

Fréttabréf starfsfólks Lundarskóla
Október 2023
Skipulagsdagatal í október
Kæra starfsfólk.
Hér í viðhengi má sjá skipulagsdagatalið okkar í otkóber.
Á skipulaginu má sjá teymisfundi, fundi sem falla undir leiðsagnarnám, kennara- og stigsfundi. Einnig má sjá skipulag á starfsdeginum þann 25. október. Á starfsdeginum verður vinnufundur kennara hvað varðar námsmatsverkefni og einnig undirbúningur fyrir þemadaga.
Kristín Irene ásamt fulltrúum úr námsmatsteyminu verður svo með fræðslufund fyrir stuðningsfulltrúa á starfsdeginum.
Endilega kynnið ykkur skipulagsdagatalið vel 😁
Fjarvera skólastjórnenda í október
Í október verða skólastjórnendur töluvert fjarverandi. 5. -7. október förum við stöllur á námsstefnu Skólastjórafélagsing og verðum því ekki í húsi. Þann 21. - 28. október er svo för okkar heitið á ráðstefnu skólastjórnenda í Evrópu (ESHA ráðstefna) til Dubrovnik í Króatíu. Í Lundarskóla starfar gott starfsfólk og því höfum við ekki miklar áhyggjur af fjarveru okkar þessa daga.
Kannski á þetta bara við á þessum fjarverudögum stjórnenda.
Þegar kötturinn er úti leika mýsnar inni 😉
Kennaranemar
Eins og þið vitið líklega öll þá verða kennaranemar hjá okkur tvo daga í október. Það er 9. og 10. október. Nemarnir verða í vettvangsheimsókn, kynna sér skólann, fá fræðslu og kíkja í tíma. Hér er hlekkur á stundatöfluna þeirra og ég reikna með að þið takið vel á móti þeim.
Haustfrí
23. og 24. okóber verður haustfrí í grunnskólum Akureyrar. Þessa daga verður skólinn nemendalaus að mestu en þó verður Frístund opin frá kl. 8:15 - 16:15.
Fámennt en góðmennt verður í skólanum þessa daga.
Nokkrir starfsmenn verða í styttingu vinnuvikunnar í haustfríinu en þeir sem verða í vinnu t.d. stuðningsfulltrúar og starfsfólk í eldhúsi og frístund sjá um þá nemendur sem verða í frístund þessa daga. Íris umsjónarmaður frístundar skipuleggur starfið í frístund, hlutverk og störf stuðningsfulltrúa sem verða í vinnu í haustfríinu en stuðningsfulltrúar koma flest allir til með að starfa í frístund í haustfríinu.
Upplýsingar um félagsmiðstöðina
Félagsmiðstöðin Trója þjónustar börn og unglinga í Lundarskóla og er staðsett í Rósenborg á 4. hæð. Trója er þó með eitt opið hús í viku í Lundarskóla fyrir unglinga.
Félagsmiðstöðvar eru mikilvægur þáttur í lífi barna og unglinga og gegna því veigamiklu hlutverki að sinna tómstunda- og félagsmálum utan hefðbundins skólatíma. Félagsmiðstöð á að stuðla að jákvæðum og þroskandi samskiptum meðal barna og unglinga og örva félagsþroska þeirra og lýðræðisvitund. Starfsemi félagsmiðstöðvanna er skipulögð af unglingunum sjálfum í samráði við starfsfólk.
Opin hús fyrir unglingastigið
Mánudaga 20:00 – 22:00 í Rósenborg
Miðvikudaga 20:00 – 22:00 í Rósenborg
Fimmtudaga 20:00 – 22:00 í Lundarskóla
Betur er hægt að fylgjast með starfi félagsmiðstöðvarinnar hér: https://padlet.com/felagsmidstodvar/troja_frettabref
Einnig verður Anna Guðlaug starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar með aðsetur hér í Lundarskóla á mánudögum kl. 9:00 - 11:30 og á fimmtudögum kl. 9:00 - 10:00. Á þessum tíma verður hún með aðsetur í litlu stofunni niðri á móti heimilisfræðistofunni og þá mun hún starfa með einstaka nemendum eða nemendahópum eftir verkefnum hverju sinni.
Hnetulaus skóli
Í flestum skólum er einhver, ýmist nemendur eða starfsfólk með ofnæmi eða bráðaofnæmi fyrir t.d. matvælum, lyfjum eða skordýrabitum. Þegar um bráðaofnæmi er um að ræða þarf að bregðast fljótt við því bráðaofnæmi getur verið lífshættulegt.
Í Lundarskóla eru einstaklingar með m.a. ofnæmi fyrir hnetum og því biðlum við til allra um að hafa ekki hnetur í nesti.
Einstaklingur með t.d. bráðaofnæmi fyrir hnetum þarf ekki að borða hnetur til að fá ofnæmisviðbrögð. Nóg er að hann komist í snertingu við matvæli sem innihalda hnetur. Einnig getur snerting við einstakling sem hefur verið að meðhöndla hnetur valdið svæsnum ofnæmisviðbrögðum.
Af þessum ástæðum hefur sú stefna verið tekin að Lundarskóli er hnetulaus skóli.
Þetta þýðir að nemendur og starfsmenn koma ekki með hnetur í nesti og eins þarf að huga að þessu þegar um t.d. veitingar eða nammi á kaffistofu er að ræða.
Kær kveðja
Maríanna, Fjóla Dögg og Helga Rún