
Fréttabréf Grenivíkurskóla
8. tbl. 2. árg. - október 2021
Kæra skólasamfélag
Þá eru nokkrar vikur liðnar af skólaárinu og allt að verða komið í fastar skorður. Þær breytingar sem við höfum verið að prófa okkur áfram með mælast vel fyrir bæði meðal nemenda og starfsfólks og er góður andi í hópnum.
Heldur snemmbúinn vetur skall á okkur í lok mánaðarins en við vonum að þetta sé bara smá hvellur og að við eigum í vændum gott haust og mildan vetur.
Starfsfólk skólans fór í góða og lærdómsríka skólaheimsókn í Árskóla á Sauðárkróki þann 24. september síðastliðinn. Fengum við meðal annars að fræðast um teymiskennslu og einnig hagnýtingu upplýsingatækni í kennslu, en Árskóli er á meðal fremstu skóla landsins í þeim efnum. Þá fengum við góða kynningu á því sjálfsmatskerfi sem Árskóli notast við en það er markvisst notað til að meta skólastarfið og efla gæði þess. Afar góð heimsókn og þökkum við Árskóla fyrir frábærar móttökur.
Að lokum langar mig að minna á mikilvægi heimalesturs fyrir nemendur, en við viljum endilega að nemendur lesi heima daglega. Regluleg þjálfun eflir lestrarfærni og þótt við leggjum auðvitað áherslu á lestur hér í skólanum er ekkert sem kemur í stað öflugrar lestrarþjálfunar heima fyrir. Á þessari síðu má sjá nokkur góð ráð fyrir foreldra og forráðamenn sem eru til þess fallin að efla lestrarfærni barna.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Morgunganga og morgunmatur
Dagana 27.-29. september var íbúum Grýtubakkahrepps boðið að koma á morgungöngu með nemendum og starfsfólki Grenivíkurskóla. Raunar þurfti að fella niður gönguna þann 28. september vegna veðurs en hina dagana mættu vaskir göngugarpar og gengu hringinn með okkur. Að göngu lokinni var boðið upp á ávexti, hafragraut og kaffi. Það var ákaflega gaman að fá fólk til okkar á gönguna og góð stemning í morgunmatnum og -kaffinu. Hver veit nema við gerum þetta að reglulegum lið í skólastarfinu!
Krakkakosningar í Grenivíkurskóla
Í tilefni Alþingiskosninganna sem fram fóru þann 25. september síðastliðinn efndu Umboðsmaður barna og Krakkarúv til krakkakosninga. Nemendur í Grenivíkurskóla fengu fræðslu um lýðræði, kosningar og Alþingi og horfðu einnig á stutt innslög frá þeim flokkum sem voru í framboði þar sem farið var yfir þeirra helstu stefnumál.
Að þessu loknu var haldinn kjörfundur í skólanum, þann 22. september. Settir voru upp tveir kjörklefar og kjörstjórn sá um að allt færi fram samkvæmt kúnstarinnar reglum. 50 voru á kjörskrá og bárust 45 gild atkvæði - kjörsókn 90% - sem er með besta móti. Degi síðar voru niðurstöður kosninganna tilkynntar en atkvæðin voru einnig send til Krakkarúv sem safnaði saman atvæðum úr öllum skólum sem tóku þátt í verkefninu og voru þær niðurstöður kynntar á kosningavöku Rúv. Skemmtilegt verkefni sem gaman var að taka þátt í.
Lalli töframaður
Gjaldfrjálsar tíðavörur
Fulltrúar nemenda í ráðinu tóku vel í þessa hugmynd og sögðu að það hefði talsvert verið rætt meðal nemenda. Nú er búið að hrinda þessu í framkvæmd og koma fyrir tíðavörum á snyrtingu svo þeir nemendur sem þurfa eigi greiðan aðgang að slíkum vörum.
Heilsueflandi skóli
Auk hinnar hefðbundnu morgunhreyfingar höfum við tekið þátt í nokkrum heilsueflandi verkefnum í september.
Göngum í skólann var sett 8. september og í tvær vikur voru nemendur hvattir til að nýta virkan ferðamáta í og úr skóla. Nemendur gengu og hjóluðu í skólann sem aldrei fyrr á meðan átakinu stóð eða 98,7% tímabilsins sem er frábær frammistaða. Okkar von er að þetta verkefni verði hvatning fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla allt árið um kring.
Þann 15. september hlupu nemendur í Ólympíuhlaupi ÍSÍ en þeir gátu valið milli vegalengdanna 2,5 km, 5 og 10 km. Það viðraði vel til hlaupa og nemendur stóðu sig virkilega vel, en alls hlupu 47 nemendur rúma 312 kílómetra!
Síðast en ekki síst var Íþróttavika Evrópu haldin 23. - 30. september. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi en markmið vikunnar er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Framlag okkar til íþróttavikunnar var að bjóða íbúum Grýtubakkahrepps að koma á morgungöngu með nemendum og starfsfólki, líkt og kemur fram hér að ofan, og tókst það afar vel.
Dagatal Velvirk að þessu sinni snýr að bjartsýni. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Nemendur Grenivíkurskóla tóku þátt í landgræðsluátaki skógræktarinnar í september og gróðursettu hvorki fleiri né færri en 528 birkiplöntur í nágrenni skólans. Mörg undanfarin ár höfum við gróðursett birki og er árangurinn augljós eins og t.d. má glögglega sjá á svæðinu á milli Gamla skóla og skólans.
Hér má sjá nokkrar myndir frá gróðursetningunni.
Fyrsti afmælispakkinn fjallar um plast og plastnoktun og hvað við getum gert til að draga úr henni. Smellið hér til að opna afmælispakkann.
Á döfinni í október
- 6. október: Forvarnardagurinn
- 7. október: Samskóladagur hjá 8.-10. bekk í Þelamerkurskóla
- 13. október: Grenivíkurskóli 40 ára!
- 23. október: Fyrsti vetrardagur
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li