
Fréttamolar úr MS
23. október
Dagsetningar framundan
Þriðjudagur 24. október: Kvennaverkfall á kvennafrídaginn - sjá upplýsingar hér neðar
Fimmtudagur 26. október: Matsdagur
Föstudagur 27. október: Matsdagur
Mánudagur 30. október: Haustfrí
Matsdagar og haustfrí framundan
Kæru nemendur. Síðasta vika október er runnin upp og verður hún með sérstöku sniði. Fimmtudag og föstudag verða matsdagar þar sem nemendur geta búist við því að vera kallaðir inn í verkefni eða sjúkrapróf - mikilvægt að nemendur fylgist vel með skilaboðum frá sínum kennurum. Mánudagurinn 30. október er svo haustfrí og þá verður skólinn lokaður.
Smellið á hnappinn hér fyrir neðan til að skoða dagskrá matsdaga 26.-27. október. Athugið að dagskráin er í mótun og gæti eitthvað átt eftir að bætast við - endanleg dagskrá verður birt á heimasíðu skólans miðvikudaginn 25. október.
Kvennaverkfall 24. október
Þriðjudaginn 24. október verður kvennaverkfall þar sem konur og kvár eru hvött til að leggja niður störf og knýja þannig á um fullt jafnrétti í íslensku samfélagi. Menntaskólinn við Sund styður að sjálfsögðu mótmælin og hvetur starfsfólk og nemendur af öllum kynjum til að taka þátt í samstöðufundi á Arnarhóli kl. 14.
Viðbúið er að einhverjir tímar falli niður og nemendur þurfa að fylgjast vel með tilkynningum frá kennurum í INNU. Húsnæði skólans verður opið og gert er ráð fyrir því að karlmenn mæti til starfa og sinni þeim eftir bestu getu. Það má gera ráð fyrir því að mötuneyti verði lokað, ekki svarað í síma og að skólinn verði ekki þrifinn enda konur sem sinna þessum störfum.
Nemendur sem taka þátt í verkfallinu þennan dag fá ekki fjarvist.
Skilaboð sem feministafélag MS hefur sent frá sér til nemenda:
Nemendaferðir í vikunni ✈️
Tveir hópar nemenda eru í ferðum á vegum skólans í vikunni og á matsdögum.
- Nemendur í Berlínaráfanga fara til Berlínar á matsdögum
- Nemendur í Alþjóðaáfangi fara til Danmerkur og Svíþjóðar 23.-27. október
Heimsókn frá Færeyjum
Í síðustu viku komu færeyskir nemendur í heimsókn í MS. Heimsóknin er hluti af Nordplus verkefni sem MS tekur þátt í ásamt skólum í Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum. Verkefnið heitir Nordens maritime fællesskab - sejlerfolk, søfarende og stafetdidaktik. Nemendur og kennarar frá Svíþjóð og Danmörku fóru í heimsókn til Færeyja í lok september, Færeyinga heimsóttu Ísland í þessari viku og í vikunni fara 26 nemendur frá MS ásamt kennurum heimsókn til Danmerkur og Svíþjóðar. Meginmarkmið verkefnisins er að nemendur geri sér grein fyrir því hvað við eigum sameiginlegt á Norðurlöndunum hvað varðar t.d. tungumál, menningu og sögu. Einnig að skoða það sem greinir okkur að.
Á meðan heimsókninni stóð var nemendum skipt í hópa sem áttu að ræða hvað væri líkt og hvað væri ólík á Íslandi og í Færeyjum. Í lok heimsóknarinnar skrifuðu nemendur úr Glasir og MS á segl það sem hóparnir höfðu komist að niðurstöðu um. Þegar Danir og Svíar voru í Færeyjum gerðu þeir það sama á seglið. Í næstu viku förum við svo með seglið til Danmerkur og Sviðþjóðar og endurtökum leikinn.
Heimsókn í Krossgötur
Í vikunni kom fulltrúi frá ASÍ í heimsókn í Krossgötur þar sem nýnemar fengu fræðslu um bæði réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Farið var yfir ýmsa þætti sem skipta máli, s.s. jafnaðarkaup, ógreiddar „prufuvaktir“, launaseðla, réttindi í veikindum, starfsskyldur þeirra og yfirmanna þeirra, yfirvinnulaun vs. dagvinnulaun, mikilvægi kjarasamning og ráðningasamninga.
Nemendur okkar eru nýliðar á vinnumarkaði og hafa í mörgum tilvikum enga fræðslu fengið um réttindi og skyldur á vinnumarkaði sem gerir það að verkum að auðveldara er að „svindla“ á þeim og virða að vettugi rétindi þeirra. Mörgum ungmennunum finnst eins og þessi réttindi eigi ekki við þau, þar sem þau eru í hlutastarfi en við þessi eldri og reyndari vitum betur.
Fulltrúi ASÍ talaði yfir allan hópinn og bauð upp á spurningar og í ljós kom að það er hópur ungmenna sem brotið er á kjarasamningslega úti á vinnumarkaðinum. Svo miklar urðu spurningarnar að kennslustundirnar dugðu ekki til og sat hann því eftir með mörgum nemendum og svaraði enn fleiri spurningum.
Félagslíf nemenda í blóma
Nemendur hafa sannarlega ekki setið auðum höndum þegar kemur að félagslífinu. Í síðustu viku var íþróttavika þar sem MS-ingar kepptu í ýmsum íþróttum bæði innan skólans sem utan. Í vikunni sem var að líða kynnti leikfélagið Thalía starfsemi sýna og uppljóstruðu hvaða sýningu þau munu setja á svið eftir áramótin. Bakvið tjöldin er svo verið að undirbúa 85 vikuna sem haldin verður í fyrstu viku vetrarannar, dagana 20.-24. nóvember.