
Fréttabréf Egilsstaðaskóla
Upphaf skólaársins 2020-2021
Ágæta skólasamfélag
Þá er skólaárið 2020-2021 hafið og með þessu fréttabréfi vill starfsfólk skólans koma upplýsingum á framfæri sem gott er að kynna sér við skólabyrjun.
Við byrjum skólaárið á því að vera svolítið útivið, bæði í íþróttatímum og á göngudaginn þann 2. september.
Skólahald í Egilsstaðaskóla fer nú af stað í skugga heimsfaraldurs. Með Auglýsingu heilbrigðisráðherra frá því fyrr í ágúst eru nálægðarmörk starfsmanna skóla 1 metri og börn fædd árið 2005 eða síðar eru undanskilin ákvæðum, sem snúa að fjöldatakmörkun og um almenna nálægðartakmörkun.
Skólinn verður viðkvæmur fyrir áföllum tengdum faraldrinum s.s. ef starfsmenn þurfa að fara í sóttkví eða smit greinist innan skólans. Ljóst er að komið getur til skerðingar skólastarfsins af þeim sökum. Ég vil ítreka mikilvægi sóttvarnaraðgerða og þeirra viðmiða sem sett hafa verið.
Helstu ráðstafanir eru:
Nemendur/starfsmenn eiga ekki að koma í skólann séu þeir með flensueinkenni.
Skólinn er lokaður foreldrum og öðrum gestum, nema í undantekningartilfellum og þá í samráði við og með leyfi skólastjóra. Skrifstofa skólans er opin alla daga frá 8:00-16:00 og einnig má senda erindi á egilsstadaskoli@egilsstadir.is Unnið er að því að auðvelda leyfisbeiðnir og hvers kyns skráningar með því að bjóða upp á rafrænar lausnir.
Handþvottarútína verður áfram hjá nemendum og starfsmönnum, við komu í skólann og fyrir nesti og hádegi.
Aukin þrif verða á snertiflötum s.s. handriðum, borðum og hurðarhúnum.
Áhersla á rafræna fundi í skólastarfinu. Foreldrum og samstarfsaðilum skólans verður boðið upp á að nýta rafræna fundi.
Skólahúsnæðið verður ekki leigt út.
Að öðru leyti stefnum við á hefðbundið skólastarf í Egilsstaðskóla í vetur. Foreldrum er bent á skóladagatalið á heimsíðu skólans, en þar er yfirlit yfir ytra skipulag skólastarfsins.
Starfsfólk Egilsstaðaskóla óskar eftir góðu og árangursríku samstarfi við nemendur og foreldra á komandi skólaári.
Mikilvægi mætingar nemenda í skóla – leyfisbeiðnir
Mæting nemenda í skóla er mikilvægur hlekkur í farsælli skólagöngu. Mikilvægt er að foreldrar tryggi að skólinn gangi fyrir öðrum verkefnum hjá barninu. Skólinn óskar þess að leyfisbeiðnum nemenda sé haldið í lágmarki á starfstíma skóla svo nemandinn missi sem minnst úr skóla.
Egilsstaðaskóli vinnur að forvarnarverkefni gegn skólaforðun í samstarfi við Austurlandslíkanið, samkvæmt eftirfarandi verklagi. Með fjarvistum er átt við bæði leyfi og veikindi.
1. Hafi nemandi verið 9 daga fjarverandi frá skóla hringir umsjónarkennari í foreldra, lætur vita af stöðunni og ræðir úrbætur.
2. Ef fjarvistir halda áfram eru foreldrar og eftir atvikum nemendur boðaðir á fund þegar nemandi hefur verið 18 daga frá skóla. Fundinn sitja af hálfu skólans umsjónarkennari og stjórnendur. Á fundinum er vandinn greindur og úrræði til úrbóta rædd. Gerður er skriflegur samningur um úrbætur til skamms tíma.
3. Ef ekki gengur betur á samningstímanum er máli nemandans vísað til Austurlandsteymisins.
Varðandi frekari upplýsingar er vísað til bæklings um verkefnið á heimasíðu skólans.
Ef sækja þarf um leyfi er það gert skriflega með eyðublaði sem er að finna á heimasíðu skólans. Því er skilað skriflega til ritara eða á netfangið egilsstadaskoli@egilsstadir.is. Ef óskað er eftir leyfi fyrir nemanda í einstaka kennslustund eða hluta úr degi skal senda tölvupóst á sama netfang. Unnið er að því að koma leyfisbeiðnum í rafrænt form og verða forráðamenn upplýstir þegar það er tilbúið.
· Veikindi eru skráð í Mentor eða hjá ritara skólans. Mikilvægt er að foreldrar tilkynni veikindi barna sinna á hverjum degi sem þau eru veik.
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 8:00 - 16:00. Síminn er 4 700-605.
Frístund tekur til starfa 25. ágúst og er starfrækt milli kl.8:00-8:50 og kl.14:00-16:00.
Veikindi nemenda
Veikindi nemenda skal skrá fyrir hvern dag í Mentor eða hafa samband við ritara skólans með því að hringja í síma 4700 605 eða senda tölvupóst á netfangið egilsstadaskoli@egilsstadir.is.
Kennarar taka ekki við veikindaskráningum nemenda.
Skólaíþróttir og skólasund
1. – 4. bekkur
Ætlast er til að nemendur taki með sér íþróttastuttbuxur og bol fyrir íþróttatíma. Gott er að íþróttaföt nemenda séu vel merkt. Nemendur í 1. og 2. bekk nota ekki íþróttaskó í íþróttatímum.
Mælst er til að stelpur séu í sundbol og strákar í sundskýlu í sundkennslu. Bikiní og síðar, þungar stuttbuxur henta mjög illa og eru hamlandi í sundi. Æskilegt er að nemendur séu með eigin sundgleraugu.
5. – 10. bekkur
Ætlast er til að nemendur hafi með sér viðeigandi íþróttafatnað til íþróttaiðkunar, hvort sem er fyrir útihlaup eða tíma í íþróttahúsi. Skylda er að fara í sturtu eftir íþróttatíma og því æskilegt að hafa handklæði. Útihlaup verða fram að Péturshlaupi, í einfalda tímanum hjá 5.-8.bekk og í byrjun tíma hjá 9. og 10. bekk.
Nemendur sem gleyma íþróttafötum eiga að taka þátt í íþróttatímum og fá skráð í Mentor gleymd námsgögn.
Mælst er til að stelpur séu í sundbol og strákar í sundskýlu í sundkennslu. Bikiní og síðar, þungar stuttbuxur henta mjög illa og eru hamlandi í sundi. Æskilegt er að nemendur séu með eigin sundgleraugu.
****************************************************************************************
Ef nemendur mega ekki taka þátt í íþrótta- eða sundtímum verða foreldrar að hringja fyrir tímann í ritara skólans í síma 470-0605 og gera grein fyrir fjarveru þeirra. Nemendur eiga samt sem áður að mæta í tímann og horfa á. Íþróttakennarar taka ekki við forfallamiðum frá forráðamönnum.
Ekki verða lánuð sundföt, sundgleraugu og handklæði í kennslu.
****************************************************************************************
Mötuneyti - nesti í hádegi
Nemendum gefst kostur á að kaupa hádegisverð í skólanum. Verð á máltíð er 461 kr. Aðeins er hægt að skrá sig í allar máltíðir fram að áramótum. Uppsagnir á áskrift þurfta að berast fyrir jólafrí á netfangið egilsstadaskoli@egilsstadir.is. Ef uppsögn berst ekki fyrir jólafrí er gert ráð fyrir áframhaldandi áskrift eftir áramót.
Skráning í mat fer fram á Mentor, sjá nánar í pósti frá aðstoðarskólastjóra.
25. ágúst, þriðjudagur - Fiskibollur með kartöflum og karrísósu
Hægt er að skoða matseðilinn á heimasíðu skólans
Þá geta nemendur fengið ávexti/grænmeti í nestistíma á morgnana og kostar mánaðaráskriftin 1025 kr.
Skólinn leggur áherslu á að nemendur sem koma með nesti í hádeginu eða nesti í frímínútum komi með hollt og næringarríkt nesti sem inniheldur ekki hnetur.
Skólareglur Egilsstaðaskóla
Almennar reglur:
Við sýnum tillitsemi og fylgjum almennum umgengnisvenjum.
Við komum á réttum tíma í allar kennslustundir og höfum viðeigandi námsgögn meðferðis.
Nemendum er ekki veitt leyfi úr kennslustundum nema að beiðni foreldra/forráðamanna.
Yfirgefi nemandi kennslustund án leyfis kennara getur hann átt von á því að fá skráða fjarvist.
Óheimilt er að hafa sælgæti eða gosdrykki í skólanum á skólatíma, nema annað sé ákveðið.
Meðferð og notkun tóbaks og annarra vímuefna er bönnuð í og við skólann og hvar sem nemendur eru á vegum skólans.
Nemendum ber að hlýða starfsfólki skólans í öllu því er skólann varðar.
Telji nemandi að starfsfólk skólans sýni sér ranglæti getur hann vísað máli sínu til skólastjórnar eða nemendaverndarráðs.
Frávik frá skólareglum:
Mikilvægt er að starfsmenn, foreldrar og nemendur séu meðvitaðir um æskilega hegðun og viðbrögð við hegðunarfrávikum. Nemendur fá fræðslu og þjálfun varðandi greinarmuninn á æskilegri hegðun og hegðunarfrávikum.
Í Egilsstaðaskóla er leitast við að hafa skýr og fyrirsjáanleg viðbrögð við
hegðunarfrávikum. Hegðunarfrávikum er skipt upp í þrjú stig eftir alvarleika.
Í dagsins önn er ekki óeðlilegt að nemendur gleymi sér og þurfi leiðsögn um viðeigandi hegðun.
Flestum málum lýkur með leiðsögn og ábendingu. Ef nemendur eru ekki tilbúnir að taka leiðsögn setur starfsmaður mál þeirra í skýrt ferli.
Minniháttar hegðunarfrávik fyrnast en ef óviðunandi hegðun er viðvarandi er barn stutt með markvissum aðgerðum skóla og heimilis.