
Fréttamolar úr MS
10. janúar 2023
🎆 Gleðilegt nýtt ár! 🎆
Gleðilegt nýtt ár kæru nemendur og aðstandendur!
Það er alltaf ánægjulegt að koma aftur í skólann á nýju ári, hitta skólafélagana og dusta rykið af námsbókunum. Vetrarönn er nú hálfnuð og miðannarmat birtist nemendum og forsjárfólki í Innu fimmtudaginn 12. janúar kl. 20. Miðannarmatið gefur vísbendingar um stöðu nemenda í áföngum og mikilvægt að skoða það vel og bregðast við eftir þörfum.
Það er ýmislegt á döfinni í MS á næstunni. MS mætir FVA í 1. umferð Gettu betur þriðjudaginn 10. janúar, FRÍS (rafíþróttakeppni framhaldsskólanna) hefst seinni hluta janúar og Morfís keppnir í fullum gangi. Nemendum gefst líka kostur á að taka þátt í landskeppnum í líffræði og efnafræði í janúar og febrúar (nánari upplýsingar hjá líffræði- og efnafræðikennurum).
Við vekjum athygli á því að stöðupróf í spænsku, ensku, rússnesku og þýsku verða haldin í MS miðvikudaginn 25. janúar á matsdegi og stöðupróf í albönsku verður haldið á matsdegi 20. febrúar. Stöðuprófin eru ætluð bæði nemendum okkar sem og öðrum nemum. Nánari upplýsingar um skráningu og verð má finna hér að neðan.
Dagsetningar framundan
- 10. janúar - þriðjudagur - MS mætir FVA í 1. umferð Gettu betur í útvarpinu kl. 21
- 12. janúar - fimmtudagur - Miðannarmat birtist í Innu kl. 20
- 16.-20. janúar - Valvika hjá 1. ári - nánar kynnt í Krossgötutímum vikunnar
- 25. janúar - miðvikudagur - Matsdagur
- 26. janúar - fimmtudagur - Matsdagur
MS mætir FVA í 1. umferð Gettu betur 2023
Þriðjudaginn 10. janúar mætir Gettu betur lið MS liði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
Að gefnu tilefni
Skólinn hefur haft fregnir af því að nemendur MS ætli að hópast saman á skíði á Akureyri í lok janúar. Við leggjum áherslu á að svona ferð er ekki á vegum skólans eða skólafélagsins og engin skipulögð hópferð í gangi. Ef hópar nemenda úr MS fjölmenna á Akureyri hvetjum við foreldra til að vera vakandi yfir sínum börnum, hvort sem leiðin liggur á skíði eða annað. Loks ítrekum við að það er hefðbundinn skóladagur föstudaginn 27. janúar þrátt fyrir matsdaga dagana á undan og helgarfrí dagana á eftir.
Stjórnendur.
Stöðupróf framundan - smellið á myndirnar fyrir nánari upplýsingar
Hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla
Í MS er nú hægt að hlaða rafmagnsbíla með hleðslustöðvum Ísorku. Við bendum á að hleðslustæðin eru eingöngu ætluð bílum í hleðslu - aðrir eiga á hættu að vera dregnir í burtu. Þá má benda á að vanda sig við að leggja bílum í nágrenni við skólann, sérstaklega í þessari færð.