
Flataskólafréttir
Skólaárið 2021-2022 - 1. nóvember 2021
Kæra skólasamfélag!
Skólastarfið gengur sinn vanagang og þó að veiran sé enn á sveimi í samfélaginu náum við að halda okkar striki að mestu leyti. Vegna fjölgunar smita undanfarið ætlum við þó í varúðarskyni að sleppa morgunsamverum næstu tvær vikurnar og meta stöðuna að nýju að þeim tíma liðnum. Annað fer fram að venju og sérstaklega gaman er að sjá foreldrastarfið taka kipp á nýjan leik með fjörlegum bekkjarkvöldum með hrekkjavökuþema. Það var einnig ánægjulegt að geta boðið foreldra aftur velkomna í skólann á samtalsdegi og vonandi náum við að halda í því horfi að allt starf gangi óhindrað fyrir sig. Rétt er þó að benda á að enn er brýn þörf á að allir sinni persónulegum sóttvörnum, mikilvægt að foreldrar séu vakandi fyrir einkennum hjá börnum sínum og haldi þeim heima ef einkenna verður vart.
Bestu kveðjur úr skólanum!
Stjórnendur
Helstu viðburðir framundan:
- 8. nóv - Baráttudagur gegn einelti
- 16. nóv - Dagur íslenskrar tungu
- 29. nóv - 7. bekkur fer í skólabúðir til 3. desember
Þróunarverkefni um leiðsagnarnám
Eins og ætíð vinnum við í Flataskóla að því að þróa skólastarfið sífellt þannig að það verði sem árangursríkast fyrir nemendur. Í vetur leggjum við áherslu á innleiðingu leiðsagnarnáms og sú vinna helst jafnframt í hendur við breytingar á námsmati skólans.
Þegar leiðsagnarnám einkennir starfið í kennslustofunni sést að nemendur eru virkir þátttakendur í eigin námi, þeir vita til hvers er ætlast af þeim, hvert þeir stefna og hvernig þeir komast þangað.
Markvisst skipulag kennslustunda, samræður um nám og vel grunduð endurgjöf eru lykilþættir í leiðsagnarnámi. Til að sú námsmenning geti einkennt kennslustofur þurfa kennarar að hafa miklar væntingar til allra nemenda, nemendur verða að finna fyrir þeim væntingum og traust og hugarfar vaxtar ríkir í kennslustofunni.
Mistök eru viðurkennd sem hluti af lærdómsferli og þeim er fagnað sem lærdómstækifærum. Ef nemendur kunna ekki eitthvað ennþá þýðir það að þeir þurfa að æfa sig meira eða fara nýjar leiðir til að öðlast leiknina/færnina/hæfnina og þannig mynda þeir nýjar tengingar í heilanum.
Þróunin þarf að felast í tvennu, breyttum viðhorfum og breyttum starfsháttum í kennslustofunni.
Skólaárið 2021-2022 erum við að taka fyrstu skrefin í markvissari innleiðingu leiðsagnarnáms. Fjallað verður um og gerðar tilraunir með :
· Námsmenningu
· Hæfnimiðað nám, námsmarkmið og viðmið um árangur
· Hlutdeild og virkni nemenda
· Endurgjöf
Sjö kennarar skólans eru í leiðtoganámi á vegum Menntafléttunnar til að leiða kennarahópa í innleiðingu leiðsagnarnáms í hvetjandi námsumhverfi. Markmið námskeiðsins er að styrkja leiðtoga við að leiða hóp samkennara sinna í námssamfélagi með samræðum um leiðsagnarnám.
Allir kennarar og stjórnendur skólans taka þátt í innleiðingunni. Haldnir eru tveir fundir í hverjum mánuði þar sem leiðtogar funda með kennarahópum og þess á milli hittast leiðtogarnir til að skipuleggja fundina innanhúss og sinna leiðtoganáminu. Kennarahópurinn í heild les og ígrundar og gerir tilraunir í sinni kennslu sem svo er rætt á sameiginlegu fundunum.
Markmiðið er að menntun nemenda verði árangursríkari og nemendur ánægðari í skólanum.
Ef vel tekst til munu nemendur verða:
· meðvitaðri um eigið nám
· virkari þátttakendur í sínu eigin námsferli
· betri námsmenn
· tilbúnari að glíma við viðfangsefni sem reyna á þá
Skólinn verður einnig sterkara námssamfélag þar sem kennarar skólans hafa fengið tóm til að gera tilraunir, þróa og ígrunda eigin nálgun í námi og kennslu og ræða saman í smærri hópum undir stjórn jafningja.
Innleiðing leiðsagnarnáms mun halda áfram næstu árin og von okkar er sú að það einkenni starfið í öllum kennslustofum á næstu þremur til fimm árum og höfum við tengt þætti í innra mati skólans við innleiðingu leiðsagnarnáms svo við getum fylgst með hvernig okkur gengur. Lögð er áhersla á leiðbeinandi kennsluhætti og fræðslu og þróun sem lýtur að framgangi þeirra. Þá er horft til nýtingar upplýsingatækni í námi, kennslu og mati.
Um hópaskiptingar
Að raða niður í námshópa er viðvarandi viðfangsefni fyrir okkur í skólanum og þar er fjölmargt sem við reynum að taka tillit til. Eitt af því eru félagstengsl því að sjálfsögðu er mikilvægt að börnin hafi félaga og geti ræktað uppbyggjandi tengsl við jafnaldrana.
Á hinn bóginn lítum við einnig til þess að námshópar á hverjum tíma séu sem best til þess fallnir að árangursríkt nám fari fram. Í Flataskóla lítum við á hvern árgang sem einn bekk en innan hans röðum við niður í námshópa sem taka jafnan nokkrum breytingum yfir skólaárið. Þetta gerum við af því að sveigjanleiki í hópaskiptingum er mikilvægur til að geta brugðist við ýmsu sem upp kemur. Svo er líka þroskandi fyrir nemendur að þurfa að vinna með ólíku fólki og kynnast nýjum einstaklingum og þetta fyrirkomulag gefur möguleika á auknum og fjölbreyttari félagatengslum. Kennarar árgangsins mynda teymi sem ber sameiginlega ábyrgð á nemendahópnum og það að nokkrir kennarar þekki vel til nemenda auðveldar lausnaleit þegar á þarf að halda.
Oft þurfum við að skipta góðum vinum milli hópa því að vinskapur þýðir ekki endilega að viðkomandi eigi jákvæð og árangursrík samskipti þegar kemur að námi. Það er eðlilegt að börnin sækist eftir að vera sem mest með vinum sínum en stundum þurfum við fullorðna fólkið að stjórna þeim málum með framangreint í huga. Allar óskir og ábendingar foreldra varðandi hópaskiptingar eru velkomnar og við reynum eftir föngum að taka tillit til þeirra en þær snúast gjarnan um að mæta vilja barnanna til að vera með vinum sínum í hóp. Oft fáum við óskir sem eru ósamræmanlegar og stundum rekast þær á við önnur markmið sem við erum að vinna að. Það er því mikilvægt að kennurum sé treyst til að taka ákvarðanir um hópaskiptingar og að börnunum sé hjálpað til að takast á við sínar tilfinningar því það sem er nýtt og erfitt er jú oft líka þroskandi og hollt!
Skráningar aðstandenda í mentor
Foreldrakönnun Skólapúlsins
Skólinn notar kannanir Skólapúlsins til að fylgjast með og bæta innra starf skólans. Liður í því er að spyrja foreldra í skólanum um gæði skólans, samskipti við skólann, virkni í skólastarfi og námið heima fyrir.
Í janúar nk. verður lögð könnun fyrir úrtak foreldra í skólanum. Búið er til 120 foreldra líkindaúrtak úr lista sem skólinn sendir inn í kerfið í janúar. Þátttökukóðarnir eru síðan sendir til foreldra í tölvupósti. Í þeim tilvikum þar sem netföng tveggja foreldra eru skráð er hending látin ráða hvor aðilinn fær könnunina senda fyrst. Ef svör berast ekki frá þeim aðila sem fyrst fær könnunina senda, er könnunin send á netfang næsta foreldris.
Í byrjun mars fær skólinn niðurstöður á yngsta, mið- og unglingastigi með samanburði við landsmeðaltal, svo lengi sem 80% svarhlutfalli sé náð. Með leyfi skólans eru niðurstöður jafnframt notaðar í tölfræðigreiningar m.a. fyrir fræðsluskrifstofur, ráðuneyti og fræðimenn til að auka skilning á þroska og námsaðstæðum nemenda á landsvísu.
Vinnsla könnunarinnar uppfyllir skilyrði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga og er í samræmi við GDPR reglugerð Evrópuþingsins. Fjórar leiðir hafa verið þróaðar í því skyni:
ü Öllum persónuupplýsingum er eytt áður en svörun hefst nema að svarandi biðji sérstaklega um að vera minntur á ef hann gleymir að ljúka könnuninni. Í slíkum tilfellum er persónuupplýsingum sjálfkrafa eytt strax að lokinni svörun.
ü Allar skeytasendingar eru dulkóðaðar (https:) sem dregur úr líkum á því að hægt sé að hlera svörun um leið og hún á sér stað.
ü Opin svör eru vistuð aðskilin frá öðrum svörum könnunarinnar sem kemur í veg fyrir að upplýsingar sem koma fram í opnu svari geti á nokkurn hátt verið tengdar svörum við fjölvalsspurningum í könnuninni.
ü Notkun á vefkökum er takmörkuð, sjá nánar á www.visar.is undir Persónuverndarstefna.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir með því að senda póst á personuvernd@visar.is.
Ef þú er mótfallin(n) því að eiga möguleika á að svara könnuninni, vinsamlegast hafðu samband við skrifstofu skólans.
Nánari upplýsingar um könnunina eru á www.skolapulsinn.is/um. Einnig er hægt að hringja í starfsfólk Skólapúlsins í síma 583-0700 eða senda tölvupóst á skolapulsinn@skolapulsinn.is.
Eineltisáætlun / vísbendingar um einelti
Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Sá sem er lagður í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki vísbendingar um að hugsanlega eigi einelti sér stað.
Eftirfarandi geta verið vísbendingar:
Tilfinningalegar:
- breytingar á skapi
- tíður grátur, viðkvæmni
- svefntruflanir, martraðir
- breyttar matarvenjur, lystarleysi - ofát
- lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði
- depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir
Líkamlegar:
- líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur
- kvíðaeinkenni t.d. nagar neglur, stamar, kækir ýmis konar
- líkamlegir áverkar s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýrt
- rifin föt og/eða skemmdar eigur
Félagslegar:
- virðist einangrað og einmana
- fer ekki í og fær ekki heimsóknir
- fáir eða engir vinir og barnið vill ekki taka þátt í félagsstarfi
Hegðun:
- óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst
- neitar að segja frá hvað amar að
- árásargirni og erfið hegðun
Í skóla:
- hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið
- leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega
- mætir iðulega of seint eða byrjar að skrópa
- forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
- hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar
- einangrar sig frá skólafélögum
- forðast að fara í frímínútur
Á heimili:
- barnið neitar að fara í skólann
- dregur sig í hlé
- biður um auka vasapening
- týnir peningum og/eða öðrum eigum
- neitar að leika sér úti eftir skóla
- byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti
- reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélagana eða aðra foreldra
- verður niðurdregið eða órólegt eftir frí
Verði starfsmenn skóla eða foreldrar varir við einhver ofangreindra einkenna eða önnur sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið. Allir sem hafa vitneskju um hvers konar líkamlegt eða andlegt ofbeldi meðal nemenda ber að tilkynna það til umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnenda.
Þessi einkenni geta einnig verið afleiðing annarskonar vanlíðunar og í könnunarviðtölum getur það komið fram.
Félagsmiðstöðvaropnanir fyrir 7. bekk
Mentor - handbók fyrir aðstandendur
Opnunartími skrifstofu
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500