
Fréttabréf Kópavogsskóla
Mars 2023
Stærðfræðikeppni MR
Á degi stærðfræðinnar þann 14. mars fóru 20 nemendur úr unglingadeild Kópavogsskóla í Menntaskólann í Reykjavík til að taka þátt í grunnskólakeppni í stærðfræði. Yfir 400 nemendur tóku þátt í þessari keppni. Í Kópavogsskóla tóku sjö nemendur úr 8. bekk, sex nemendur úr 9. bekk og sjö nemendur úr 10. bekk þátt. Tilgangur með þessari keppni er að auka samstarf við hverfisskólana og aðra grunnskóla og efla áhuga nemenda á stærðfræði. Þessi keppni hefur fengið afar jákvæðar undirtektir. Að auki komust þrír nemendur úr 8. bekk og einn nemandi úr 9. bekk í lokakeppni Pangea stærðfræðikeppninnar fram fer á næstunni, sjá https://www.pangeakeppni.is/website/.
Við í Kópavogsskóla erum gríðarlega ánægð með þennan mikla áhuga á stærðfræði í skólanum okkar. Sem dæmi má nefna að 11 nemendur 9. bekkjar og 9 nemendur 10. bekkjar eru að taka framhaldsskólaáfanga í Fjölbrautaskólanum við Ármúla.
Þemavinna í 8. bekk
Nemendur skólans eru sífellt að vinna að fjölbreyttum verkefnum. Í mars mánuði hafa nemendur í 8. bekk að vinna samþætt verkefni í íslensku og samfélagsgreinum. Nemendur hafa lesið bókina ,,Vertu ósýnilegur“ eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og vinna ýmis verkefni sem tengjast fólki á flótta og eru þar að vinna að hæfniviðmiðum bæði í íslensku og samfélagsfræði.
Stærðfræðivinna í 2. bekk
Nemendur í Kópavogsskóla vinna fjölbreytt verkefni á hverjum degi. Á meðal fjölbreyttrar vinnu í 2. bekk má nefna að nemendur hafa verið að búa til samhverfur og hafa notað Numicon kubba við það.
Einnig hefur 2. bekkur unnið með verkefnið Þéttbýlið okkar sem er samþætting á efni úr bókinni Komdu og skoðaðu land og þjóð og stærðfræði. Þar vinna nemendur með hugtök tengd þéttbýli/ dreifbýli, odda tölur og sléttar tölur.
Vatnsdropinn
2. bekkur hefur einnig verið að vinna verkefni fyrir barnamenningahátíðina Vatnsdropann en sýning verður á verkum þeirra í Smáralind. Barnamenningarhátíð er haldin dagana 18-23.apríl næstkomandi og hvetjum við alla til að koma við í Smáralind og skoða þessi fallegu verk.
Skák í skólanum
Í Kópavogsskóla hefur í vetur hópur nemenda á unglingastigi hist einu sinni í viku og teflt undir stjórn Jóhönnu Guðrúnu kennara. Hefur hópurinn verið að safna stigum og rétt fyrir páskafrí var komið að úrslitastundu. Mikil samkeppni var um sæti 2-4 og var lokakeppnin æsispennandi. Allir í úrslitakeppninni eru nemendur í 9. bekk. Í lokin stóð Árni Geirsson uppi sem sigurvegari, Björn Jóel Þorgeirsson varð í öðru sæti, Guðmundur Ingi Valgeirsson lenti í þriðja sæti og Oliwier Buszkiewicz lenti í fjórða sæti. Á meðal vinninga voru páskaegg og máltíðir á hinum ýmsu veitingastöðum.
Mín framtíð
MÍN FRAMTÍÐ er yfirskrift Íslandsmóts iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningar fyrir grunnskólanemendur sem fram fer samhliða.
Mótið hefur verið haldið frá árinu 2007 fyrir tilstilli Verkiðnar sem eru íslensk systursamtök evrópsku Skills samtakanna sem aftur heyra undir WorldSkills International.
Mín framtíð er haldin með styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneyti. Þá kemur að framkvæmd mótsins mikill fjöldi sjálfboðaliða úr fagfélögunum og iðnaði en einnig frá íslenskum björgunarsveitum. Mín framtíð hefur reynst lyftistöng fyrir iðn- og verknám á Íslandi og hvetjandi fyrir skólasamfélagið. Um 8000 grunnskólanemar koma á mótið til að fylgjast með og fá fræðslu um iðn- og verknám. Nemendur úr 9. og 10. bekk Kópavogsskóla fóru með námsráðgjafa skólans og umsjónarkennurum sínum á þessa hátíð. Áhugavert er að skoða gagnlegar heimasíður með upplýsingum og myndböndum eins og www.nemahvad.is og www.naestaskref.is.
Starfsdagur
Á starfsdögum er mikið unnið – starfsmenn og kennarar komast í verkefni sem ekki gefast tími fyrir í dagsins önn. Óskilamunir, fræðsla, yfirferð prófa/ritgerða, endurskoðun kennsluáætlana, frágangur á verkefnum og námsmati eru meðal þeirra verkefna sem starfsdagur er nýttur í. Svo þarf líka að gleðja hugann! Þann 15. mars fengum við matarvagn í skólann, starfsmenn kepptu í Kahoot og fræðsla um einhverfu og ADHD til starfsmanna Frístundar var á meðal þess sem við nýttum daginn í.
Gestir í heimsókn
Nú á dögunum unnu nemendur úr 4. bekk Kópavogsskóla með meistaranemum listkennsludeildar Listaháskóla Íslands og fóru í útileiðangra um nærumhverfi skólans. Fuglahóparnir Krummar, Lóur og Lundar fóru í þrjár mismunandi göngur. Einn hópur týndi rusl í hverfinu og bjó til ruslaskrímsli, annar hópur bjó til fuglafóðrara og hendi upp á skólalóðinni og þriðji hópurinn gekk hring útað menningahúsum og teiknuðu og bjuggu til bókverk. Eftir göngurnar var kveikt upp í eldstæðinu og drukkið heitt kakó.
Krakkarnir voru alveg frábær, skapandi og skemmtileg og meistaranemarnir voru einstaklega ánægð að fá að æfa sig að vinna með krökkunum og kennurum þeirra.
Ferð í Vísindasmiðju hjá nemendum í 8. bekk
Árlega fara nemendur í 8. og 9. bekk í heimsókn uppí Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Í þetta sinn hittum við efnafræðinga sem sýndu okkur undur efnafræðinnar. Einnig var fræðsla um ljós og rafmagn.
Nemendur í 9. bekk að kryfja svín í náttúrufræðitíma
9. bekkur er að læra um mannslíkamann og því er kjörið tækifæri að kryfja líffæri, þetta er árlega og alltaf nýtum við okkur PLUX (innyfli svína), til að fræðast nánar um tengingu líffæra.
Barnaþing
Miðvikudaginn 29. mars var haldið Barnaþing í Kópavogi. Við áttum fimm fulltrúa á þinginu úr Kópavogsskóla. Þátttakendum var skipt niður á fimm manna borð og fengu tíu mínútur til að ræða hverja tillögu sem að komu frá nemendum í Kópavogi. Þátttakendur komu svo með tillögur í gegnum nearpod og kosið var síðan um bestu tillögurnar. Efstu þrjár tillögur úr hverjum málaflokki eru síðan sendar aftur á skólana og þá verður endalega kosið um það sem nemendur telja mikilvægustu málefnin. Boðið var upp á pizzu og safa, allir sem tóku þátt fannst mikilvægt að halda svona þing til að fá tækifæri til að koma skoðunum nemenda á framfæri.
Árshátíðir og páskafrí
Föstudaginn 31. mars var haldin árshátíð hjá nemendum í 1. - 4. bekk og 5. - 7. bekk. Báðar skemmtanirnar tókust mjög vel og voru atriði frá nemendum fjöldbreytt og fjörug. Frábært að sjá hve margir gestir komu og fylgdust með.
Að þeim loknum voru nemendur skólans komnir í páskafrí. Skólinn hefst aftur þriðjudaginn 11. apríl samkvæmt stundaskrá. Gleðilega páska.