Fréttabréf Flóaskóla
desember 2023
Kæra skólasamfélag
Viðamesta verkefni nóvembermánaðar var án efa leiksýning elsta stigs. Einþáttungur sem sýndur var fyrir fullu húsi í þrígang. Þetta var afar vel unnin sýning og hin besta skemmtun fyrir fólk á öllum aldri. Ánægjulegast var að sjá alla nemendur elsta stigs vinna þetta saman og skila ólíkum hlutverkum sínum sem sóma.
Í vikunni fenguð þið send heim myndbönd frá heimsmarkmiðavinnu nemenda frá því fyrr í haust og vonandi hafði þið haft ánægju af að skoða þau.
Nú er síðasti mánuður ársins upprunninn og fullveldi okkar Íslendinga á 105 ára afmæli í dag. Dagurinn hófst með kyndilgöngu um nágrenni skólans. Að henni lokinni komu allir saman fyrir utan Þjórsárver þar sem boðið var upp á kakó og smákökur. Þegar komið var inn í skóla söfnuðust allir saman í og við stigann og þar leiddi Hafdís Gígja jólasamsöng. Síðan var hafist handa við að koma skólanum í jólabúning. Hér má sjá nokkrar svipmyndir frá þessum afar vel heppnaða degi.
Kyndlaganga um umhverfi skólans
10. bekkingar bjóða upp á kakó og smákökur
Beðið eftir veitingunum
Samsöngur allra í stiganum
1. og 6. bekkur búinn að skreyta jólatréð
Jólatréð skreytt
Já það minnir svo ótal margt á jólin og desembermánuður er á margan hátt helgaður aðventunni og jólaundirbúningi. Jólasöngvar, jólaskreytingar, jólaleikrit og ýmis jólaverkefni einkenna vikurnar framundan meðan beðið er eftir hátíð ljóss og friðar, hátíð barnanna.
Nemendur í 1.-4. bekk eru við æfingar á helgileik og nemendur í 5.og 6. bekk æfa líka sína jóladagskrá. Svona skapandi verkefni eru krefjandi en afar lærdómsrík fyrir alla sem að þeim koma og útkoman verður alltaf stórkostleg upplifun, ekki síst fyrir þá sem fá að horfa á og njóta.
Miðvikudaginn 13.12. er foreldrum/forráðamönnum boðið á sýningu í Þjórsárveri kl 9:00. Að sýningu lokinni verður boðið upp á hressingu. Hin árlega jólahringekja verður svo síðustu dagana fyrir jól með ýmsum skemmtilegum verkefnum. Boðið verður upp á möndlu-grjónagraut og dregnir út heppnir nememendur sem fá möndlugjöf. Í síðasta hádegi fyrir jól er svo hátíðarmatur. Þann 20. desember verða haldin stofujól og endað á jóladiskói í Þjórsárveri áður en haldið er í jólaleyfi.
Bestu kveðjur úr Flóaskóla
Þórunn Jónasdóttir
Langspilsvaka Flóaskóla
Langspilsvakan verður haldin í Þingborg að kvöldi fullveldisdagsins 1.12. Allir hjartanlega velkomnir.
Skólaþing um símanotkun nemenda í Flóaskóla mánudag 4.12. kl 12:40-14:00
Næstkomandi mánudag verður skólaþing í Flóaskóla. Þar verða kynntar niðurstöður kannana sem lagðar voru fyrir nemendur í 4.-10. bekk, starfsmenn og foreldra/forráðamenn. Í kjölfarið verður unnið með þær niðurstöður, þar sem nemendur, foreldrar/forráðamenn og starfsmenn setjast saman og ræða um hvernig við viljum haga símanotkun nemenda á skólatíma. Skólaþingið er kjörið tækifæri til að eiga samtal um leiðir og lausnir sem hjálpa okkur að fá niðurstöðu sem þjónar öllum sem að málum koma og bætir skólastarfið.
Þingið verður haldið í Þjórsárveri kl 12:40-14:00. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að mæta á þingið og taka þátt í vinnu að mótun stefnu um símanotkun í skólanum.
Skólaráð tekur saman niðurstöður þingsins og vinnur úr þeim í janúar þar sem komið er svo nálægt jólaleyfi. Niðurstöður verða svo kynntar í fréttabréfi 1. febrúar.
Breyting á aðkomu umferðar að Flóaskóla
Frá því í vor hefur staðið yfir vinna við undirbúning fyrirhugaðra framkvæmda við Flóaskóla. Í þeirri vinnu skapaðist töluverð umræða um umferðaröryggi við skólann. Planið við skólabygginguna er oft þéttsetið á álagstímum af einkabílum, skólabílum og börnum á öllum aldri. Planið nær alveg upp að skóla og óhjákvæmilegt fyrir þau að fara þar um á leið sinni út úr skólanum. Það er líka að hluta leiksvæði barnanna og þau fara þar um á leið í frístund. Tekin hefur verið ákvörðun um að takmarka aðgengi að þessari innkeyrslu. Skilti verður sett upp niðri við afleggjarann þar sem fram kemur að innakstur sé bannaður öllum ökutækjum öðrum en skólabílum, á virkum dögum frá 7:45-15:45. Þegar skiltið verður komið upp, vonandi ekki síðar en kringum áramót, koma skólabílarnir til með að leggja neðar á planinu í hring, þannig að þeir þurfi aldrei að bakka þegar þeir fara af planinu. Allir starfsmenn leggja á planinu við Þjórsárver og foreldrar sem keyra börn sín í eða úr skóla koma líka á það plan. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er breyting sem getur verið óhentug fyrir þá sem koma að skólanum, en þetta er gert til að auka öryggi nemenda og það hlýtur alltaf að vega þyngst í ákvörðunum okkar.
Bókagjöf til skólans
Kvenfélag Villingaholtshrepps færði skólanum bókagjöf og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.