

Hvalrekinn
Ágúst 2022
Við upphaf skóla
Þá fer að líða að upphafi skólaárs hjá okkur í Hvaleyrarskóla. Það er von okkar að allir hafi haft það sem allra best í sumarfríinu og eru tilbúnir að takast á við nýjar áskoranir á komandi skólaári.
Skólasetning er þriðjudaginn 23. ágúst, sjá nánari tímasetningar hér fyrir neðan. Við bjóðum foreldra/forráðamenn hjartanlega velkomna á skólasetninguna og hlökkum til að sjá sem flesta.
Eins og undanfarin ár fá nemendur afhent öll námsgögn í skólanum. Nemendur þurfa því einungis að eiga skólatösku, sund- og íþróttafatnað og skriffæri til notkunar heima. Mikilvægt er að við brýnum fyrir börnunum mikilvægi þess að ganga vel um námsgögnin.
Góð mæting í skóla er veigamikill þáttur í farsælli skólagöngu og vellíðan barna og unglinga. Að missa ítrekað úr kennslustundum, t.d. í lestri á yngra stigi eða stærðfræði á eldri stigum, getur haft áhrif á námsárangur þegar fram í sækir.
Við vonum að allir hafi verið duglegir að lesa í sumar. Það er eins með lesturinn og annað sem við tökum okkur fyrir hendur að eftir því sem við æfum okkur meira þá gengur okkur betur.
Kristinn Guðlaugsson, skólastjóri
Hvaleyrarskóli er hnetulaus skóli
Skólasetning
Skólasetningin þriðjudaginn 23. ágúst á sal skólans sem hér segir:
- Kl. 8:30 - 2., 3. og 4. bekkur
- Kl. 9:45 - 5., 6. og 7. bekkur
- Kl. 11:00 - 8., 9. og 10. Bekkur
- Nemendur í 1. bekk verða boðaðir í viðtöl hjá umsjónarkennara þennan dag.
Miðvikudaginn 24. ágúst er skólasetning hjá nemendum í 1. bekk á sal skólans kl. 8:20. Að því loknu er Skólafærninámskeið fyrir foreldra/forráðamenn nemenda í 1. bekk til kl. 9:20. Þar verður farið yfir hagnýtar upplýsingar er varðar skólagöngu barnsins.
Kennsla hefst hjá öllum nemendum skólans miðvikudaginn 24. ágúst samkvæmt stundaskrá.
Mataráskrift skólaárið 2022-2023
Í upphafi skólaárs þarf að skrá öll börn í mataráskrift hjá Skólamat, sjá vefslóð: https://www.skolamatur.is/ og geta foreldrar/forráðamenn skráð nemendur í mataráskrift. Skráning hefst mánudaginn 22. ágúst.
Hér má finna nánari upplýsingar frá Skólamat á íslensku, ensku og pólsku
Ávaxta- og grænmetishressing
Í morgunfrímínútum (á bilinu 9:15 -10:10 (um 20 mín. á hóp, hjá sumum afhent í stofur (1.-7. bk.) og öðrum í matsal (8.-10. bk.)) er boðið upp á ávaxta- og grænmetishressingu í áskrift.
Síðdegishressing
Áfram verður hægt að kaupa síðdegishressingu af Skólamat en slíkt verður eingöngu í boði í fastri áskrift eftir vikudögum.
Áskrift á síðdegishressingu fer fram í gegnum vef Skólamatar, https://askrift.skolamatur.is/.
Morgunverður
Dagleg rútína hefst með morgunmat, hafragraut, sem er í boði fyrir nemendur og starfsfólk skóla áður en kennsla hefst, eða um 10-15 mín. áður en fyrsta kennslustund hefst. Í boði er þorskalýsi. Engar skráningar eru fyrir þátttökunni og mæting frjáls en bærinn kaupir ákveðið magn á hverjum degi fyrir starfsfólk og nemendur eftir þörfum.
Hér má sjá reglur fyrir Niðurfellingu á fæðisgjaldi vegna systkina í grunnskólum Hafnarfjarðar.
Holtasel
Mánudaginn 22. ágúst og þriðjudaginn 23. ágúst eru starfsdagar í Holtaseli og því verður lokað þá daga. Þriðjudaginn 23. ágúst að lokinni skólasetningu eru foreldrar velkomnir að líta í heimsókn í Holtaseli, kynnast starfsfólki og starfseminni.
Miðvikudaginn 24. ágúst er opnað á venjulegum tíma eftir skóla fyrir þá sem eru skráðir og búnir að fá samþykkta umsókn.
Póstur verður sendur til foreldra með nánari upplýsingum áður en Holtasel hefst.
Síminn í Holtaseli er 534-0200 og hægt er að hringja í hann þegar starfið hefst á daginn, einnig er hægt að hringja í vinnusíma deildarstjóra 664-5778.
Orð af orði
Orð af orði er kennslufræði sem hefur þann tilgang að efla læsi og námsárangur barna og ungmenna. Heitið sprettur af orðaleik þar sem „orðaforði“ er sundurgreint á frumlegan hátt í orð-af-orði.
Skólinn er að leggja af stað í þróunarverkefni þar sem hugmyndafræði Orð af orði verður höfð að leiðarljósi. Þriðjudaginn 16. ágúst var Guðmundur Engilbertsson dósent við Háskólann á Akureyri með námskeið fyrir starfsfólk skólans. Námskeiðið heppnaðist einstaklega vel og eru allt starfsfólk skólans spennt að hefja vegferðina.
Guðmundur kemur aftur í byrjun október og verður með fund með kennurum. Um það leytið er hugmynd að bjóða foreldrum á kynningarfund í skólanum en það verður auglýst þegar nær dregur. Hér má fræðast meira um Orð af orði.
Lestur er lífsins leikur
Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í samfélaginu og bág lestrarfærni getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með tækifæri á lífsleiðinni síðar meir. Þær staðreyndir að lestrarfærni íslenskra barna fór halloka voru kveikja þess að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði lögðu áherslu á að móta skýra og skilvirka læsisstefnu í Hafnarfirði sem næði til nemenda, kennara og foreldra. Unnið hefur verið markvisst eftir þeirri stefnu undanfarin ár sem hefur meðal annars skilað sér í aukinni samfellu milli skólastiga og lagt línurnar um mikilvægi læsis sem grunnstoð náms.
Hér má finna endurskoðaða lestrarstefnu Hafnarfjarðar Lestur er lífsins leikur.
Mikilvægar upplýsingar frá íþróttakennurum
Kynningarglærur fyrir foreldra/ forráðamenn
Við höfum tekið þá ákvörðun að hafa þær upplýsingar sem alla jafna eru á haustfundum með foreldum/forráðamönnum aðgengilegar hér í Hvalrekanum frekar en að boða á fundi í skólanum. Nýta þá tækni sem við höfum yfir að ráða og geta foreldrar/forráðamenn farið yfir þessar upplýsingar þegar þeim hentar best.
Áfram hvetjum við foreldra/forráðamenn til að vera í góðu sambandi við umsjónarkennara barna sinna og ekki síður þá kennara sem kenna skólaíþróttir, list- og verkgreinar.
- Stjórnendaglærur fyrir foreldra nemenda í 1. bekk.
- 1. bekkur - glærur kennara
- Stjórnendaglærur fyrir foreldra/forráðamenn nemenda í 2., 3. og 4. bekk.
- 2. bekkur - glærur kennara
- 3. bekkur - glærur kennara
- 4. bekkur - glærur kennara
- Stjórnendaglærur fyrir foreldra/forráðamenn nemenda í 5., 6. og 7. bekk.
- 5. bekkur - glærur kennara
- 6. bekkur - glærur kennara
- 7. bekkur - glærur kennara
- Stjórnendaglærur fyrir foreldra/forráðamenn nemenda í 8., 9. og 10. bekk.
- 8. bekkur - glærur kennara
- 9. bekkur - glærur kennara
- 10. bekkur - glærur kennara
- English summary
Bjarg - deild fyrir nemendur sem sækja um alþóðlega vernd
Lestur er lífsins leikur
Mentor - leiðbeiningar fyrir foreldra/forráðamenn
Reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar
Við minnum á samræmdar reglur um ástundun í grunnskólum Hafnarfjarðar en kynning á þeim er í kynningarglærum árganganna. Reglur og viðbragðsáætlun eru samræmdar þannig að ekki sé mismunun milli skóla bæjarins.
Starfsfólk skólanna í Hafnarfirði hefur áhyggjur af minnkandi skólasókn og fjölgun nemenda sem teljast falla undir skilgreiningar um skólaforðun. Í reynd eru allar fjarvistir frá skóla óheppilegar af ýmsum ástæðum og því er ekki gerður greinarmunur á fjarvistardögum þótt greinarmunur sé gerður á tilefni fjarvista. Eftir því sem skólasókn fer minnkandi taka við aukin viðbrögð af hálfu skóla til að koma sem lengst í veg fyrir að námsárangur nemenda versni vegna slakrar skólasóknar og vanlíðan aukist.
Meginefni reglanna er:
1. AÐ VIRÐING SÉ BORIN FYRIR SKÓLASÓKN
Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verður að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju skólaári.
2. AÐ SKÓLA BERI ENGIN SKYLDA TIL SÉRSTUÐNINGS VEGNA LEYFA
Starfsfólk skóla ber ekki skylda til að þjónusta einstaka nemendur sérstaklega vegna fjarvista frá skóla, hverju nafni sem þær nefnast, og skulu foreldrar/ forráðmenn ekki óska eftir slíkri þjónustu (t.d. að kennarar gefi út sérstaka heimavinnu eða skilaboð þegar um er að ræða persónuleg leyfi fjölskyldna).
3. AÐ SKRÁÐ SÉ RAUNSKÓLAMÆTING Í LOK SKÓLAÁRS Á VITNISBURÐARBLAÐ NEMANDA
Allar fjarvistir, hverju nafni sem þær nefnast, búa til eina raunmætingareinkunn sem gefin er á vitnisburðarskírteini nemenda í lok skólaárs, sem prósentuhlutfall af skólasókn yfir skólaárið.
4. AÐ GEFIN SÉ ÁRLEG LOKAEINKUNN (A-D) VEGNA SKÓLASÓKNAR Á VITNISBURÐARBLAÐ
Ástundun sem snýr að fjarvistum, seinkomum og brottrekstri úr kennslustundum mynda á einu skólaári skólasóknareinkunn sem hver nemandi fær á matskvarðanum A, B+, B, C+, C og D í samræmi við kvarða (sjá fylgiskjal póstsins).
5. AÐ VIÐBRÖGÐ SKÓLA OG BARNAVERNDAR VIÐ MINNKANDI SKÓLASÓKN SÉU SAMHÆFÐ
Þótt forsjáraðilar hafi víðtækar heimildir til að tilkynna veikindi og leyfi frá skóla munu skólar bregðast við öllu slíku sem „fjarvistum“ óháð tilefni, í samræmi við reglur. Allar fjarvistir frá skóla eru óheppilegar og miklar fjarvistir (umfram 10% kennslutímans eða 18 skóladaga á skólaári) geta hamlað námsárangri barna. Það er skylda nemenda að mæta í skóla nema að löggild forföll hamli. Umræddar reglur gilda um alla grunnskóla Hafnarfjarðar jafnt og færast með nemendum flytji þeir á milli skóla innan Hafnarfjarðar á skólaárinu.
Aðalfundur foreldrafélagsins
Stjórn foreldrafélgsins.
KURTEISI ~ ÁBYRGÐ ~ SAMVINNA
Hvalrekinn
Opnunartími skrifstofu:
Kl. 7:45 - 15:30 mán-fim
Kl. 7:45 - 14:00 fös
Email: hvaleyrarskoli@hvaleyrarskoli.is
Website: www.hvaleyrarskoli.is
Location: Akurholti 1
Phone: 354 565 0200
Facebook: https://www.facebook.com/hvaleyri/