
Fréttabréf Síðuskóla
4. bréf - nóvember - skólaárið 2020-2021
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Síðasta vika hefur verið óvenjuleg hér í skólanum eins og í samfélaginu öllu. Síðastliðinn mánudag var skólastarfið endurskipulagt út frá nýrri reglugerð frá heilbrigðisyfirvöldum. Við höldum inn í næstu viku með sama skipulag og var í þessari viku. 1.-3. bekkur mætir í skólann frá 8:10-13, 4. bekkur frá 8:20-13:05, 5.-6. bekkur frá 8.10-12, 7. bekkur 8:20-12 og fjarkennsla í 8.-10. bekk. Frístund verður opin fyrir 1.-3. bekk. Okkur langar að biðja ykkur að senda börnin í 5.-7. bekk með grímur í skólann. Við eigum til vara hér í skólanum en þær eru fljótar að fara ef við þurfum að láta alla hafa.
Við höldum áfram að gera okkar allra besta í því að halda uppi fjölbreyttu starfi fyrir nemendur. Verið í sambandi við okkur ef eitthvað er óljóst, það er mikilvægt svo allt gangi sem allra best. Við gætum þurft að breyta skipulagi með stuttum fyrirvara þannig að það er mikilvægt að lesa vel allar upplýsingar sem berast frá skólanum.
Með samhentu átaki tekst okkur vonandi á stuttum tíma að komast á lygnari sjó!
Leiðarljós okkar er að vinna saman, ná árangri og gleðjast!
Með góðri kveðju inn í helgina!
Ólöf, Malli og Helga
Á döfinni
- 13. nóvember Rafrænn upplestur, Ævar vísindamaður les fyrir 4.-8. bekk kl. 10.10. Hver árgangur í sinni stofu.
- 16. nóvember Dagur íslenskrar tungu
- 20. nóvember Dagur mannréttinda barna
Hreyfiverkefni í 10. bekk, teiknað í fjöruna
1. bekkur í Frístund
Jólaföndur hjá 3. bekk í Frístund
Úrslit í göngum í skólann
Markmið Göngum í skólann er m.a. að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og um leið fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar. Okkar von er að þetta verkefni verði hvatning fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla allt árið um kring.
Í ár notuðust 88,4% nemenda Síðuskóla við virkan ferðamáta sem er örlítil afturför frá árinu 2019 en þá náði Síðuskóli 91% virkum ferðamáta. Það voru nemendur í 8. bekk sem náðu bestum árangri. Hér fyrir neðan má sjá niðurstöður hvers árgangs fyrir sig.
Líf og fjör í 5. bekk
Einelti
Síðuskóli lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi er liðið í skólanum. Leitað verður allra leiða til að fyrirbyggja einelti og leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Síðuskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af ábyrgð, virðingu og vináttu. Ef upp kemur grunur um einelti vinnur skólinn eftir áætlun gegn einelti sem farið er yfir hér.
Skilgreining á einelti:
Einelti er endurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi, útilokun, útskúfun og áreiti sem skapar vanlíðan þegar einn eða fleiri níðast á eða ráðast á annan einstakling.
Tilkynnið grun um einelti:
Vakni grunur um einelti skal tilkynna það strax á þar til gerðu eyðublaði eða senda tölvupóst til umsjónarkennara eða fulltrúa úr eineltisteymi með þeim upplýsingum sem óskað er eftir á tilkynningunni. Þá fer af stað könnun til að ganga úr skugga um hvort grunurinn á við rök að styðjast.
innlit í 7. bekk
Námsmat
Markmið Síðuskóla með námsmati er að veita upplýsingar sem leiðbeina nemendum um námið, hvernig þeir geti náð markmiðum þess og örva þá og hvetja til að leggja sig enn betur fram. Námsmatið er notað til að fylgjast með hvernig nemendum gengur að tileinka sér hæfniviðmið sem lögð eru til grundvallar. Því þarf námsmatið að vera leiðbeinandi, uppörvandi og uppbyggjandi.
Námsmat skólans er birt á hæfnikortum í Mentor, þar eru hæfniviðmið metin í hverri námsgrein fyrir sig. Viðmiðin byggjast á aðalnámskrá grunnskóla en þau eru löguð að áherslum í starfi skólans. Hægt er að fylgjast með mati á hæfnikorti jafnt og þétt yfir veturinn. Niðurstöður einstakra verkefna og prófa eru síðan birtar inni á Mentor þar sem sjá má þau hæfniviðmið sem unnið er með hverju sinni.
Á yngsta stigi er notast við fimm hæfnitákn en á miðstigi og upp úr er metið með bókstöfunum A, B+, B, C+, C, D. Lokamat er birt í hverri námsgrein á hæfnikortum í júní í 8.-10. bekk. Ef nemandi fylgir ekki námskrá bekkjarins er hann með einstaklingshæfnikort.
Nemendur 10. bekkjar útskrifast með bókstöfum; A, B+, B, C+, C og D. Þeir nemendur sem ekki vinna að sömu námskrá og bekkjarfélagar fá umsögn með sínu lokamati.
Sú breyting hefur verið gerð að nemendur í 1.- 9. bekk fá ekki vitnisburðarblað að vori. Allt námsmat er birt í Mentor, þar fylgjast nemendur og foreldrar/forráðamenn með námsmatinu jafnt og þétt yfir skólaárið.
Hér eru leiðbeiningar um hvernig hægt er að skoða námsmatsskýrslur nemenda.
skólastjórinn spjallar við 6. bekk á fjarfundi
Facebooksíða skólans
Jól í skókassa
Síðuskóli hefur tekið þátt í verkefninu Jól í skókassa undanfarin ár. Það eru nemendur í 7. bekk sem pakka inn tómum skókössum og raða gjöfum í þá. Kassarnir eru síðan sendir til barna í Úkraínu. Í hverjum kassa er tannbursti, tannkrem, sápa, þvottapoki, ritföng, fatnaður, dót, nammi og 1000 kr til að greiða sendingarkostnað. Að þessu sinni fóru 18 kassar frá okkur. Kærar þakkir til nemenda og starfsmanna sem lögðu verkefninu lið.
Nemendur máluðu gjafapoka í myndmennt undir sælgæti, saumuðu þvottapoka í textílmennt og eins voru saumuð pennaveski sem fóru í kassana. Í dag var farið með kassana í Sunnuhlíð þar sem nemendur og kennarar fengu frekari fræðslu um verkefnið frá KFUM/K. Hér má sjá myndir.
Vika bannaðra bóka var 27. september til 3. október
Á bókasafninu var lestrarfrelsinu fagnað með kynningu á bókum sem á einhverjum tíma hafa verið bannaðar á bókasöfnum einhvers staðar í heiminum.
Af þessu tilefni var nemendum boðið að leysa orðasúpu verkefni, skila því á bókasafnið og eiga kost á verðlaunum.
Einn nemandi var dreginn út og hreppti bók að launum. Sú heppna var Stefanía Ýr í 9. bekk.
Matseðill næstu viku
- 9. nóvember Fiskibollur
- 10. nóvember Kjúklingabuff
- 11. nóvember Plokkfiskur
- 12. nóvember Hamborgarar
- 13. nóvember Skyr