
Fréttabréf Egilsstaðaskóla
Skólahald á tímum samkomubanns....
Breytingar á skólahaldi
Breytingar á skólahaldi í Egilsstaðskóla í kjölfar auglýsingar ráðherra um takmörkun á skólahaldi tóku að fullu gildi í vikunni. Samhliða voru gerðar sóttvarnarráðstafanir á þessum stóra vinnustað til þess að takmarka möguleika á því að smit breiðist út komi það upp innan skólans.
Nemendur og starfsmenn hafa staðið sig frábærlega í nýjum aðstæðum og fram til þessa hefur sú áætlun sem lagt var upp með gengið vel. Ég hvet foreldra til þess að vera í sambandi við kennara og stjórnendur varðandi ábendingar um hvað eina. Við höfum brett upp ermar og viljum gera hlutina eins vel og okkur er unnt.
Skólastjóri
Skólanum skipt í fjögur hólf
1.- 3. bekkjar hólf
Það hefur gengið vel á yngsta stiginu þessa daga sem liðnir eru. Þrátt fyrir að margt sé ólíkt venjulegum skóladegi þá eru börnin almennt dugleg að fylgja þeim tilmælum sem þau fá. Það hefur óneitanlega haft áhrif að marga nemendur hefur vantað í hópinn vegna veikinda. Á móti hefur mönnun starfsfólks verið góð og allir því fengið góðan stuðning í náminu.
Börnin hafa farið út í 20 mínútna frímínútur á fyrirframákveðin svæði á skólalóðinni. Þar er ýmist frjáls leikur eða leikir í gangi. Þessar skiptingar hafa allar gengið smurt og án þess að hópar blandist.
Ekki er annað að sjá en nemendum og starfsfólki líði vel í skólanum þrátt fyrir þetta einstaka ástand.
4. - 6. bekkjar hólf
Á miðstiginu gengur almennt vel að aðlagast breyttu fyrirkomulagi. Eins og á yngsta stigi er nemendahópum haldið aðskildum með því að skipuleggja mætingar, útivist og skólalok á mismunandi tímum. Nemendur eru allan skóladaginn með kennara og reynt er að hafa skipulagið þannig að sömu kennararnir eru með hvern hóp, það er gert til að hafa aðkomu sem fæstra að hópunum.
Kennarar hafa notað ímyndunaraflið til að hafa kennsluna fjölbreytta í skólanum og nærumhverfi. Sem dæmi og má nefna stofuleikfimi í kennslustofunni, vatnslitun í snjó í Tjarnargarðinum, Hreystiganga á Vilhjálmsvelli, kjánaganga (silly walk) um bæinn og gerð útilistaverka úr snjó.
Nemendur og starfsfólk virðist staðráðið í því að nota jákvæðnina til að gera gott úr hlutunum og reyna að njóta þess sem er.
7. -10. bekkjar hólf
Nemendur í 7. – 10. bekk eru búnir að vera í fjarnámi seinni hluta vikunnar. Kennarar hafa sett inn áætlanir á Teams sem nemendur hafa unnið eftir. Kennarar hafa haft fastan viðverutíma við tölvuna þar sem nemendur geta haft samband hvort sem er til að spjalla eða fá aðstoð við námið. Kennarar heyra í öllum nemendum reglulega og eru nemendur ótrúlega brattir. Það er virkilega gaman að finna hvað allir eru ákveðnir í að láta hlutina ganga upp á þessum skrítnu tímum. Mikilvægt er að koma sér upp vinnuáætlun strax og passa upp á verkefnaskil frá fyrsta degi.
Foreldrum er velkomið að senda fyrirspurnir til kennara en þeim verður þó aðeins svarað á dagvinnutíma.
Stjórnendahólf
Hvað getum við gert til að líða vel?
Á þessum fordæmalausu tímum sem við lifum er gott að vera í núinu, muna eftir öllu því góða sem er í kringum okkur og þakka fyrir það, því það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir þó að þessar hörmungar steðji að okkur.
Núvitund
er góð leið til að ná ró og yfirvegun og hægt að stunda hvar sem er. Núvitund er að beina athyglinni að augnablikninu, því sem er hér og nú. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda núvitund auka vellíðan sína, bæta heilsu, það dregur úr kvíða, streitu og depurð. Til að nálgast æfingar og öpp með núvitund þá er m.a. hægt að fara inn á þessar æfingar er hægt að hlaða inn á snjalltæki og hlusta hvar og hvenær sem er.
Inn youtube eru hugleiðsluæfingar fyrir fullorðna, því við fullorðna fólkið verðum líka að huga að okkar heilsu til að vera stuðningur við aðra t.d. börnin okkar því þau skynja vel ef við erum ekki í andlegu jafnvægi.
Þegar við eða nemendur erum í leik eða starfi getur verið gott að setja á tónlist eftir t.d. Friðrik Karlsson. Þessi tónlist er afslappandi og getur fengið okkur til að gleyma stund og stað og hugsa um eitthvað fallegt.
Á vefsíður Hugarfrelsis er hægt að kaupa hugleiðslusögur fyrir börn -ekki svo dýrar en alveg frábærar til að hlusta á fyrir svefninn eða bara hvenær sem er.