
Fréttabréf Brekkuskóla
Ágúst 2020
Kæru nemendur og foreldrar
Vegna aðstæðna í samfélaginu verður skólabyrjun með breyttu sniði þetta haustið. Foreldrum og nemendum í 1. bekk verður boðið að koma í samtöl fyrir skólabyrjun en aðrir árgangar mæta á skólasetningu 24. ágúst. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 25. ágúst hjá öllum árgöngum en 1. bekkur mætir þó að venju kl. 9.
Vegna Covid 19 er enn takmarkaður aðgangur að skólanum fyrir gesti og því mæta nemendur einir á skólasetningu. Vegna takmarkana verða engir stórir viðburðir eða fjölmennir fundir með foreldrum fyrst um sinn.
Foreldrar og aðrir gestir eru vinsamlega beðnir um að ganga inn um aðalinngang og þaðan beint til ritara ef þeir eiga nauðsynlegt erindi í skólann. Gestir skulu spritta hendur í forstofu áður en lengra er haldið. Einnig er hægt að hringja í síma 414-7900.
Vegna framkvæmda við Lundarskóla munu nemendur þaðan í 7. - 10. bekk sækja skóla í Rósenborg og hafa aðgang að mötuneytinu í Brekkuskóla. Við leggjum okkur fram við að þetta gangi vel upp og tökum nýjum grönnum fagnandi.
Eins og staðan er í dag þá eru 500 nemendur í skólanum, 80 starfsmenn og hver veit hve margir forráðamenn:-) Við bjóðum nýja nemendur, foreldra og nýtt starfsfólk velkomið í hópinn okkar. Við erum fjölmennt samfélag sem þarf að standa vörð um skólastarfið og það gerum við m.a. með því að hafa einkunnarorð skólans í huga.
MENNTUN - GLEÐI - UMHYGGJA - FRAMFARIR
Með von um gott samstarf í vetur,
starfsfólk Brekkuskóla
Skólasetning 24. ágúst 2020
Mæting nemenda á sal:
- 2.- 4. bekkur kl.9:00
- 5. - 7. bekkur kl. 9:30
- 8. - 10. bekkur kl. 10:00
Skólastjóri setur skólann og eftir það fara nemendur með umsjónarkennurum í stofur þar sem þeir fá upplýsingar um skólastarfið framundan.
Frístund verður opin frá og með 24.ágúst skv. dagatali Frístundar og skráningu nemenda í Frístund. Foreldrar/aðstandendur sem sækja börnin í Frístund eða í lok skóladags eru beðnir um að sækja börnin í forstofu Frístundar en fara ekki inn á ganginn.
Umferðaröryggi
Nú má búast við aukinni umferð í okkar skólaumhverfi að Rósenborg þar sem unglingastig Lundarskóla mun stunda nám þar í vetur. Skólastjórnendur í Lundarskóla og Brekkuskóla ásamt skipulagsyfirvöldum Akureyrarbæjar hafa fundað og farið yfir umferðaröryggi á svæðinu. Vissulega eru öll börnin hvött til að ganga eða hjóla í skólann en þegar vetur gengur í garð má búast við meiri bílaumferð. Foreldrar nemenda í Lundarskóla hafa fengið póst um æskileg sleppistæði ef þeir keyra börn sín í skólann. Þessi sleppistæði eru á Þórunnarstræti, við gömlu kartöflugeymsluna og á Eyrarlandsvegi. Við þurfum því öll að vera viðbúin aukinni umferð.
Í sameiningu þurfum við að brýna fyrir öllum að sýna aðgát og kenna börnunum öruggustu leiðina á milli skóla og heimilis. Á umferðarvef samgöngustofu má finna 10 ráð sem gott er að fylgja:
10 örugg ráð
- Æfum leiðina í og úr skóla saman
- Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
- Leggjum tímanlega af stað, ekki flýta sér
- Setjum einfaldar og fáar reglur sem á að fara eftir
- Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar
- Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
- Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
- Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir
- Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
- Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu
Brekkuskóli hnetulaus skóli
Við minnum á að Brekkuskóli er hnetulaus skóli. Það gildir bæði fyrir nemendur og starfsfólk.
Hér að neðan er slóð inn á síðu Astma og ofnæmisfélags Íslands þar sem eru frekari upplýsingar.
https://ao.is/index.php/utgefidh-efni/28-fraedsla/ofnaemi/faeduofnaemi/292-leidhbeiningar-til-skola-leikskola-og-adhila-i-fristundastarfiHafðu samband
Email: brekkuskoli@brekkuskoli.is
Website: brekkuskoli.is
Location: v. Skólastíg
Phone: +354 414-7900
Facebook: https://www.facebook.com/brekkuskoli.is/