
Fréttabréf Kópavogsskóla
30. sept. 2022
Skólastjóraskipti
Guðný Sigurjónsdóttir tekur við sem skólastjóri Kópavogsskóla 1. okt. nk. Starf skólastjóra var auglýst laust til umsóknar í sumar en í bréfi sem Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs sendi foreldrum barna í Kópavogsskóla fyrr í mánuðinum kom fram að eftir að framlengdum umsóknarfresti lauk var ákveðið að falla frá ráðningu. Samið var við Guðnýju, sem er núverandi aðstoðarskólastjóri Kópavogsskóla, um að hún sinni starfinu út skólaárið en starf skólastjóra verður aftur auglýst eftir áramót. Elísabet Pétursdóttir námsráðgjafi tekur að sér starf aðstoðarskólastjóra og nýr námsráðgjafi verður ráðinn í hennar stað til vors.
Núverandi skólastjóri kveður og færir nemendum, foreldrum og starfsfólki innilegar þakkir fyrir samstarfið og óskar þeim alls hins besta í framtíðinni.
Forvarnavika 3.-7. október
Forvarnavika á vegum Kópavogsbæjar verður vikuna 3.-7. október. Dagskrá er fjölbreytt en snýr einkum að samfélagsmiðlanotkun og góðum siðum þeim tengdum. Sérstök fræðsla verður fyrir foreldra allra barna í Kópavogi og það er Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu sem sér um hana. Fræðslan verður í Álfhólsskóla (Digranesi) mánudaginn 3. október kl. 20:00 og við hvetjum foreldra til að mæta. Margrét hefur víðtæka þekkingu á málinu og er með fullt af góðum ráðum fyrir foreldra.
Útbúið hefur verið námsefni um notkun samskiptamiðla fyrir alla aldurshópa og kennarar munu nýta það í fræðslu sinnu sem verður áhersluefni vikunnar. Vinnustofur um sama efni verða haldnar í félagsmiðstöðvum og Ungmennahúsinu Molanum.
Námskeið um samstarf heimila og skóla
Bryndís Jónsdóttir ráðgjafi frá samtökunum Heimili og skóli var með fræðslufund fyrir kennara þriðjudaginn 27. sept. og fyrir árgangafulltrúa miðvikudaginn 28. sept. um samstarf skóla og heimila. Foreldrastarf dróst mjög saman undanfarin ár og mikilvægt að endurnýja það eftir allar þær samkomutakmarkanir sem voru í gildi. Kópavogsbær greiðir fyrir fræðsluna fyrir alla grunnskóla bæjarins enda markmiðið að starfið verði sem öflugast í sveitarfélaginu. Framsaga Bryndísar var mjög greinagóð og gagnleg en mikilvægi samstarfs árgangafulltrúa og umsjónarkennara er það sem mestu skiptir fyrir hagsmuni nemenda.
Skýrsla um innra mat
Grunnskólum er samkvæmt lögum ætlað að meta starf sitt með markvissum hætti á hverju skólaári. Teymi um innra mat stýrir matinu í Kópavogsskóla en til grundvallar matinu liggja ýmsar kannanir, samtöl, gögn frá menntamálastofnun og annað það sem komið getur að gagni. Markiðið er að skýrsla skólaársins verði kynnt fyrir lok hvers skólaárs enda eru öll gögn til staðar um miðjan maí. Það náðist því miður ekki að ljúka henni sl. vor en skýrslan um innra mat skólaársins 2021-2022 var frágengin í byrjun september og kynnt á sameiginlegum fundi skólaráðs og stjórnar foreldrafélagsins um miðjan september. Í framhaldi af því var hún sett á heimasíðu skólans þar sem hægt er að kynna sér hana.
Vinna starfshóps vegna húsnæðis skólans
Vinna vegna framtíðarhúsnæðis Kópavogsskóla hefur verið í gangi með mislöngum hléum frá því haustið 2019 því bæði Covid og mygla færðu sjónarhornið á meira knýjandi mál. Nokkrir fundir hafa þó verið haldnir og sá síðasti var um miðjan júní sl. Á þeim fundi voru auk skólastjóra og aðstoðarskólastjóra þau Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs, Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðas, Ragnheiður Hermannsdóttir deildarstjóri grunnskóladeildar, Sindri Sveinsson rekstrarstjóri menntasviðs og Jóhannes Larsen fulltrúi foreldra. Áður var búið að funda með arkitekt sem er að vinna ákveðna frumvinnu fyrir fund sem er áætlaður í október. Mikilvægt er að þessari vinnu verði hraðað því byggingarfrmkvæmdir eru þegar hafna á Traðarreit eystri. Það skiptir miklu máli að allar áætlanir um viðbætur og breytingar á skólahúsnæðinu liggi fyrir með góðum fyrirvara ef börnum fer að fjölga í skólahverfinu.
Starfsáætlun skólaárið 2022-2023
Um 1. október skila grunnskólarnir starfsáætlun skólaársins til menntaráðs. Starfsáætlunin er yfirlit yfir ákveðna þætti skólastarfsins og fær formlega umræðu í menntaráði áður en hún er staðfest og birt á heimasíðu skólanna. Viðamiklar upplýsingar um starfið eru einnig á heimasíðu Kópavogsskóla og hér er tengill á starfsáætlun skólaársins 2022-2023. Starfsáætlunin er birt með fyrirvara því það á eftir að leggja hana fyrir menntaráð til staðfestingar.