
Vikulokin
03.04.2020
Kæru nemendur
Við látum það að sjálfsögðu ekki stöðva okkur nú frekar en undanfarnar vikur, því við getum þetta saman. Hefðbundið er sannarlega ekki eina leiðin. Klárum þetta skólaár með saman!
Í hádeginu í dag áttum við Birgir netfund með nemendum þar sem við fórum yfir hvernig málum yrði háttað að loknu páskaleyfi. Var upplýst um fyrirkomulagið að eins miklu leyti og við getum séð það fyrir.
Aðstæðurnar í dag geta reynst mörgum erfiðar, kannski enn frekar nú í páskaleyfinu þegar rútínu stundatöflunnar í Bláa hnettinum sleppir. Það er mjög mikilvægt að við hlúum að andlegri heilsu bæði okkar og okkar nánustu. En til þess að geta stutt aðra þurfum við að muna eftir því að huga að okkur sjálfum.
Mig langar að minna ykkur á hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall. Þar er til staðar fyrir ykkur fólk sem þjálfað er í því að hlusta og veita ráðgjöf.
Hjálparsíminn er alltaf opinn, kostar ekkert og er fyrir alla. Ekkert vandamál er of stórt eða of lítið. Ég hvet ykkur til að nýta ykkur þetta úrræði ef ykkur vantar einhvern til að ræða við.
Einnig vil ég benda á að ég er ekki nema einn tölvupóst í burtu - ekki hika við að hafa samband ef ég get stutt ykkur með einhverjum hætti:
Líka um páskana!
Kæru nemendur! Ég hvet ykkur til að hvíla ykkur frá náminu eins og unnt er um páskana og halda í jákvæðnina. Gerið eins gott úr þeim aðstæðum sem nú eru og ykkur er frekast unnt. Hugið að ykkur sjálfum, gætið að hreyfingu og njótið! ...þó ekki sé nema s.s. eins páskaeggs. Þið hafið sannarlega unnið fyrir því að slaka aðeins á. Úthald ykkar í þessum framandi aðstæðum hefur vakið aðdáun okkar starfsfólks VA alla daga.
Gleðilega páska,
Lilja skólameistari
Fyrirkomulag á námsbrautum að páskaleyfi loknu verður með breytilegum hætti
Nemendur á eftirfarandi námsbrautum koma ekki aftur inn í skólann nú á vorönn og verður áföngum lokið í fjarnámi í samræmi við skóladagatal skólans:
- Félagsvísindabraut
- Náttúruvísindabraut
- Nýsköpunar- og tæknibraut
- Opin stúdentsbraut
- Starfsbraut
- Framhaldsskólabrautir
Nemendur í iðnnámi:
Húsasmíði:
- Fagbóklegum áföngum verður lokið í fjarnámi
- Ef skólinn verður opnaður í maí koma nemendur inn í verklega áfanga, ef ekki verður neitt opið í maí þarf að finna aðrar leiðir til að ljúka önn. Ýmislegt kemur til greina og munum við upplýsa nemendur frekar eigi síðar en 5. maí.
- Fagbóklegum áföngum verður lokið í fjarnámi
- Ef skólinn verður opnaður í maí koma nemendur inn í verklega áfanga, ef ekki verður neitt opið í maí þarf að finna aðrar leiðir til að ljúka önn.
- Ýmislegt kemur til greina og og munum við upplýsa nemendur frekar eigi síðar en 5. maí.
Háriðn
- Ef skólinn verður opnaður í maí koma nemendur inn, ef ekki ljúka nemendur öllum áföngum brautarinnar í fjarnámi.
- Munum við upplýsa nemendur frekar eigi síðar en 5. maí.
Grunnám rafiðna / Rafvirkjun + dreifnám
- Öllum áföngum brautarinnar í dagskóla verður lokið í fjarnámi
- Ef skólinn verður opnaður í maí verður reynt að ná inn kvöldum í dreifnámi.
- Munum við upplýsa nemendur frekar eigi síðar en 5. maí.
Nemendur í iðnnámi. Við viljum vekja athygli á því að enginn hópur verður skilinn eftir! Við finnum lausnir fyrir alla nemendahópa hverjar svo sem þær verða. Því við getum jú allt saman!
Sjúkraliðanemar, nemendur á leikskólaliðabraut og stuðningsfulltrúabraut
Ykkar nám heldur áfram með hefðbundum hætti þar sem skólalokun hefur engin áhrif á áfanga sem kenndir eru í hreinu fjarnámi.
Námsmat og lokapróf
Einnig geta orðið breytingar á lokaprófum hvað það varðar að hugsanlega verða einhver lokapróf felld niður og koma þá aðrir námsmatsþættir inn á móti. Þetta munu kennarar einnig upplýsa nemendur sína um.
Við gerum ráð fyrir að þau lokapróf sem haldin verða muni vera í samræmi útgefnar dagsetningar í próftöflu. Prófin munu hins vegar ekki fara fram í húsnæði skólans heldur verður þeim breytt í fjarpróf/heimapróf. Einnig geta kennarar kosið að sveigja af leið hvað tímasetningar varðar þar sem fjarpróf/heimapróf bjóða upp á meiri sveigjanleika. Dagsetningar eiga hins vegar að standast.
Þegar kennsla hefst aftur á Bláa hnettinum, miðvikudaginn 15. apríl, verða kennarar búnir að setja inn á kennsluvef upplýsingar um fyrirkomulag námsmats.
Lokaverkefni á stúdentsbrautum
Ljóst er að hefðbundið fyrirkomulag gengur ekki upp en í skoðun er að hafa kynningar lokaverkefna með rafrænum hætti.
Ef af verður munum við kynna þetta á heimasíðu og samfélagsmiðlum þegar nær dregur.
Brautskráning
Endanleg ákvörðun varðandi fyrirkomulag brautskráningar verður tilkynnt nemendum eigi síðar en 5. maí. Miðast þessi dagsetning við að framlenging samkomubanns varir eins og staðan er í dag til 4. maí.
Skápar nemenda
Þeir nemendur sem ekki náðu að tæma skápana sína eru beðnir að fylla út þessa könnun. Ef á þarf að halda tæmum við skápana fyrir nemendur og gefum þeim kost á að sækja eigur sínar. Ekki verður nemendum þó hleypt inn í skólann heldur munum við afhenda eigur utanhúss.
Þeir nemendur sem þegar hafa tæmt skápana sína eru beðnir að senda lyklana í pósti til skólans ásamt nafni og reikningsupplýsingum svo við getum endurgreitt tryggingargjaldið.
Verkmenntaskóli Austurlands
Mýrargata 10
740 Neskaupstaður
Heimavist og mötuneyti - uppgjör og úrlausnir
Heimavist
- Seinni hluti húsaleigu á heimavist verður ekki rukkaður fyrir vorönn þar sem nemendur náðu ekki að nýta sér vistina alla önnina.
- Að páskaleyfi loknu munum við setja okkur í samband við alla vistarbúa og upplýsa þá um hvernig verði staðið að tæmingu herbergja.
- Ef einhverjum nemanda bráðliggur á einhverju úr herbergi sínu er viðkomandi beðinn um að hafa samband við Bubba húsvörð í síma 895-0166 eða Karen í síma 847-7996 og við reynum þá að finna lausn.
- Athugið að nemendur í húsasmíði og í málm- og véliðndeild geta þurft að nýta herbergin sín aftur komi til þess að skólinn verði opnaður að einhverju leyti. Því gerum við ekki ráð fyrir að biðja þá nemendur að tæma herbergi sín fyrr en fyrir liggur hvernig námslok annar verða í þessum deildum.
Mötuneyti
- Við munum nú hefjast handa við að ganga frá peningahlið mötuneytis. Þó nokkur fjöldi nemenda hefur greitt fyrir lengri tíma í mötuneytinu er þeir náðu að nýta sér og verður þeim nemendum endurgreitt.
- Þeir sem eiga ógreidda reikninga fyrir mötuneyti munu fá nýja reikninga í heimabanka sem miðast við að greitt sé fyrir 10 vikur. Eldri ógreiddir reikningar verða felldir niður. Gert er ráð fyrir að þessi reikningabreyting fari fram í næstu viku.
- Það mun taka okkur í samvinnu við Hildibrand einhvern tíma að rekja okkur í gegnum þetta og því geri ég ekki ráð fyrir að endurgreiðsla berist fyrr en eftir páska.
- Þeir sem eiga inni pening vegna mötuneytis munu fá tölvupóst frá Sigurborgu, fjármálastjóra VA þar sem hún mun óska eftir reikningsupplýsingum svo hægt verði að endurgreiða það sem ofgreitt er.
Skilaboð frá nemendaþjónustu VA
Niðurstöðuna má sjá á myndinni hér fyrir neðan. Mikilvægt er að muna að allar tilfinningar eiga rétt á sér og vert að taka fram að nemendur eru að standa sig mjög vel
Þið (nemendur) hafið verið dugleg að leita eftir aðstoð og eru Guðný og Karen áfram til staðar fyrir ykkur ef eitthvað er.
Námsmatssýning
Við rúllum öll orðið upp tæknilausnum eins og enginn sé morgundagurinn svo ef þörf krefur munum við leysa þetta með aðstoð tækninnar.