
Fréttabréf forseta
febrúar 2021
Landssambandsþingið 2021
Bjartsýnin ræður ríkjum núna, þegar bólusetningar eru hafnar við covid 19 pestinni og landið orðið veirufrítt. Landssambandsstjórnin hefur ákveðið að halda landssambandsþingið dagana 7.- 8. maí í Reykjanesbæ. Þingið hefst á föstudagskvöldinu 7. maí klukkan 20.00 með aðalfundarstörfum. Ráðstefnudagskráin hefst síðan daginn eftir kl. 9.30 og stendur yfir allan daginn. Þingið endar með hátíðarkvöldverði á laugardeginum.
Menntamálanefnd er að leggja síðustu hönd á dagskrá þingsins. Þetadeild annast umgjörð þingsins og menningardagskrá síðdegis á laugardeginum. Verið er að skoða tilboð í hótelgistingu og salarkynni í Reykjanesbæ og fáið þið nánari fréttir af þessu mjög fljótlega.
Ég vil minna á að deildir eiga að skila skýrslu til forseta landssambandsins um störf deildar síðastliðin tvö starfsár mánuði fyrir landssambandsþing þ.e. fyrir 7. apríl
Handbókin endurskoðuð
Eitt af þeim verkefnum sem voru samþykkt í framkvæmdaráætlun stjórnar var að endurskoða handbókina fyrir formenn. Það hefur nú verið gert í samvinnu stjórnar, félaga og útbreiðslunefndar og laganefndar. Hin nýja útgáfa er komin á vefinn okkar www.dkg.is undir deildastarfið/efni fyrir formenn eða deildastarfið/handbók.
Langtímaáætlun
Alþjóðasambandið hvetur landssambönd til að gera langtímaáætlanir (Strategic plan). Hægt er að sjá þessa áætlun á vefsíðu alþjóðasamtakanna www.dkg.org.
Í framkvæmdaáætlun landssambandsins var ákveðið að kanna vilja til að gera slíka áætlun hér á landi jafnframt því að vinna að gerð áætlunar, verði niðurstaðan sú að gera hana. Þrátt fyrir að fundir framkvæmdaráðs hafi ekki gengið samkvæmt áætlun, þá hafa nú litið ljós drög að langtímaáætlun. Hún er unnin á grundvelli umræðna á tveimur framkvæmdaráðsfundum, framkvæmdaáætlana, handbóka og gátlista.
Drögin hafa nú verið send formönnum deilda og óskað eftir athugasemdum eða breytingartillögum. Drögin hafa einnig verið send laganefnd til skoðunar. Framhaldið fer eftir viðbrögðum og hugsanlega verður boðað til framkvæmdaráðsfundar til að fjalla um málið.
Zoom fundir
Eins og þið munið kannski þá keyptum við árs áskrift að Zoom vegna framkvæmdaráðsfundarins. Það hefur þess vegna verið tilvalið að stofna til funda fyrir þær deildir, sem ekki hafa aðgang að fjarfundarforriti. Forseti hefur stofnað til sjö funda að óskum deilda frá því í haust. Fjórir fundir stjórnar landssambandsins hafa verið haldnir í Zoom. Skype var notað áður, en Zoom reynist ekki síður vel.
Samstarfið innan Evrópu hefur verið mun meira en áður og hefur forseti stofnað fjóra til fimm fundi í samvinnu við Evrópuforseta. Það er því óhætt að segja að áskriftin hefur reynst vel. Ef deildir hafa áhuga á að nýta sér þessa leið, þá er bara að hafa samband við forseta
Myndin hér fyrir neðan er af fundi DKG á Íslandi og Eistlandi með Evrópuforseta og formanni Education Excellence Committee; Marianne Scardeus