
Fréttabréf Hörðuvallaskóla
nóvember
Kæra skólasamfélag
Starfið í skólanum gengur sinn vana gang. Við höfum verið ótrúlega heppin með hversu lítil áhrif covidsmit hafa haft á starfsemina það sem af er hausti. Það þökkum við árverkni starfsmanna sem hafa gætt vel að því að vera heima ef þeir sýna einkenni og mæta ekki fyrr en eftir sýnatöku eða sjálfspróf sem hafa komið neikvætt út. Eins viljum við þakka ykkur foreldrar fyrir að sýna sömu aðgát hvað varðar heilsu barnanna, að þau séu heima ef þau eru með flensulík einkenni. Mjög mikilvægt er að halda þessu áfram.
Það er ánægjulegt að segja frá að þónokkur bekkjarkvöld hafa verið haldin síðustu daga og allnokkur eru framundan. Það er mikilvægt að þetta starf sé farið af stað aftur, hér fyrir neðan eru verklagsreglur vegna bekkjarkvölda sem haldin eru í skólanum eftir klukkan 16 á daginn.
Vináttuganga er næstkomandi mánudag 8.11. þá hittast vinabekkir innan skólans upp úr kl 8:30 þar fara bekkir saman í leiki, útbúa spjöld fyrir gönguna, spila og borða morgunnesti. Mikilvægt er að allir komi með nesti þennan dag, ekki verður boðið upp á hafragraut. Að þessari samveru lokinni um 10:30 fara allir í skrúðgöngu um hverfið. Í þeirri skrúðgöngu verður elsti árgangur leikskólanna í hverfinu með okkur. Við ætlum ekki að fara öll saman í Knatthúsið eins og hefð var komin á fyrir covid, en eigum það vonandi inni á næsta ári.
Fullveldishátíðin verður síðan haldin 1.12. en með breyttu sniði. Við ætlum ekki að fjölmenna í Knatthúsið og hafa dagskrá þar, heldur skipuleggjum við fámennari viðburði innan skólans. Sú dagskrá verður auglýst síðar í mánuðinum.
Fimmtudaginn 18.11. er starfsdagur í skólanum en frístund verður opin fyrir þau börn sem þar eru skráð, mikilvægt er samt að skrá börnin í frístundina þennan dag.
Opin vika er þessa fyrstu viku í nóvember og margir foreldrar hafa nýtt tækifærið til að koma í viðtöl til umsjónarkennara, það er ánægjulegt að geta loks boðið fólk velkomið í skólann þó netfundir geti vissulega hentað vel líka.
Bestu kveðjur úr skólanum
Þórunn Jónasdóttir
skólastjóri
Hvetjum nemendur til að vera með vatnsbrúsa
Foreldrarölt til jóla
5.nóv 3. HS
12.nóv 4. IS
19.nóv 4. JR
26.nóv 5. AR
3.des 5. HU
10.des 1. EG
17.des 1. GS
Hist er við aðalinngang skólans í Baugakór kl 22:00
Verklag þegar haldin eru bekkjarkvöld
- Við mælum með að nýta sal skólans fyrir bekkjarkvöld.
- Bekkjarfulltrúi fær lykla fyrir 15:30 hjá ritara.
- Bekkjarfulltrúar bera ábyrgð á að læsa útgangi sem notaður er.
- Bekkjarfulltrúar bera ábyrgð á því að athuga allar inngangshurðir í skólann séu læstar (ath sérstaklega miðrými undir stiga úti í port)
- Bekkjarfulltrúi skilar lyklum til ritara fyrir kl. 09.00 daginn eftir.
- Einnota borðbúnað skal koma með (glös, diska, servéttur og annað sem nota þarf). Ekki er veitt leyfi til að fara í eldhús skólans.
- Bekkjarfulltrúar skulu koma með hátalara eigi að spila tónlist. Ekki er gert ráð fyrir að nýta tæknibúr á bekkjarkvöldum nema sé sérstaklega um það samið og er þá einn fullorðinn ábyrgur fyrir að læra á tækin.
- Öllu rusli skal safnað saman í plastpoka og þeir skildir eftir fyrir utan salinn.
- Bekkjarfulltrúar ásamt foreldrum bera ábyrgð á því að umgengi um salinn eða það rými sem nýtt er og þá ganga sem gengið er um sé eins og komið var að.
- Bekkjarfulltrúar og foreldrar bera ábyrgð á því að börnin séu í salnum eða kennslustofu á bekkjarkvöldi en alls ekki á ferð um bygginguna. Einungis er gefið leyfi fyrir því að vera í stofu eða sal eftir því sem við á. Alls ekki skal gengið um annað svæði skólans.
- Ef nýta á kennslustofu þurfa kennarar að gefa leyfi fyrir því.
- Bekkjarfulltrúar og foreldrar bera ábyrgð á því að ganga um húsið og tryggja það að ekki sé skilið eftir rusl eða átt hafi verið við aðra hluti innan skólans.
- Ef salurinn er notaður er hentugt að loka hliðinu í stiganum, læsa inn á bláa gang og setja niður grind á rauða gangi, þá er svæðið umtalsvert minna sem þarf að fara yfir við lok skemmtunar.
- Ræstivagn er niðri við sal sem hægt er að nýta þegar gengið er frá eftir skemmtunina.
Fréttir úr skólastarfinu
Kennarar hafa verið duglegir við að fara í vettvangsferðir með nemendur, 6. og 7.árgangur er búinn að heimsækja Vísindasmiðjuna í HÍ. 5.árgangur er búinn að fara á Náttúrufræðistofu Kópavogs. 10.árgangur fór á sýninguna Vogglið í Þjóðleikhúsinu.
Samtökin 78 komu með fræðslu á elsta stig og Þorgrímur Þráinsson kom með erindi sitt "Verum ástfangin af lífinu" fyrir 10.árgang. Svo er Sigurrós Jóna Oddsdóttir kennari og rithöfundur búin að koma í 3.-7. bekk og lesa upp úr bók sinni Hringavitleysa. Við eigum síðan von á fleiri rithöfundum til okkar á næstunni.
Hér fyrir neðan eru nokkrar svipmyndir úr ferðum nemenda sem allar hafa heppnast afar vel.