
Fréttabréf Grenivíkurskóla
1. tbl. 5. árg. - janúar 2024
Kæra skólasamfélag
Fyrir hönd starfsfólks Grenivíkurskóla sendi ég ykkur öllum bestu nýársóskir með þökk fyrir samvinnuna á liðnum árum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við ykkur á nýju ári og höfum fulla trú á að komandi ár verði okkur farsælt og heilladrjúgt.
Að vanda var mikið um að vera hjá okkur í desember en mánuðurinn litaðist af jólaundirbúningi og gleði. Við fórum í kyndlagöngu, vorum með laufabrauðsdag, hátíðarmat og litlu jól og þá fórum við í jóga og fleira í hreyfistundum sem mæltist vel fyrir. Myndir úr starfi skólans má nálgast í gegnum tengla á myndaalbúm neðar í fréttabréfinu.
Nýtt ár færir okkur að vanda nýjar áskoranir og ný tækifæri. Við tökum á móti nemendum með bros á vör og hlökkum til gera okkar besta til þess að önnin framundan verði skemmtileg og lærdómsrík.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Kyndlaganga og litlu jól
Nemendur og starfsfólk skólans fóru í árlega kyndlagöngu þann 18. desember sl., en hefð er orðin fyrir því að fara í slíka göngu í jólamánuðinum. Gengið var að leikskólanum Krummafæti, Grýtu og Grenilundi og sungið fyrir nemendur, starfsfólk og heimilisfólk á viðkomandi stöðum. Við heimkomu gátu göngugarpar svo yljað sér með kakói og nartað í piparkökur með því.
19. desember var svo hátíðarmatur í hádeginu og litlu jól haldin seinni partinn. Í hátíðarmatnum stigu nemendur í 7. bekk á svið og voru með jólaupplestur ásamt því að nemendur á miðstigi spiluðu á marimbur. Þá léku þær Björg Guðrún, Aníta og Móeiður Alma lagið "Er líða fer að jólum" sexhent á píanó.
Á litlu jólunum var byrjað á stofujólum, þar sem nemendur opnuðu pakka frá samnemenda, lesin var jólasaga, og þá kíktu nokkir jólasveinar í heimsókn og gerðu usla. Að stofujólum loknum var haldið niður í græna sal þar sem við hlýddum á jólasögu frá Birni Ingólfssyni, fórum í nokkra leiki og þá þökkuðu nemendur hver öðrum fyrir gjafirnar með sérstakri þakkarkeðju, sem er ávallt falleg stund. Í lokin var svo dansað í kringum jólatréð við undirleik Elínar Jakobsdóttur og að endingu haldið heim og í jólafrí.
Möndlugrautur
Mánudaginn 18. desember var möndlugrautur í hádeginu hér í skólanum, en hefð er fyrir því að lauma nokkrum möndlum í grautarskálarnar og verðlauna heppna nemendur með gjöf.
Þrír nemendur voru svo heppnir að hitta á skál með möndlu, en það voru þau Ísadóra Arnbjörg og systkinin Katla Eyfjörð og Kári Eyfjörð. Óli kokkur kom og staðfesti að hann hefði sjálfur sett möndlurnar í skálarnar og skar þar með skólastjórann úr snörunni, þar sem einhverjum þótti heldur grunsamlegt að bæði skólastjórabörnin hefðu fengið möndlu!
Styrkur til bókakaupa
Undanfarin ár hefur Grenivíkurskóli fengið veglega styrki frá fyrirtækjum hér á svæðinu fyrir jólin, sem nýttur hefur verið til bókakaupa. Fyrstu árin fékk hver nemandi bók að gjöf, en í ár - líkt og í fyrra - var ákveðið að nýta styrkina til sameiginlegra bókakaupa og setja upp í hillurnar góðu sem settar voru upp í fyrra. Nemendur geta þar valið úr glæsilegu úrvali glænýrra bóka, til viðbótar við góðan bókakost sem bókasafnið býr yfir, og er það von okkar að þetta framtak auki lestraráhuga nemenda.
Þau fyrirtæki sem styrktu verkefnið að þessu sinni eru Darri, Sparisjóður Höfðhverfinga og Gjögur, og færum við þeim bestu þakkir fyrir frábæran stuðning!
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "Hamingjuríkur janúar". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Frekari upplýsingar og hugmyndir að ýmsum verkefnum má finna á hér.
Myndir úr skólastarfinu
Matseðill
Á döfinni í janúar
- 1. janúar: Nýársdagur.
- 3. janúar: Starfsdagur - frí hjá nemendum.
- 4. janúar: Skóli hefst á ný að loknu jólafríi.
- 6. janúar: Þrettándinn.
- 26. janúar: Bóndadagur - upphaf Þorra.
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli