
MA-fréttir
Vorönn 2017
Til foreldra og forráðamanna
Páskafríið blasir nú við og nemendur mæta aftur til náms 24. apríl. Þá er réttur mánuður eftir af kennslu og síðan tekur námsmatstíminn við. Það hillir því undir vorið og lok skólaársins. Þetta hefur verið sannkallaður lærdómsvetur fyrir starfsfólk skólans ekki síður en nemendur. Gagnleg og hvetjandi umræða hefur farið fram við nemendur og foreldra um nýju námskrána og þriggja ára kerfið sem hjálpar okkur að sníða ýmsa hnökra af. Það ber þó að halda því til haga að þrátt fyrir mikið álag í námi hafa nemendur staðið sig vel, lagt mikið á sig og námsárangur þeirra í síðustu próftíð var með ágætum. En skóli er auðvitað meira en kennslustundir og próf; samheldni nemenda, félagslíf innan skólans, góður bekkjarandi og jákvætt skólaumhverfi eru mikilvægir þættir á leið þeirra til aukins þroska og þátttöku í samfélaginu og er það okkur kappsmál að skapa slíkt umhverfi í samvinnu við nemendur og forráðamenn.
Af nýrri námskrá
Nemendur sem innrituðust haustið 2016 hófu nám í nýrri námskrá og var kynnt að stúdentsprófið væri 210 einingar. Að meðaltali þýðir það 35 einingar á önn. Einnig var tekið upp nýtt fyrirkomulag í stundaskrá með 50 mínútna kennslustundum. Ein kennslustund á viku er bak við hverja einingu, nema í undantekningartilvikum eins og í EVÍS og ENSK í 1. bekk þar sem kennslustundum var fækkað um eina og heimavinna aukin sem því nemur. Þetta hefur þýtt langan skóladag og mikið álag á nemendur og því hefur verið ákveðið að fækka einingum í 200. Það er viðmiðunareiningarfjöldi í aðalnámskrá og flestir framhaldsskólar gera ráð fyrir 200 eininga stúdentsprófi. Námsferill núverandi fyrstu bekkinga breytist því aðeins og verða nemendum kynntar þær breytingar innan tíðar.
Áfram verður boðið upp á hraðlínu.
Frá námsráðgjöfum
Nú fer að styttast í próftíð (og þá sumarfrí líka) og mikið að gera framundan, mikilvægt er þá að hafa gott skipulag á náminu svo allt gangi nú vel.
Á vef skólans (undir námsráðgjöf) eru ýmsar skipulagstöflur og leiðbeiningar um hvernig best er að skipuleggja sig, http://www.ma.is/is/thjonusta/namsradgjof. Hvetjið börn ykkar endilega til að nýta sér þessi gögn á vefnum:
- Leiðbeiningar til nemenda
- Skipulags- og verkefnatafla
- Vikuáætlun
- Forgangsröðun verkefna
Prófkvíðanámskeið og örnámskeið í próftökutækni og vinnubrögðum verður haldið í maí, verður auglýst eftir páskafrí.
Við hvetjum foreldra og nemendur til að hafa samband við okkur námsráðgjafa ef eitthvað er, hægt er að kynna sér þjónustu okkar betur á ma.is http://www.ma.is/is/thjonusta/namsradgjof
Margt fer fram í MA
Vorannarpróf
Dimissio er 26. maí en það er jafnframt síðasti kennsludagur og kveðjudagur stúdentsefna. Þá eru aðeins kenndar tvær fyrstu kennslustundirnar.
Vorannarpróf hefjast þriðjudaginn 30. maí.
Próftíð er frá 30. maí til 16. júní.
Próftaflan er í Innu, einnig hangir hún á töflunni í anddyri og er á www.ma.is.
Fyrstubekkingar eru ekki allir búnir í prófum á sama tíma. Mála- og menningarbraut og félagsfræðibraut eru í sínu síðasta prófi 2. júní en náttúru- og raungreinabraut 9. júní.
Sjúkrapróf eru flest 13. júní og endurtökupróf 14. – 16. júní. Nemendur þurfa því að gera ráð fyrir því að próftíðin geti staðið allt til 16. júní ef þeir taka einhver endurtökupróf. Rétt er að taka fram að ekki er hægt að taka próf annarsstaðar en í MA, nema í algjörum undantekningartilfellum.
Prófsýningar verða að loknum reglulegum prófum, væntanlega eftir hádegi 9. júní. Nemendur eru hvattir til að koma og skoða prófúrlausnir sínar.
Ekki er um formleg skólaslit að ræða í yngri bekkjum heldur lýkur skólaárinu þegar nemendur þreyta sitt síðasta próf. Stúdentar eru brautskráðir 17. júní.
Þeir sem ljúka prófum í bekk þurfa ekki að sækja um að setjast í efri bekk, nema þeir séu undir lágmarksviðmiði í skólasókn. Þeir sem hyggjast hætta námi eða taka sér hlé þurfa að tilkynna það skólastjórnendum eða námsráðgjöfum.
Reglur um námsframvindu
Margt er ólíkt í skipulagi framhaldsskóla og grunnskóla. Eitt af því eru reglur um námsframvindu. Reglur þar að lútandi má sjá á vef skólans, þær eru þó í endurskoðun vegna nýrrar námskrár og sveigjanleika í námi, http://www.ma.is/is/namid/reglur-um-nam/um-namsframvindu
Að komast milli námsára:
Til að komast milli 1. og 2. bekkjar þarf að standast alla áfanga á 1. ári sem eiga sér eftirfara. Það á við um alla áfangana nema íþróttir.
Að vinna upp fall:
Ef nemandi í 1. bekk hefur fallið í ensku, frönsku, þýsku eða stærðfræði á haustönn getur hann unnið það fall upp á vorönninni ef hann hækkar sig svo mikið að hann nær meðaltalinu 5. Til dæmis ef hann hefur fengið 4 í ensku á haustönn en nær 6 um vorið telst fyrri áfanginn vera staðinn. Ef hann nær ekki að hækka sig svo mikið getur hann tekið endurtökupróf sem haldin eru strax að loknum reglulegum prófum í júní. Nemandi í 2. bekk getur farið með eitt fall með sér upp í 3. bekk ef hann hefur þreytt endurtökuprófið líka.
Endurtökupróf:
Mest er hægt að taka þrjú endurtökupróf á skólaárinu. Nemandi sem er fallinn í fleiri greinum yfir skólaárið telst vera fallinn á bekk og eru hann og forráðamenn hans þá beðnir um að setja sig í samband við námsráðgjafa að loknum prófum. Hvert endurtökupróf kostar 8000 kr.
Val nemenda
2. bekkur:
Nemendur í 2. bekk eru að ganga frá vali sínu þessa dagana og velja í Innu í síðasta lagi áður en þeir fara í páskafrí: kjörsvið (sem eru fjórir áfangar í sömu grein) og línur (þrír áfangar í sömu grein) og áfangar í frjálsu vali. Nemendur á raungreinasviði velja einnig á milli A og B stærðfræði sem eru mismunandi útgáfur af stærðfræðiáföngum raungreinasviðs.
Brautarstjórar heimsóttu alla bekki á dögunum og kynntu þeim skipulagið og í liðinni viku kynntu kennarar áfangana fyrir nemendum.
1. bekkur:
Brautarstjórar munu fara í bekki öðru hvorum megin við páska og fara yfir námsferilinn með þeim og kynna þeim val. Gert er ráð fyrir sérstökum valdegi í maí.
Frá FORMA:
Foreldrafélag Menntaskólans á Akureyri (FORMA) var stofnað þann 19. desember 2003. Núverandi stjórn FORMA fundar mánaðarlega og fer yfir ýmis mál sem upp koma í tengslum við ólögráða nemendur skólans. Fundargerðir stjórnar má lesa á heimasíðu skólans ma.is/is/skolinn/forma/fundargerdir. Félagið hefur með einum og öðrum hætti hvatt til samstarfs foreldra, skólayfirvalda og nemenda.
Fyrirspurnum og ábendingum má koma til FORMA með tölvupósti: forma@ma.is
Skólasetning í haust
Framhaldsskólarnir fimm á Norðurlandi eystra undirrituðu samning um frekara samstarf sín á milli fyrir um ári síðan. Einn liður í því samstarfi er að skólaár skólanna verði samræmdara svo hvers kyns samvinna verði auðveldari. Menntaskólinn á Akureyri hefur fengið fjárveitingu til að samræma skólaárið að nokkru leyti.
Skólinn verður því settur 31. ágúst. Haustannarpróf verða flest fyrir jól og lýkur próftíð fyrir jól 20. desember. Sjúkrapróf og mögulega próf í einstaka bekkjum verða eftir jól.
Nýtt skóladagatal verður birt á ma.is innan skamms.
Eitt og annað úr 1. bekk
Rýnihópar nemenda
Það er afar gagnlegt og nauðsynlegt að heyra raddir nemenda og skoðanir á skólastarfinu, ekki síst þegar ný námskrá er tekin upp. Skólinn fékk tvo hópa nemenda í 1. bekk í svokallaða rýnihópa þar sem rætt var um skólastarfið frá ýmsum sjónarhornum. Meðal annars var spurt um námsmatsdaga á miðri önn sem var nýjung á þessu skólaári. Niðurstaða rýnihópanna var skýr eða eins og einn nemandinn orðaði það: Allir elska námsmatsdaga!
Núvitund og jóga
Í annríki dagsins og áreiti samtímans er mikilvægt að þekkja leiðir til að bregðast við slíku álagi. Nemendur í 1. bekk eru í tveimur kennslustundum á viku sem gagngert miða að því markmiði að bæta líðan þeirra og hugarró sem mögulega getur dregið úr kvíða. Þetta er annars vegar námskeið í núvitund sem er liður í áfanganum Nýnemafræðsla og hins vegar ein kennslustund á viku í jóga og slökun sem er hluti af íþróttatímum þeirra.
Greinar í menningarlæsi
Allir nemendur á fyrsta ári taka áfanga í menningar- og náttúrulæsi. Eitt af markmiðunum með menningarlæsi er að þjálfa nemendur í gagnrýninni hugsun og nú á vorönn fór af stað nýtt verkefni þar sem nemendum gefst kostur á að koma gagnrýni sinni og umhugsunarefnum á framfæri í formi greinaskrifa og fá greinarnar birtar á vefmiðlum. Þegar hafa þrjár greinar birst, http://www.kaffid.is/er-rett-ad-stytta-framhaldsskolanam/, http://www.kaffid.is/hver-er-eg/ og http://www.visir.is/g/2017170328671/stefna-i-ranga-att
Fræðsla FEMMA í 1. bekk
Í skólanum er virkt Femínistafélag, FEMMA. Nemendur í 1. bekk óskuðu eftir jafnréttisfræðslu og tóku einstaklingar í femínistafélaginu að sér þá fræðslu og fjölluðu um jafnrétti frá ýmsum hliðum í einni kennslustund í hverjum bekk.
Salir
Nokkrum sinnum hefur verið kallað á Sal á vorönninni en þá fellur kennsla niður einhverra hluta vegna og nemendur safnast saman á sal skólans, Kvosinni.
Í byrjun febrúar var boðað til skólafundar þar sem nemendum voru kynntar fyrirhugaðar breytingar á námskrá og breyting á skólaárinu.
Tvívegis hefur verið sungið á söngsal og kallað var á sal þegar forseti Íslands heimsótti skólann. (Í framhaldi af því var fjallað um pizzur og ananas í helstu fréttamiðlum veraldar.
Í vikunni var árlegur lagabreytingafundur í tengslum við kosningar til skólafélagsins. Í maí verður síðan hringt á sal vegna framboðsfundar nemenda og stjórnarskipta.
Þrátt fyrir að þurfi að fara yfir mikið námsefni og nemendur þurfi á öllum sínum kennslustundum að halda er líka mikilvægt að geta brotið upp skólastarfið og gefið nemendum tækifæri til að rækta félagslíf og samkennd. Í rýnihópum nemenda á fyrsta ári kom einmitt fram að þeim þykir þetta mikilvægur þáttur skólastarfsins.
Ögn af árangri nemenda
Nemendur skólans hafa staðið sig afar vel í ýmsum keppnum á vorönn, ekki síður en á haustönninni.
Í smásagnasamkeppni Félags enskukennara á Íslandi varð Hanna Rún Hilmarsdóttir í þriðja sæti í flokki framhaldsskólanema.
Haldnar eru keppnir í stærðfræði, efnafræði og eðlisfræði á landsvísu og gefst efstu nemendum kostur á að taka þátt í lokakeppni, gott gengi þar getur tryggt nemendum þátttökurétt í Ólympíukeppnum. Þremur nemendum MA var boðið að skipa lið Íslands í Ólympíukeppninni í eðlisfræði í sumar, sem fer fram í Yogyakarta í Indónesíu, Atla Fannari Franklín, Erlu Sigríði Sigurðardóttur og Brynjari Ingimarssyni. Erla og Brynjar munu taka þátt í þeim leik, en Atli Fannar tekur þátt í Ólympíukeppninni í stærðfræði sem fer fram í Rio de Janeiro í Brasilíu.
Auk Atla Fannars komust Sindri Unnsteinsson, Brynjar Ingimarsson og Erla Sigríður Sigurðardóttir langt í lokakeppninni í stærðfræði og gátu í framhaldinu tekið þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni. Í landskeppni í efnafræði komst Erna Sól áfram.
MA átti tvö lið í forritunarkeppni framhaldsskólanna og náðu þau öðru og fimmta sætinu. Í framhaldinu tekur Atli Fannar Franklín þátt í Eystrasaltskeppni í forritun.
Tveir nemendur luku einleikaraprófi á píanó fyrir áramótin, Alexander Smári K. Edelstein, sem hélt lokaprófstónleika sína í febrúar og Una Haraldsdóttir, sem þreytir jafnframt próf í organleik og heldur píanótónleika í vor.
Því er óhætt að segja að nemendur hafi staðið sig vel og er þá ekki getið allra þeirra nemenda sem taka þátt í margvíslegum íþróttakeppnum.
Smáræði úr félagslífinu
Að venju er margt um að vera í félagslífi nemenda.
- Vel sótt kvöldvaka var haldin í mars og nemendur skipuleggja einnig sjálfir Ratatosk (opnir dagar) sem að þessu sinni var 12. – 13. mars.
- Lið skólans í Gettu betur keppti tvívegis í sjónvarpssal en laut í lægra haldi fyrir Kvennaskólanum í undanúrslitum - og Kvennaskólaliðið vann svo úrslitaslaginn.
- Lið MA í Morfís náði einnig langt, keppti í undanúrslitum gegn Flensborg sem bar sigur af hólmi.
- Söngkeppni MA fór fram í Hofi í febrúar og var glæsileg. Þar söng Margrét Hildur Egilsdóttir til sigurs.
- Nemendur héldu líka góðgerðar- og mannréttindaviku í mars. Stjórn skólafélagsins Hugins setti sér það markmið að safna einni milljón króna fyrir geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Þetta tókst og nokkrum tugum þúsundum betur og var söfnunarféð afhent á Sal skólans í lok mars. Nemendur óskuðu eftir því að eyrnamerkja féð til styrktar ungu fólki.
- Það sem hæst ber svo þessa dagana er sýning LMA á söngleiknum Anný. Frumsýning var 31. mars og sex sýningar fyrirhugaðar. Sýningar verða 7. og 8. apríl og svo 21. og 22. apríl, í vikunni eftir páska.
Hafðu samband við MA
Myndir og frágangur Sverrir Páll
Email: ma@ma.is
Website: ma.is
Location: Akureyri Junior College, Eyrarlandsvegur, Akureyri, Iceland
Phone: +354 4551555
Facebook: www.facebook.com/menntaskoli