Fréttamolar
29. apríl 2022
Mikilvægar dagsetningar framundan
01. maí - Verkalýðsdagurinn!
02. maí - Landóvikan hefst
04. maí - Landó ballið víðfræga!
09-10. maí - Matsdagar
Gleðilegt sumar!
Dagarnir líða hratt þegar sólin er komin hátt á loft og nú er apríl senn á enda! Framundan er mjög lífleg landbúnaðarvika þar sem nemendur hafa skipulagt fjölmarga skemmtilega viðburði. Fjörið nær svo hámarki 4. maí þegar landóballið fer fram í Reiðhöllinni Víðidal! Munum að halda vel á spöðunum og náum árangri bæði í námi og félagslífi!
Miðstjórn lagði hönd á plóg í heiðmörk!
Í umhverfisvikunni lá vel við að skella sér upp í heiðmörk og skoða skógræktarreit MS. Miðstjórnin tók sig vel út í skógræktarstörfunum og sýndu öll glæsilega takta sem lofa góðu fyrir landbúnaðarvikuna!
Umhverfisvikan í MS
Það var sannarlega nóg um að vera í umhverfisvikunni. Skólinn fékk grænfánann afhentan við hátíðlega viðhöfn þar sem fyrrverandi ármaður skólafélagsins heiðraði okkur með nærveru sinni. Einnig voru kennarar útsjónarsamir að skapa verkefni í ólíkum áföngum þar sem umhverfismál voru samofin námsmarkmiðum.
Tölvuþjónusta skólans
Á heimasíðu skólans undir Þjónusta og svo Tölvuumsjón er að finna upplýsingar um tölvuþjónustu skólans.
Þarna er einnig að finna upplýsingar um:
- prentun í skólanum,
- Office 365.
- hvernig maður breytir lykilorði.
- hvernig maður virkjar og núllstillir tveggja þátta auðkenningu.
Frábært framtak!
Stelpur diffra eru sumarnámsbúðir í stærðfræði sem haldnar verða í annað sinn vikuna 8.-12. ágúst 2022 í samstarfi við Háskóla Íslands og Vísindasmiðjuna. Búðirnar eru hugsaðar fyrir stelpur og stálp á aldrinum 16-18 ára sem hafa lokið fyrsta ári í framhaldsskóla, hafa áhuga á stærðfræði og vilja læra meira umfram það sem kennt er í skólum, bæði hvað varðar fræðin sjálf og hvernig hún birtist í daglegu lífi. Lögð er áhersla á að gefa sér tíma til að skoða stærðfræðina í gegnum skemmtileg verkefni frá flottum kennurum. Þau sem hafa áhuga og vilja fá frekari upplýsingar og hlekk á forskráningu þegar að því kemur geta skráð sig á eftirfarandi form https://forms.gle/QKESRKihhESjPwKM8. Nánari upplýsingar birtast einnig á Facebook síðu búðanna og frekari spurningar má senda á info@stelpurdiffra.is.