
Fréttamolar úr MS
22.september 2023
Haustið líður 🍂
Haustið líður hratt og framundan eru fyrstu matsdagar haustannar, 26. og 27. september. Nám og kennsla gengur almennt vel, fyrsta mætingareftirlit hefur farið fram þar sem nemendur sem eru undir lágmarksviðmiðum í mætingu fengu aðvörun og nemendur með afburðarmætingu fengu hrós. Næst fer mætingareftirlit fram í kringum miðannarmat í byrjun október. Námið í MS byggir að stórum hluta á þátttöku og stöðugri virkni yfir önnina og því skiptir mæting í skólann gríðarlega miklu máli. Við minnum á að mæting undir 85% telst vera agabrot og í slíkum tilfellum eiga nemendur í hættu að fá færri áfanga í töflu á næstu önn.
Það styttist í miðannarmat í byrjun október en þá fá nemendur upplýsingar um stöðuna í hverjum áfanga með tillögum að úrbótum eftir því sem við á. Stoðtímar í stærðfræði hafa verið vel sóttir og verða þeir áfram á þriðjudögum og fimmtudögum á haustönn.
Annars heldur lífið áfram sinn vanagang hér í MS og í komandi viku leggjum við m.a. áherslu á hreyfingu þar sem við tökum þátt í Íþróttaviku Evrópu.
Dagsetningar framundan
25.-29. september: Íþróttavika Evrópu haldin í MS - #beactive (sjá dagskrá hér að neðan)
26. september (þriðjudagur) - Matsdagur, stöðupróf í dönsku og spænsku
27. september (miðvikudagur) - Matsdagur
3. október: Miðannarmat birtist í Innu
4. október: Forvarnardagurinn
Á matsdögum er ekki kennt samkvæmt stundaskrá en nemendur geta verið kallaðir inn í verkefni, viðtöl eða sjúkrapróf. Kennarar upplýsa nemendur sína um fyrirkomulag matsdaga. Mikilvægt er að nemendur fylgist með tímasetningum sjúkraprófa og verði í sambandi við sína kennara um þau verkefni sem á að sinna. Dagskrá matsdaga birtist á heimasíðunni www.msund.is mánudaginn 25. september.
Íþróttavika Evrópu í MS 25.-29. september
Félagsmálastjóri, íþróttakennarar og íþróttaráð hafa skipulagt íþróttaviku í MS í tengslum við Íþróttaviku Evrópu og hlotið til þess styrk frá Evrópusambandinu í gegnum ÍSÍ.
Mánudagur 25. september: Borðtenniskeppni í hádeginu
Fimmtudagur 28. september: Annie Mist Crossfit stjarna kemur í hádeginu með fræðslu og armbeygjukeppni. Fótboltamót um kvöldið.
Föstudagur 29. september: Þorgrímur Þráinsson heldur fyrirlestur í hádeginu í Holti
Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Nemendur eru því hvattir til að hjóla eða ganga í skólann þessa daga!
Leiðbeiningar um notkun gervigreindar í námi
Gervigreind er komin til að vera og nokkuð ljóst að hún er notuð á ýmsum vettvangi. Skólinn er með í mótun reglur um notkun gervigreindar og styðst þar m.a. við reglur og viðmið Háskóla Íslands. HÍ hefur útbúið heimasíðu þar sem nemendur fá leiðbeiningar um hvað má og hvað ekki þegar gervigreind og nám er annars vegar, og þarna eru líka góðar hugmyndir um hvernig gervigreind getur komið að gagni við nám og kennslu. Við hvetjum nemendur til að skoða síðuna og nýta sér gervigreind með uppbyggilegum hætti.
Tilkynningahnappur á heimasíðunni
Á heimasíðu skólans er tilkynninga- og ábendingahnappur þar sem hægt er að senda inn tilkynningar varðandi ýmis mál, t.d. vegna eineltis, áreitni eða ofbeldis. Þarna má líka senda ábendingar, kvartanir eða hrós.