
Fréttabréf Síðuskóla
5. bréf - janúar - skólaárið 2021-2022
Kæru foreldrar, nemendur og starfsfólk!
Gleðilegt nýtt ár 2022!
Við höfum nú kvatt árið 2021, verkefni þess voru mörg hver krefjandi og óvenjuleg. Við förum inn í nýtt ár, reynum að vera bjartsýn til að geta tekist á við þær áskoranir og verkefni sem bíða okkar. Skólastarf mun fara af stað með hefðbundnum hætti þriðjudaginn 4. janúar, en við gætum þurft að skerða það ef starfsmönnum í sóttkví og einangrun fjölgar. Við búum áfram við það að skipulag getur breyst með stuttum fyrirvara þannig að það er mikilvægt að lesa vel allar upplýsingar sem berast frá skólanum. Nauðsynlegt er að huga vel að sóttvörnum alls staðar þar sem við erum. Verið í sambandi við okkur ef eitthvað er óljóst, það er mikilvægt svo allt gangi sem allra best.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera starfið í skólanum okkar sem árangursríkast, því saman lærum við, náum árangri og gleðjumst.
Við þökkum ykkur fyrir samstarfið á liðnu ári og megi nýtt ár verða okkur öllum gott.
Með góðri kveðju,
Ólöf, Malli og Helga
Árshátíð Síðuskóla frestað
Á döfinni
10. bekkur - fræðsla um námstækni
13. janúar
8. bekkur - fræðsla um námstækni
24. janúar
Fundur í skólaráði
27. janúar
7. bekkur - fræðsla um nikótín
31. janúar og 1. febrúar
Foreldraviðtöl
Samræmdar reglur um skólasókn í grunnskólum Akureyrarbæjar
Í grunnskólum Akureyrarbæjar eru fjarvistir og óstundvísi skráðar í Mentor og þar safnast upp stig sem segja til um ástundun nemandans. Umsjónarkennari upplýsir nemanda/foreldra vikulega um ástundun. Ef nemandi/foreldri gera ekki strax athugasemdir við ástundunarfærsluna skoðast hún samþykkt.
✓ Fyrir seinkomu fær nemandi 1 stig.
✓ Fyrir fjarvist úr kennslustund fær nemandi 2 stig.
✓ Fyrir brottrekstur úr kennslustund fær nemandi 3 stig.
Ef nemandi er kominn með 10 stig ræðir umsjónarkennari við nemandann og sendir upplýsingar um skólasókn til foreldra/ forráðamanna. Ef nemandi er kominn með 20 stig ræðir kennarinn aftur við nemandann, leitar orsaka fyrir vandanum og leitar lausna með honum. Haft er samband við foreldra. Ef nemandi er kominn með 30 stig eru foreldrar boðaðir á fund með umsjónarkennara og stjórnanda þar sem er leitað að leiðum til úrbóta. Ef nemandi fer yfir 40 stig er málinu vísað til nemendaverndarráðs skóla sem m.a. getur óskað eftir aðstoð fræðslu- og velferðarsviðs. Fagfólk þessara sviða vinnur áfram með málið í samstarfi við skóla. Málastjóri skipaður úr röðum félags- eða skólaþjónustu. Fari nemandi yfir 60 stig tekur barnavernd við málinu.