![page background](https://cdn.smore.com/u/backgrounds/custom_bg-5df38a0e06a1573051f3bfb7-af33f88d4256.jpg)
Nesskólafréttir
Fréttabréf vegna skólastarfs næstu daga/vikna
Samkomubann
Það er væntanlega öllum ljóst að framundan eru krefjandi tímar hjá okkur í Nesskóla við að láta skólastarfið ganga sem best, hjá foreldrum, nemendum og starfsfólki.
Föstudaginn 13. mars s.l. var sett á samkomubann. Um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar segir eftirfarandi um grunnskóla:
„Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að þeim skilyrðum uppfylltum að ekki séu fleiri en 20 nemendur í kennslu í sömu stofu og að nemendur blandist ekki milli hópa, s.s. í mötuneyti eða frímínútum. Jafnframt skulu gerðar ráðstafanir til að þrífa eða sótthreinsa byggingar eftir hvern dag.“
Nesskóli
Email: nes@skolar.fjardabyggd.is
Website: www.nesskoli.is
Location: Skólavegur, Neskaupstadur, Iceland
Phone: 4771124
Facebook: https://www.facebook.com/Nessk%C3%B3li-1629687307303414/
Þetta felur m.a. í sér að:
Nemendur í hverri stofu skulu ekki vera fleiri en 20 – samskipti milli hópa eru ekki leyfileg. Nemendum 1. og 2. bekkjar verður skipt í þrjá kennsluhópa, einnig verður smá blöndun í 5. og 6. bekk.
Nemendur mega ekki hittast í matsal og ef nemendahópar þurfa að nota sömu stofur í skóla á ólíkum tíma skal viðkomandi svæði þrifið í millitíðinni.
Nemendur eiga ekki að fara á milli svæða og halda sig sem mest í sinni stofu.
ÖLL kennsla fer fram í heimastofu
Fjórir inngangar verða í skólann.
Inngangur að austanverðu – 1. og 2. bekkur
Tónskólainngangur að vestanverðu – 4. og 5. bekkur
Inngangur að norðanverðu (snýr að leiksvæði) – 6., 7. og 3. bekkur
Aðalinngangur – 8., 9. og 10. bekkur
Skólinn opnar 07:50 fyrir nemendur, þegar nemendur mæta þá halda þeir beint til sinnar stofu og taka bæði skó- og yfirfatnað með sér.
Foreldrar eru vinsamlegast beðnir um að senda börnin sín ekki of snemma í skólann.
Eingöngu nemendur 3., 6. og 7. bekkjar geta notað sín svæði í anddyri skólans.
Foreldrum er óheimilt að koma með nemendum inn í skólann, þeir þurfa að skila nemendum frá sér við anddyrið og sækja þannig í lok skóladags.
Breytingar verða á aðgengi að mötuneyti og t.d. verður ekki hægt að koma með mat til að hita upp fyrir þá sem ekki eru í mat.
Matseðill verður einfaldaður
Kennslu verður háttað þannig:
Nemendur 1. og 2. bekkjar verða í þremur kennsluhópum á 2. hæð. Þeir eru í 6 kennslustundir og síðan tekur Vinasel við.
Nemendur 3. bekkjar verða í sinni stofu í 6 kennslustundir og þá tekur Vinasel við þeim er þar eru í vistun.
Nemendur 4. bekkjar verða áfram í sínum stofum. Á morgun, þriðjudag, verða þau til 13:00 en á miðviku-, fimmtu, og föstudag lýkur kennslu hjá þeim 12:30.
Nemendur 5. og 6. bekkjar verður í skólanum í 6 kennslustundir og lýkur þeirra kennslu því klukkan 13:00 .
Nemendur í 7. – 10. bekk verða í skólanum í 4 kennslustundir, eða til 11:00. Þá fara þeir heim, fá sér vonandi eitthvað að borða og síðan klukkan 12:00 hefst fjarkennsla hjá þeim.
Fjarkennslan fer þannig fram að nemendurnir taka Chromebooks tölvurnar með sér heim, tengjast síðan kennaranum sínum í gegnum Google meet. Tvær kennslustundir fara fram í fjarkennslu, 12:00 – 13:20.
Allt val á unglingastigi fellur niður þennan tíma, sem og allar smiðjur, einnig kennsla í list- og verkgreinastofum, sund og íþróttir í sal.
Eðlilega mun stundaskrá raskast en umsjónarkennarar munu sjá til þess að sem flestum greinum verði sinnt.
Veikindi og leyfi frá skóla
Þurfi barn að vera heima er mikilvægt að forráðamenn setji sig í samband við skólann svo umsjónarkennari geti skipulagt nám viðkomandi barns í samráði við forráðamenn.
Sýni nemandi einkenni sem líkjast sjúkdómseinkennum sem tengjast kórónaveirunni skal hann ekki sækja skóla og foreldrar vera í samráði við heilbrigðisyfirvöld um dvöl þeirra heima (sími 1700).
Algengustu einkennin eru hiti, hósti, þreyta, vöðva-, bein- eða höfuðverkur.
Mjög mikilvægt er að senda ekki nemendur í skólann nema foreldrar séu fullvissir um að nemendur hafi náð sér af veikindum hafi þau verið lasin.
Vinnuskipulag í Vinaseli
Aðstaða í Vinaseli er mjög breytt og felur það í sér að hver kennsluhópur þarf að vera áfram í sinni bekkjarstofu og má ekki fara á milli í aðrar stofur.
Þetta þýðir að barn er í sömu stofu frá því að það mætir á morgnana þar til Vinaseli lýkur. Þetta getur verið kerfjandi og íþyngjandi fyrir börnin þrátt fyrir að reynt verði að brjóta upp daginn á sem fjölbreyttastan hátt.
Af þessum sökum eru þeir forráðamenn sem hafa tök á beðnir um að sækja börn sín fyrr.
Þær aðstæður geta komið upp að takmarka þurfi viðveru á Vinaseli.
Þeir forráðamenn sem hyggjast sækja börn sín fyrr eru beðnir um að hafa samband við Jenný forstöðumann Vinasels, jennys@skolar.fjardabyggd.is, Dagmar skólaritara, dagmar@skolar.fjardabyggd.is, möguleiki er einnig að hringja á skrifstofu skólans, 4771124.
Vegna samkomubannsins viljum við leggja áherslu á eftirfarandi:
1. Foreldrar eiga ekki að koma inn í skólann með börnum sínum. Starfsmenn munu taka á móti nemendum í anddyri í byrjun skóladags og fylgja þeim þangað í lok dags.
2. Ef foreldri þarf bráðnauðsynlega að koma í skólann þá verður hann að gera vart við sig hjá ritara/skólastjórnendum, lögð er áhersla á handþvott og sprittun.
3. Sú breyting verður á að skólinn opnar kl. 7:50 á morgnana fyrir fyrstu hópana en ekki kl. 7:30 eins og verið hefur.
4. Sé þörf á fundum með foreldrum verða þeir skipulagðir sem fjar- eða símafundir.
5. Vegna aðstæðna verður gert hlé á símabanni 7.-10. bekkjar fram að páskafríi og verður notkun þeirra eingöngu leyfð í frímínútum. Athugið að nemendur fá ekki aðgang að gestaneti skólans.
6. Þær aðstæður geta komið upp að til meiri kennsluskerðinga komi.
7. Lögð verði megin áhersla á skólasókn yngstu barnanna til að halda sem mestri reglu á daglegu lífi þeirra.
Markmiðið er að halda úti sem bestu skólastarfi í samkomubanni, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru. Þannig að nemendur geti haldið daglegri rútínu sem hjálpar þeim til aukinnar virkni.
Við leggjum okkur öll fram um að fylgja fyrirmælum yfirvalda um samkomubann og takmörkun á hópastærðum og því er nauðsynlegt að huga vel að afþreyingu barnanna eftir að skóla lýkur og virða takmarkanir samkomubanns.
Það skal tekið fram að þetta er skipulag í upphafi samkomubanns og getur tekið breytingum frá degi til dags. Því biðjum við ykkur um að fylgjast vel með tölvupósti og á öðrum miðlum okkar.
Með von um gott samstarf,
starfsfólk Nesskóla