

Í upphafi skólaárs 2023 - 2024
9. ágúst 2023
Verið velkomin til leiks og náms
Skóladagatal 2023 - 2024
Nú í fyrsta sinn eru skóladagatöl leik- og grunnskóla að mestu samræmd. Það er einkum tvennt sem liggur að baki þeirrar ákvörðunar, annars vegar þörfin á því að koma til móts við samkomulag um betri vinnutíma, eða styttingu vinnuvikunnar eins og það hefur oft verið nefnt. Hins vegar er það svo möguleiki skólanna að vinna meira saman. Það er svo auðvitað von okkar að þessar breytingar hjálpi til við að gera leikskólann að eftirsóknarverðari vinnustað. Ég er mjög stolt af þessari breytingu og tel þetta góða lausn á ,,Betri vinnutíma", það er einnig von mín að álag minnki á starfsfólk leikskólans og þetta verði til þess að hann verður betri staður til að vera á bæði fyrir börn og fullorðna.
Leiðrétting: Lokaútgáfa skóladagatalsins á eftir að fara fyrir skólanefnd. Það er því birt með fyrirvara um samþykki hennar.
Starfsfólk leikskólans í upphafi skólaárs
Grænhóll
Elma Jóhannsdóttir b.ed. í leikskólakennarafræðum - deildarstjóri í fullu starfi
Alda Kristín Jóhannsdóttir leiðbeinandi í fullu starfi
Eva Jodasova stuðningur í fullu starfi, er í íslenskunámi
Eszter Aradi b.ed í leikskólakennarafræðum - leiðbeinandi í fullu starfi , er í íslenskunámi
Telma Þöll Þorbjörnsdóttir stuðningur í 50% starfi
Valný Björg leikskólaliði í 100% starfi
Hof
Auður Hanna Grímsdóttir er að ljúka þroskaþjálfanámi - deildarstjóri
Birta Marínósdóttir stuðningur í fullu starfi
Kamila Korus m.ed. í leikskólakennarafræðum og kennslu ungra barna. Er í fullu starfi oger í íslenskunámi
Magni Þór Björnsson stuðningur í 90% starfi
Sintija Dorozka leikskólakennari í fullu starfi og deildarstjóri útináms og skapandi greina
Vignir Öxndal Ingibjörnsson stuðningur í fullu starfi.
Þrif
Suzana og Peter Palicka sinna þrifum í sameiningu
Matráður
Nina Faryna
Skólastjóri
Ingveldur Eiríksdóttir
Staðgengill skólastjóra
Elma Jóhannsdóttir
Fofallakennari
Sigþrúður
Formaður skólanefndar
Katrín Þorvaldsdóttir
Nú í skólabyrjun er Jónína okkar í sjúkraleyfi, Nina hefur verið frá sömuleiðis og ekki er vitað hvenær hún kemur til baka. Þangað til bjarga þær okkur (enn) Matthildur og Anna María.
Að búa til betra samfélag
Ræða Steinunnar Lilju þann 17. júní 2023 þar sem hún fjallar m.a. um það hvað það er sem gerir samfélagið okkar gott og betra.
Við fengum leyfi til að birta hana því hún á erindi við alla.
Sæl kæru vinir, sveitungar og hátíðargestir!
Gleðilega hátíð!
Í mínum huga hefur þjóðhátíðardagurinn okkar alltaf verið dagur vonar og kærleika. Ég kem að norðan og á Akureyri er þjóðhátíðardagurinn undirlagður nýstúdentum þar sem brautskráð er frá Menntaskólanum þann dag.
Ein sterkasta minning mín úr æsku af 17. júní er að sitja í garði móðursystur minnar og fjölskyldu þar sem miðjubarnið var að útskrifast. Ég var með hrossabrest og sleikjó í fánalitunum og sat bara og hlustaði á fullorðna fólkið tala um hvað framtíðin var björt. Mér þótti þetta góð tilbreyting frá, að því mér virtist, endalausum aðfinnslum þeirra eldri við unga fólkið.
Það er gömul saga og ný að eldra fólkið horfir til yngri kynslóða og þykir ekki mikið til koma. Það er sama hvar í sögunni við drepum niður, til eru umkvartanir þeirra eldri um leti, dramb, dekur og almennt ógagn af þeim yngri.
Það hafa þó alltaf verið skynsemisraddir líka, Aristóteles sagði um 350 árum fyrir Krist að Ungt fólk væri drambsamt þar sem það hefði ekki en verið auðmýkt af reynslunni. Einhverjir hafa reyndar túlkað þessi orð hans sem gagnrýni en mér þykja þau lýsa skilningi á eðli þess að vera ungur.
Það má þó ekki skiljast svo að ég haldi að ég sé al saklaus af því að láta siði þeirra yngri fara aðeins í taugarnar á mér. Bara fyrr á þessu ári stóð ég sjálfa mig að því að hneykslast og sagði hrokafull; ,,ég man nú ekki til þess að við höfum verið svona þegar við vorum á þessum aldri‘‘.
En ég man bara alveg eftir því að hafa verið full yfirlætis, hroka og fullvissu þess að þetta gamla lið vissi eiginlega ekki neitt.
Það að ég hafi ekki hangið í símanum allan daginn alla daga hafði mun meira með það að gera að snjallsímar voru ekki til þegar ég var ung en að ég hefði verið svo framtakssöm og frábær.
Ég man ekki betur en að fólki hafi þótt ég hanga of mikið yfir bókum, það gæti nú ekki verið gott fyrir augun eða heilann eða bara nokkurn hlut að lesa endalaust og alla daga.
Það hefur heldur betur snúist við.
Ég er þó ekki að tala fyrir óhóflegri snjallsímanotkun, en held það sé ágætt fyrir okkur að muna að værum við að alast upp í þeirri tækni sem til er núna hefðum við líklega ekki verið neitt öðruvísi.
Ég er meira að segja svo svag fyrir þessari blessuðu tækni að ég hef tekið upp á því að vera bara með spjallsíma til að vera ekki límd við skjáinn meira en ég kæri mig um.
Um daginn, þegar ég settist fyrst niður að skrifa þessa ræðu og fór að velta þessu með yngri og eldri kynslóðir fyrir mér, áttaði ég mig á hvað er í rauninni hrikalega fyndið að eldra fólkið láti eins og hegðun þeirra yngri hafi bara ekkert með hegðun þeirra sjálfra að gera. Að við látum eins og unga fólkið hafi bara birst hérna óforvarendis og enginn hafi spurt okkur leyfis eða látið vita!
Framtíðin á hverjum tíma er allskonar. En meðan börn fæðast enn er hún alltaf björt!
Að mínu viti ætti framtíðin að vera einstaklega björt í sveitasamfélögum, þó þróunin hafi kannski ekki verið þannig.
Þar sem börnin okkar starfa við hlið okkar og læra ung að lífið er allskonar.
Læra hvaðan maturinn kemur og hversu vel þurfi að hlúa að öllu svo hann verði til.
Læra að dauðinn er alltaf hluti af lífinu og læra að syrgja og halda áfram.
Læra að stundum er lífið bara hrikalega erfitt og ósanngjarnt. Læra jafnframt að það er eðlilegt og allt í lagi.
Læra þakklæti og virðingu fyrir hverju einasta líf.
Þekkja vellíðanina sem felst í því að setjast niður eftir gott dagsverk.
Ég trúi því og vona að sveitasamfélögunum fari að vaxa ásmegin og að við sem samfélag og þjóð áttum okkur mun betur á mikilvægi landsbyggðarinnar og þess sem hún leggur til menningar, verðmætasköpunar og mataröryggis.
Börnin í okkar samfélagi búa ótrúlega vel að frábærum menntastofnunum, útikennsla í hávegum höfð og þau fá að lifa og læra í miklu návígi við landbúnaðinn.
Mín reynsla og minna barna er að hér fái einstaklingurinn að blómstra og vera nákvæmlega það sem hann er, styrkleikunum mun frekar hampað en að einblína á það sem betur mætti fara. Frábært fagfólk sem brennur fyrir að börnunum okkar líði vel.
Svo ekki sé talað um íþróttastarfið! Sem mikið til er rekið áfram af sterkri hugsjón fárra einstaklinga sem hvetja okkur öll áfram í að leggja það til sem við getum, í því felst endalaus vinna sem sjaldan er talin fram nokkurs staðar. Að hringja óteljandi símtöl, óteljandi bílferðir um sveitina í reddingum og fjöldamargar ferðir utan sveitar á mót og sameiginlegar æfingar.
Ég hef búið víða um ævina og það er óvíða að finna jafn öflugt hugsjónarstarf í íþróttum og heilsueflingarmálum og hér.
Þetta gerist ekki að sjálfu sér og ég tek ofan af fyrir öllu fólkinu sem leggur allt í þessa málaflokka, bara til að búa til betra samfélag. Bara til að gera líf barnanna okkar þeim mun betra.
Bara til að við öll höfum það betra!
En við verðum að standa vörð um þetta frábæra fólk allt saman og menntastofnanirnar okkar svo þær haldi áfram að dafna!
Við verðum að hlú að starfsfólki þessara stofnanna, við verðum að sýna þeim í orði og á borði að störf þeirra séu með þeim mikilvægari sem hægt er að vinna.
Ég ætla ekki að þykjast vera með eina patent lausn á því hvernig við gerum það, en ég myndi mjög gjarnan vilja sjá mikið virkara og opnara samtal í samfélaginu um hvernig við getum gert það.
Spyrja okkur spurninga eins og;
,,Hvernig getum við gert skólana okkar að eftirsóknarverðum og vinsælum vinnustöðum?´´.
Því við höfum sannarlega allt til að bera til að rækta hér besta skólastarf á landinu.
Því við þurfum ekki að vera sammála um hvert smáatriði en ef við öll einsetjum okkur að gera vel í þessum málum og tölum saman, hlustum, sýnum skilning og finnum lausnir, þá eru okkur allir vegir færir!
Mig langar að tileinka þessi orð mín öllum kennurum hér í sveit á öllum skólastigum. Við værum ekki samfélag án ykkar. Takk fyrir að ala börnin okkar upp með okkur.
Takk fyrir mig
Fyrirlestur um fæði leikskólabarna
Dagný Lilja Birgisdóttir kom til okkar á starfsdaginn 8. ágúst og fjallaði um gott mataræði og áhrif kolvetna á litla kroppa. - Það er ekki sama kolvetni og kolvetni og meira að segja er það sem við köllum hollt ekkert endilega svo hollt! Það er vandlifað en niðurstaða hennar var þó klár:
Forðumst unnin matvæli
Forðumst sykur og sæt matvæli
Neytum fjölbreyttrar fæðu þar sem áherslan er lögð á að við tyggjum matinn, en drekkum hann ekki, neytum ávaxtanna í heilu lagi en ekki í safa formi og vörumst að gera mat að umbun eða tengja ákveðnar fæðutegundir við skemmtun en aðrar við eitthvað annað leiðinlegra (oh það er alltaf fiskur á mánudögum, eins og mánudagar séu ekki nógu erfiðir...).