
Fréttamolar úr MS
7. janúar 2022
Skólastarfið komið aftur í gang!
Kæru nemendur og aðstandendur
Árið er 2022 og öll reiknuðum við með meira frelsi og eðlilegra hversdagslífi. Þrettándamolarnir hurfu úr Macintosh dósunum í gær og páskamolarnir liggja eftir (þessir rauðu og appelsínugulu) sem enginn vill hvort sem er. Við gerðum okkur vonir um blómstrandi félagslíf nemenda samhliða brosandi og gefandi skólastarfi en í staðin er tilfinningin nær því að við séum aftur stödd á vorinu langa árið 2020.
En þrátt fyrir sérstakt ástand eru enn falin bros á bak við grímuna og við hér í skólanum höldum ótrauð áfram að settu marki sem er menntun og velferð nemenda okkar. Skólabyrjun nú í janúar hefur gengið vonum framar og við höfum öll unnið saman eins og vel smurð ,,Covidvél". Reynslubankinn hefur reynst dýrmætur, hvort sem það eru grímur og smitvarnir, tæknilegar lausnir, öðruvísi kennsluhættir eða annað sem upp hefur komið. Það er augljóst að þegar á reynir erum við hér í skólanum samhent heild sem gengur vasklega til verks.
Ég vildi að ég gæti lofað ykkur því að þetta sé að verða búið en því miður þurfum við að halda út eitthvað lengur. Farið því vel með tímann, njótið frístunda til þess að byggja ykkur upp og passið vel upp á halda í gleðina og njóta þess sem lífið hefur upp á bjóða (meira að segja á covid tímum)!
Við munum halda áfram að vinna saman að því að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna í lifandi skólastarfi í staðnámi!
Gangi ykkur öllum sem allra best og njótið helgarinnar
Helga Sigríður, rektor MS
Takk fyrir fyrstu kennsluvikuna!
Við hér í skólanum erum sannarlega meðvituð um það að þessi vika hefur ekki verið auðveld fyrir nemendur. Grímuskyldu hefur verið fylgt fast eftir og stjórnendur hafa tekið á móti nemendum alla morgna til að minna á að við verðum að standa saman í þessu til að halda skólanum opnum áfram.
Nemendur eiga hrós skilið, það er ekki auðvelt að þurfa alltaf að halda sig fjarri félögunum og hafa grímuna fyrir andlitinu allan daginn en nemendur okkar hafa sannarlega staðið sig vel og tekið ábendingum af jákvæðni og kurteisi, fyrir það ber að þakka!
Keppnistímabilið að fara í gang!
Einnig styttist í að Morfís liðið hefji sína baráttu og liggur fyrir að andstæðingurinn í 16 liða úrslitum er Borgó! Sannkallaður grannaslagur þar!
Nokkrar ábendingar frá skrifstofunni
- Verið dugleg að skrá í Innu daglega ef þið komist ekki í skólann vegna veikinda.
- Mikilvægt er að skrá skýringu á veikindum, sérstaklega ef um er að ræða sóttkví eða einangrun til þess að við getum tryggt yfirsýn yfir stöðuna.
- Fylgist vel með á námsnetinu og fylgið fyrirmælum - kennarar treysta á að þið gerið það.