
Fréttabréf Hörðuvallaskóla
ágúst 2021
Kæra skólasamfélag
Þriðjudaginn 24.ágúst er skólaboðunardagur og með honum hefjum við 16. starfsár Hörðuvallaskóla. Skráðir nemendur í skólann eru ríflega 860 og starfsmenn um 150. Líkt og í fyrra er verðandi 1. árgangur fámennari en árin á undan eða rétt um 80 í árgangi, hvort það er vísir að því að smá saman fækki nemendum í skólanum á næstu árum er óvíst. Fjölmennustu árgangarnir eru nú að byrja að færast yfir á elsta stigið. Því er ánægjulegt að sjá að framkvæmdir við kjallarann í Vallakór eru hafnar og vonir standa til að skólastarf geti hafist þar haustið 2022. Framkvæmdir við skólalóðina í Baugakór eru aðeins á eftir áætlun en þar er verið að setja fótboltavöll með girðingu og gervigrasi. Stefnt er á að framkvæmdum ljúki í september.
Helstu áskoranir við undirbúning skólastarfsins þetta skólaárið er að huga að sóttvörnum og hólfaskiptingum án þess að það hafi teljandi áhrif á nám, kennslu, matartíma, frímínútur og annað starf í skólanum. Við leggjum höfuðáherslu á að halda úti óskertu skólastarfi með sem minnstum hömlum. Síðastliðið skólaár bar okkur gæfa til að halda covid smitum í lágmarki, einungs fjögur smit komu upp utan sóttkvíar í skólanum og í engu tilviki smituðu þau út frá sér. Ég tel að öflugar sóttvarnir og meðvitund allra um að fara varlega hafi þar ráðið mestu. Við viljum áfram gæta varúðar og í því augnamiði leggjum við áherslu á að starfsmenn fari í sýnatöku ef þeir sýna einhver einkenni sem líkjast covid og komi ekki til vinnu fyrr en neikvæð niðurstaða liggur fyrir. Eins vil ég biðja ykkur foreldra / forráðamenn að halda börnum ykkar heima ef þau sýna einhver slík einkenni og ef grunur er um smit í nærumhverfi þeirra að fara með þau í sýnatöku. Það eiga eftir að koma upp smit en hversu víðtækar afleiðingar þau hafa getum við haft áhrif á.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar frá stjórnarráði sem eru nú í gildi, en eins og við þekkjum þá geta komið nýjar reglugerðir með skömmum fyrirvara og þá kynnum við þær og bregðumst við út frá því.
Eitt af því sem er ákveðin skerðing á er aðkoma foreldra / forráðamanna að skólanum. Ekki er æskilegt að fá fjölmenna hópa inn í skólann. Við munum því nýta okkur fjarfundi fyrir stærri fundi en bjóða fólki inn í skólann á smærri fundi.
Skólaboðunardaginn 24. ágúst eru nemendur í 2.-10. árgangi boðaðir á fund ásamt foreldrum / forráðamönnum. Í ljósi aðstæðna óskum við eftir að þessir fundir verði fjarfundir nema ef fólk óskar sérstaklega eftir að koma og hitta umsjónarkennara í eigin persónu. Þá er best að senda viðkomandi umsjónarkennurum póst og óska eftir staðfundi. Mikilvægt er að á þeim fundum sé 2m fjarlægðarregla virt, hendur sprittaðar og notaðar grímur. Þarna göngum við lengra en reglur segja til um en teljum það mikilvægt til að vernda umsjónarkennarana eins og hægt er fyrir hugsanlegum smitum. Opnað verður fyrir skráningu í viðtölin um hádegi miðvikudag 18.ágúst, hvert viðtal er um 10 mínútur. Skóli hefst síðan miðvikudaginn 25. ágúst samkvæmt stundaskrá.
Þegar kemur að 1.árgangi þá viljum við fá foreldra og börn inn í skólann í þessi viðtöl, sömu reglur gilda um sóttvarnir og fjarlægðarmörk. Þessi viðtöl eru 15-20 mínútur. Ef einhver á ekki heimangengt eða vill síður koma inn í skólann er rétt að senda umsjónarkennurum tölvupóst þess efnis og þá verður settur upp fjarfundur.
Við í skólanum hlökkum til komandi skólaárs og óskum eftir góðu samstarfi við foreldra og nemendur hér eftir sem hingað til.
Gleðilegt nýtt skólaár!
Bestu kveðjur úr skólanum,
Þórunn Jónasdóttir, skólastjóri
Leiðbeiningar um sóttvarnir í skólastarfi haustið 2021
Núgildandi reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 878/2021 um takmörkun á samkomum gildir til og með 27. ágúst nk. og tekur nú einnig til skólastarfs. Með hliðsjón af henni veitir mennta- og menningarmálaráðuneyti nánari leiðbeiningar til skóla um áhrif gildandi sóttvarnaráðstafana á mismunandi skólastigum.
Markmið sóttvarnaráðstafana í skólum eru sem fyrr að stuðla að öryggi og velferð nemenda, kennara og annars starfsfólks en jafnframt að tryggja, eftir því sem kostur er, kraftmikið og fjölbreytt skólastarf á öllum skólastigum.Viðbragðsáætlanir vegna smita eru til staðar í öllum skólum. Rekstraraðilar skóla og skólastjórnendur geta gripið til frekari sóttvarnaráðstafana sem mæta aðstæðum á hverjum stað, s.s. frekari hólfaskiptinga í starfsemi og aukinnar grímunotkunar, m.a. til að vernda viðkvæma hópa, draga úr smithættu og auðvelda rakningu, svo fremi sem það bitni ekki á þjónustu við nemendur. Áhersla skal vera á sem eðlilegast skólastarf eins og kostur er á öllum skólastigum.
Grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar:
• Grunnskólabörn eru undanskilin 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu, en þau skulu hvött til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.
• Samanlagður hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda í rými er 200.
• Þegar starfsfólk nær ekki að viðhafa nálægðarmörk (1 m) sín á milli ber að nota andlitsgrímu.
• Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir börn eða starfsfólk.
• Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi eiga að sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar og gæta að sóttvörnum. Hvatt er til grímunotkunar gesta í skólabyggingum, en skólum er jafnframt heimilt að takmarka enn frekar komu gesta í skólabyggingar.
• Um viðburði á vegum grunnskóla gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.
Í reglugerð heilbrigðisráðherra er fjallað sérstaklega um þrif og sótthreinsun rýma. Skóla skal þrífa eins og oft og unnt er, sér í lagi algenga snertifleti. Auk þess skal minna á einstaklingsbundnar sóttvarnir, tryggja góða loftræstingu og lofta reglulega út. Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á.
Mikilvægi foreldrarölts
Mig langar aðeins að minnast á afar mikilvægt hlutverk foreldrarölts. Líkt og undanfarin ár eru unglingar víðsvegar að af höfuðborgarsvæðinu farnir að hópast saman á skólalóðinni. Í fyrra var foreldraröltið mjög öflugt fór út kvöld eftir kvöld og rölti á svæðinu. Síðan komu að málum lögreglan, securitas og frístunda- og forvarnardeild Kópavogsbæjar. Þessi elja foreldra skilaði miklum árangri. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá að foreldraröltið hefur þegar brugðist við og hafið rölt. Eins hafa áðurnefndir aðilar verið upplýstir um þörf fyrir vöktun á svæðinu.