
Menntabúðir EYLISTAR
Í Hrafnagilsskóla 29. mars 2019 kl. 15:00 - 16:45
Eylist: Vinnusmiðjur kennara í listum, verkgreinum og nýsköpun.
Síðustu menntabúðir Eylistar verða haldnar föstudaginn 29. mars kl. 15:00 - 16:45 í Hrafnagilsskóla Eyjafjarðarsveit. Menntabúðirnar eru haldnar í samvinnu við vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA), þar sem yfirskriftin er: "Vísindi í námi og leik".
Á menntabúðum Eylistar er áherslan lögð á skapandi kennsluhætti á öllum aldursstigum frá leikskóla til grunnskóla. Hér má sjá dagskrá menntabúðanna. Allir eru velkomnir en vinsamlegast skráið ykkur í skráningarforminu hér fyrir neðan.
Stýrihópur Eylistar
Hrafnagilsskóli: Ólöf Ása Benediktsdóttir og María Gunnarsdóttir.
Oddeyrarskóli: Linda Óladóttir og Rannveig Sigurðardóttir.
Þelamerkurskóla: Unnar Eiríksson og Jónína Sverrisdóttir.
Við hvetjum þá sem hafa hugmyndir að góðum menntabúðum eða vilja bjóða sig fram til að vera með menntabúðir til að hafa samband við aðila úr stýrihópnum.
Tilurð Eylistar
Stjórnendur á Eyjafjarðarsvæðinu hafa á undanförnum árum unnið að því að byggja upp lærdómssamfélag í skólum á svæðinu og milli skólanna, m.a. í því skyni að styrkja kennara í starfi og efla starfshætti grunnskólanna. Afrakstur þeirrar vinnu birtist m.a. í faggreinafundum unglingastigskennara um hæfnimiðað nám og námsmat og góðum vinnustofum #Eymenntar um upplýsingatækni í skólastarfi. Við vildum gjarnan útvíkka þessa frábæru samvinnu enn frekar og þótti okkur nú kominn tími til að veita list- og verkgreinakennurum á svæðinu aukin tækifæri til endurmenntunar.
Oddeyrarskóli, Þelamerkurskóli og Hrafnagilsskóli ákváðu að taka höndum saman til að hefja þessa þróun og móta samstarf um endurmenntun í list- og verkgreinakennslu sem vonandi leiðir af sér aukið samstarf fleiri skóla þegar fram líða stundir. Skólarnir þrír hlutu styrk úr endurmenntunarsjóði grunnskóla til að mæta útlögðum kostnaði. Oft hefur reynst erfitt að halda úti kennslu í list- og verkgreinum eins og kveðið er á um í aðalnámskrá. Erfitt er að fá kennara í sumar greinar og aðstaðan ekki alls staðar góð. Við vildum byrja á kennurunum og stjórnendum, auka færni þeirra og þekkingu, gefa þeim kost á að verða öruggari í kennslu þessara greina.
Á yngri stigum sjá umsjónarkennarar oft um kennslu í list- og verkgreinum auk þess að nýta mikið samþættingu námsgreina, t.d. sköpun tengda byrjendalæsisvinnu. Námskeið fyrir kennara eru kostnaðarsöm og margir kennarar fullnýta endurmenntunarstyrki en eiga þó eftir að uppfylla ákvæði kjarasamninga um endurmenntun. Framboð á námskeiðum í list- og verkgreinum hefur verið fátækleg og er þetta leið okkar til að koma til móts við það.
Með þessu framtaki gefum við kost á endurmenntun sem kostar kennara lítið sem ekkert og styðjum við þróun í þessum greinum. Jafnframt teljum við mikilvægt og í anda lærdómssamfélags, að kennarar fái tækifæri til að læra saman og læra hver af öðrum.
Sambærilegt verkefni hefur verið í gangi um skeið varðandi upplýsingatækni í skólastafi. Það verkefni er samstarfsverkefni nokkurra skóla á Eyjafjarðarsvæðinu og hefur reynst mjög vel, verið vel sótt og vinsælt. Við bindum vonir við að þetta tvennt gæti á einhverjum stigum tengst, þar sem verið er að vinna að nýsköpun, hönnun og upplýsingatækni. Óhjákvæmilegt er að þetta tengist á einhvern hátt. Þó viljum við leggja áherslu á að kennarar fái þetta tækifæri til að læra hver af öðrum í list- og verkgreinum sérstaklega.