
Flataskólafréttir
Skólaárið 2022-2023 - 1. febrúar 2023
Kæra skólasamfélag!
Það er heldur undarlegt ástand hjá okkur í skólanum þessa dagana enda hefur töluverðum hluta skólahúsnæðisins verið lokað vegna myglu eins og kunnugt er. Um er að ræða 8 kennslustofur, leikskóladeildina, frístundina og matsalinn okkar. Nágrannar okkar í Garðaskóla brugðust hratt við og náðu að nýta allar smugur í sinni stundaskrá og húsnæði til að þjappa sínum hóp og þannig gátum við fengið aftur til afnota þær stofur í norðurálmu skólans sem Garðaskóli hafði nýtt síðustu mánuðina. Þannig slapp fyrir horn að við náum enn að halda nemendahópnum okkar í sama húsi, nema leikskóladeildinni sem fluttist tímabundið í húsnæði leikskólans Urriðabóls. Jafnframt hefur verið gripið til mótvægisaðgerða eins og sótthreinsunar og nýtingu lofthreinsitækja til að verjast áhrifum þess ef enn kunna að vera gró á ferð um skólann.
Á næstu dögum eigum við síðan von á frekari niðurstöðum úr sýnatökum sem fram fóru snemma á árinu, þá kemur í ljós hvort grípa þarf til frekari ráðstafana og munum við greina frá þeim niðurstöðum með póstum og með upplýsingafundi þegar þar að kemur.
Byrjað er að leggja drög að þeim lagfæringum sem þarf að gera á húsnæðinu en erfitt er að gera heildaráætlun um þær framkvæmdir fyrr en öll gögn liggja fyrir.
Eins og gefur að skilja hefur það margvísleg áhrif á skólastarfið þegar þrengir að á þennan hátt. Þannig hefur staðan bein áhrif á alla nemendur og starfsmenn skólans. Margir hafa þurft að flytja sig um set, sumir hafa þurft að þjappa sér á minni svæði, sumir þurfa að fara lengra til að komast á salerni, mataraðstaðan er breytt, nestisaðstæður eru verri tímabundið, frístundin þarf að nýta kennslustofur og það hefur töluvert takmarkandi áhrif að vera án matar- og samkomusalar.
Allir eru þó staðráðnir í að láta hlutina ganga upp og þannig náum við að halda úti prýðilegu skólastarfi dag hvern. Við viljum þakka starfsfólki, nemendum og foreldrum fyrir skilning og þrautseigju í þessum aðstæðum. Jafnframt færum við Garðaskóla kærar þakkir fyrir snögg viðbrögð þegar að þrengdi.
Kærar kveðjur úr skólanum,
skólastjórnendur
Helstu viðburðir á næstunni
- 13.-17. febrúar - Vetrarfrí í grunnskólum Garðabæjar
- 22. febrúar - Öskudagur - skóladagur grunnskóla til kl. 12:00
- 13. mars - Skíðaferð 1./3./7.b
- 14. mars - Skíðaferð 2./4./5.b
- 14.-15. mars - Skíðaferð / gisting hjá 6.b
- 28. mars - Stóra upplestrarkeppni 7. bekkjar
- 30. mars - Árshátíð 7. bekkjar
- 1.-10. apríl - Páskaleyfi grunnskóla
Lesfimipróf - niðurstöður janúar 2023
Varðandi hádegisnesti
Matsalir á göngum skólans
Foreldrakönnun Skólapúlsins
Áhugavert hlaðvarp fyrir foreldra og skólafólk
Viðbrögð við óveðri
Nú er kominn sá árstími að allra veðra er von og því rétt að vekja athygli foreldra á upplýsingum sem varð viðbrögð við óveðri. Skólastarf fellur ekki niður nema tilkynnt sé um það sérstaklega. Í upphafi skóladags getur í verstu veðrum tafist að fullmanna skóla og mega forsjáraðilar þá búast við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra.
Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í eða úr skóla vegna veðurs, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forsjáraðilar aðstæður svo að ekki sé óhætt fyrir börn þeirra að sækja skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það sem lítur þá á tilvikið sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða forsjáraðilar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa. Nánari upplýsingar um viðbrögð við óveðri má finna hér.
Endurskinsmerki
Mentor - handbók fyrir aðstandendur
Opnunartími skrifstofu
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500