
Fréttamolar úr MS
22. mars 2024
Páskafrí framundan!
Matsdagar verða 22. mars og 3. apríl, sjá dagskrá á heimasíðu skólans. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á því að mæta á réttum stað og stund í sín verkefni.
Dagsetningar framundan
22. mars: Matsdagur
23. mars - 2. apríl: Páskaleyfi
3. apríl: Matsdagur
4. apríl: Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá
Dagská matsdaga
Alþjóðlegi hamingjudagurinn
Alþjóðlegi hamingjudagurinn var þann 20. mars, og að því tilefni heimsótti forsætisráðherra skólann og ræddi við nemendur um líðan ungs fólks og hamingjuna. Í kvöldfréttum RÚV birtust svo viðtöl við nemendur skólans um hamingju og ánægjulegt að sjá að MS-ingar virðast upp til hópa glaðir og hamingjusamir einstaklingar.
Kosningar SMS
Í vikunni fór fram kosningavika SMS þar sem nemendur kusu nýja stjórn. Það voru margir í framboði í hin ýmsu hlutverk og líf og fjör í skólanum þessu samhliða. Niðurstöður kosninganna voru kynntar á kosningavöku í gærkvöldi og má sjá skipan í ráð og nefndir hér.
Nýr miðhópur SMS er skipaður ármanni, ritara, gjaldkera, biskup og markaðsstjóra.
Ármaður: Ketill Ágústsson
Ritari: Júlía Guðný Sae Jung
Gjaldkeri: Jóhannes Fei Birgisson
Biskup: Fjölnir Skírnisson
Markaðsstjóri: Tveir frambjóðendur hlutu jafnmörg atkvæði og því verður kosið aftur á milli þeirra eftir páskafrí.
Eftir páska verður boðað til viðtala þar sem nemendur geta óskað eftir að verða meðstjórnendur í nefndum. Í hverri nefnd verða 4 meðstjórnendur að loknum viðtölum. Viðtölin hefjast 8. apríl og verður skipulag auglýst eftir páskafrí.
Aðalfundur foreldraráðs
Aðalfundur foreldrafélagsins verður haldinn mánudaginn 8. apríl í MS. Það er mikilvægt að foreldrar láti sjá sig á þessari samkomu enda sýna rannsóknir skýrt að samstarf heimila og skóla sé mikilvægt fyrir velgengni nemenda í námi.
Á aðalfundinum mun Anna Steinssen, þjálfari og eigandi Kvan, vera með fræðslu fyrir foreldra ungmenna. Erindi Önnu heiti Sterk sjálfsmynd er lykill að vellíðan og árangri. Anna fjallar m.a. um:
- Ólíkar kynslóðir og z kynslóðina.
- Jákvæð samskipti milli foreldra og barna
- Hvernig á að efla heilbrigt sjálfstraust og styðja okkar ungmenni áfram inn í fullorðinsárin
- Að verða 18 ára - bómull áfram eða þú ert frjáls?
- Áfengi og vímuefni
Skóladagatal 2024-2025 hefur verið gefið út
Morfís
Snillingarnir okkar í Morfís komu, sáu og sigruðu þetta árið! Fyrst unnu MS-ingar lið MR, sem voru sigurvegarar Morfís í fyrra. Næst kepptu MS-ingar við Flensborg í undanúrslitum og þar var afar mjótt á mununum en Flensborg vann með aðeins 12 stigum. Ræðumaður kvöldsins kom úr röðum MS-inga, en Jón Gnarr hlaut þann heiður bæði kvöldin. Við getum ekki verið annað en stolt af okkar flotta unga fólki. Til hamingju með frábæran árangur, Magnea, Gabríel, Oliver, Jón, Agla og Edda!
Ætlar þú að læra tölvunarfræði eftir útskrift?
Nemendur sem hyggjast læra tölvunarfræði við HÍ eða HR haustið 2024 geta sótt um styrk til náms hjá LS Retail Future Leaders Program. Tveir nemendur fá styrk að þessu sinni.
Hvað er innifalið:
Innifalið í þessum styrk eru skólagjöld fullgreidd frá byrjun háskólagöngu fram að útskrift og einnig sérsniðin leiðsögn og stuðningur frá starfsfólki LS Retail. Þar að auki er innifalið launað starfsnám ásamt stuðningi við starfsferilsmyndun (tengslanet, aðstoð við ferilskrá, starfsviðtöl o.fl.)
Fyrir hverja:
Þetta styrktarprógram er ætlað fyrir nemendur sem tilheyra hópum sem eiga færri fulltrúa í upplýsingatæknigeiranum, og almennt á íslenskum vinnumarkaði. Þar telja: “Women and LGBTQ+ identities, People living with disabilities, People of color, People of foreign origin and/or intercultural backgrounds.” Þess má geta að tekið er við umsóknum frá bæði nýnemum og nemum sem hafa nú þegar hafið nám sitt, hvort sem það er Bachelors eða Mastersnám!
Meiri upplýsingar um styrktarprógramið ásamt hlekk fyrir umsóknarferlið má finna hér: https://careers.lsretail.com/pages/futureleaders. Ef nemendurnir hafa einhverjar spurningar má senda póst á logansi@lsretail.com