabyrjun þá er gott að kynna sér skipulag skólastarfsing og hér eru hlekkir á gögn/upplýsingar sem eru m.a. á heimasíðu skólans.
Skóladagatal Frístundar 2023 - 2024
Við hlökkum til skólaársins 2023 - 2024
Kveðja, Maríanna, Fjóla Dögg og Helga Rún
skólastjórendur Lundarskóla