
Fréttamolar úr MS
11. september 2023
Frábærir nýnemadagar að baki
Kæru nemendur.
Fyrstu dagar skólaársins hafa verið ansi fjörugir með nýnemadagskrá, nýnemaballi, nýnemaviðtölum o.s.frv. Stjórn skólafélagsins hefur staðið í ströngu við að undirbúa þetta allt saman og á mikið hrós skilið fyrir vel unnið starf.
Nýnemaballið var frábært og MS ingar sýna það og sanna að þeir kunna svo sannarlega að skemmta sér.
Það var metþátttaka í edrúpottinum og verður dregið úr honum í hádeginu á mánudaginn. Það er til mikils að vinna svo mætið í matsalinn kl. 12:05!
Frábærir foreldrar á foreldraröltinu við ballið 🥰🤩
Stoðtímar í stærðfræði
Boðið verður uppá stoðtíma í stærðfræði á haustönn 2023.
Tímarnir verða á þriðjudögum kl 14:40-15:40 og á fimmtudögum kl 15-16 í stofu AÐA21 og er fyrsti tíminn þriðjudaginn 12. september.
Athugið að skráning er nauðsynleg - sendið póst á ileanam@msund.is til að skrá ykkur eða skráið ykkur á skráningarform á skrifstofu.
Tímarnir eru fyrir alla nemendur í stærðfræði og eru sérstaklega hugsaðir fyrir þau sem þurfa aukinn stuðning. Ef spurningar vakna getið þið haft samband við ykkar stærðfræðikennara eða námsráðgjafa.
Hvetjum ykkur til að nýta ykkur stærðfræðiaðstoð!
Ert þú í tæknivandræðum? 💻🖥️🖨️
Ert þú í tæknivandræðum? Á heimasíðu skólans má finna lausn á ýmsum tæknivandamálum með ítarlegum leiðbeiningum um kerfin sem við notum í MS. Endilega skoðið leiðbeiningarnar vel og vandlega og svo er hægt að leita til Jóhanns tölvuumsjónarmanns á bókasafninu ef frekari aðstoðar er þörf.
Stöðupróf í tungumálum
MS heldur reglulega stöðupróf í tungumálum fyrir nemendur sem þess óska. Nemendur sem tala annað tungumál, t.d. móðurmál eða vegna búsetu erlendis, geta óskað eftir að fá tungumálakunnáttu sína metna til allt að 20 eininga. Einnig eru iðulega haldin stöðupróf í öðrum skólum og MS leitast við að auglýsa þau vel og vandlega meðal nemenda.
Á matsdögum í september verða haldin stöðupróf í dönsku og spænsku í MS.