
Fréttabréf forseta
Ágúst 2020
Ráðstefnu aflýst
Mér þykir mjög leitt að þurfa að aflýsa ráðstefnunni okkar 12 september, en hún átti upphaflega að vera í maí. Það hefði svo sannarlega verið gaman að hittast og að einhverju leyti bætt upp fyrir það hvað starfið í samtökunum leið fyrir veiruna á vormánuðum. Þó að smit séu ekki jafn mörg núna og þau voru fyrr á árinu, þá eru afleiðingarnar á skólakerfið miklar. Það hefði eingöngu verið hægt að hittast, ef sóttvarnarráðleggingum hefði verið fylgt 100%. En það er þannig að þrátt fyrir að hægt hefði verið að hafa 2 metra á milli kvenna í ráðstefnusal, þá er erfitt að framkvæma það við kvöldverð eða þegar matast er. Þá ætti reglum samkvæmt að taka upp grímur og hver getur borðað með grímu? Enda var lagt að okkur að hætta við úr ýmsum áttum. Ég talaði auk þess við nokkrar félagskonur og greindi óróa hjá þeim og álagið, sem þær eru í dags daglega við að passa upp á alla hluti á vinnustað sínum. Engin okkar vill breiða smitið út. Við viljum ekki taka áhættu með orðspor samtakanna okkar. Okkur ber ekki skylda til að halda vorfundi eða ráðstefnur skv. lögum samtakanna. Þegar málið var skoðað frá öllum hliðum, þá var ákvörðunin sjálfsögð og einföld. Við aflýsum.
Við erum að kanna hvort hægt sé að taka upp fyrirlestra þeirra Elvu Ýrar og Sigríðar Hagalín. Gangi það eftir munum við koma upptökunum fyrir á vefnum okkar og gera þá þannig aðgengilega fyrir félagskonur og félagsstarfið í haust. Við bindum vonir við að þannig nái efni ráðstefnunnar til fleiri félagskvenna en ella. Þannig getum við snúið stöðunni okkur í hag. Þið fáið nánari fréttir síðar af þessu.
Endurgreiðsla á ráðstefnugjaldi
Þær félagskonur sem voru búnar að skrá sig á ráðstefnuna fá þátttökugjaldið endurgreitt. Sendið póst til gjaldkera okkar Jensínu Valdimarsdóttur jenna.dkg@gmail.com og gefið upp bankaupplýsingar og kennitölu. Ég hvet ykkur til að gera þetta hið fyrsta.
Hótelherbergi afpöntuð
Þær sem pöntuðu herbergi vegna ráðstefnunnar og framkvæmdaráðsfundarins á B-59 í Borgarnesi þurfa ekki að hafa frekari áhyggjur af þeirri pöntun. Hótelstjórinn hefur tekið út allar pantanir. Samskiptin við hótelið hafa verið einstaklega lipur og góð. Fyrir það erum við afar þakklátar. Vonandi getum við haldið viðburð á hótelinu síðar.
Þakkir til þeirra sem unnu að skipulagningu
Það var að venju samstarf við menntamálanefnd um faglega dagskrá ráðstefnunnar og Deltadeildin vann með okkur að skipulagningu og umgerð ráðstefnunnar. Stjórn landssambandsins hefur fundað reglulega um stöðuna. Það liggur því mikil vinna að baki, þótt ráðstefnan verði ekki haldin.
Ég vil þakka öllum þessum félagskonum fyrir vel unnin störf og gott samstarf. Það er ómetanlegt að geta átt í heiðarlegum og einlægum samtölum við samstarfsfólk, þegar staðan í samfélaginu er jafn óviss og hún hefur verið á þessu ári.
Framkvæmdaráðsfundur
Við ákváðum að fresta framkvæmdaráðsfundinum um leið og við aflýstum ráðstefnunni. Okkur ber skylda skv. lögum að halda að minnsta kosti einn fund á ári. Framkvæmdaráðið er um 20 manns og því er auðveldara að halda fundinn samkvæmt öllum ströngustu sóttvarnarreglum. Það verður fyrsta val að halda fund og stefnum við á 3. október frá kl. 10-16. Fundurinn yrði í Reykjavík. Ég bið stjórn landssambands og formenn deilda að taka daginn frá. Það væri gott að heyra frá ykkur ef dagurinn hentar ekki af einhverjum ástæðum. Tölvupóstfangið mitt er ieg@internet.is.
Staðan varðandi covid-19 er þannig núna að ekki er ljóst hvort faraldurinn er á uppleið eða niðurleið. Þessi fyrirætlun okkar byggir á því að faraldurinn sé á niðurleið. Verði það ekki raunin, þá munum við halda rafrænan fund eða fundi, en það er heimilt skv. lögum sambandsins. Við grípum ekki til þeirra ráða nema ástandið versni.
Greiðsla félagsgjalda
Öll félagsgjöld eiga nú að vera greidd. Við hvetjum deildir til að standa vel að málum varðandi innheimtu félagsgjalda. Æskilegt er að formaður heyri í þeim konum sem ekki hafa greitt félagsgjald á réttum tíma. Samkvæmt lögum á félagsgjaldið að greiðast fyrir 30. júní ár hvert. Konur detta úr samtökunum 1. október hafi þær ekki greitt félagsgjaldið. Merkja þarf allar greiðslur inn á eyðublað á vef alþjóðasamtakanna. Ekki hika við að hafa samband við gjaldkera landssambandsins Jensínu Valdimarsdóttur, jenna.dkg@gmail.com ef eitthvað er óljóst.
Nettröll
Ég fékk talsvert af póstum í vetur frá alþjóðaforsetanum. Við nánari skoðun reyndist póstfang sendanda ekki tilheyra forsetanum í öllum tilfellum. Það er mikilvægt að vera alltaf á varðbergi gagnvart falspóstum. Vegna þessa hafa alþjóðasamtökun beðið okkur um að hafa engin póstföng alþjóðasambandsins á opnum vefum. Farið endilega yfir vefi deildanna með þetta í huga og passið upp á að slík netföng séu eingöngu á lokaða hluta vefsíðunnar.