
Fréttir úr Varmahlíðarskóla
11. desember 2020 - 4. fréttabréf
Skólastarf 14.- 18. desember
Í næstu viku, síðustu vikuna fyrir jól hvetjum við nemendur og starfsfólk til þess að mæta í jólalegum fötum þá daga sem hverjum og einum hentar. Þetta er tíminn til að setja upp jólahúfu, klæðast jólasokkum eða jólapeysu.
Litlu jólin verða haldin föstudaginn 18. desember. Nemendur mæta kl. 10:00 og heimakstur er kl. 12:30. Í ár hefur verið ákveðið að hafa ekki hefðbundin pakkaskipti hjá nemendum. Hugmyndin er að nemendur gefi 1000 kr. til hjálparstarfs í stað pakkaskipta og ætla starfsmenn sömuleiðis að leggja til söfnunarinnar. Séu foreldrar samþykkir þessari ráðstöfun geta þeir lagt inn á reikning samkvæmt upplýsingum tölvupósts eða sent nemendur með pening í skólann. Ætlunin er að afhenda peningagjöfina í upphafi litlu jólanna til Hjálparstarfs kirkjunnar.
Vegna takmarkanna á Covid-tímum verða litlu jólin með óhefðbundum hætti. Hver hópur heldur hátíðlega stund á sínu svæði og borðar saman hátíðarmat.
Nú í vikunni skáru nemendur út laufabrauð að venju sem þeir borða með matnum á litlu jólunum.
Piparkökuhúsakeppni
Bökun piparkökuhúsa hefur verið árlegur viðburður í Varmahlíðarskóla í allmörg ár, það var eins í ár en með smá beyttu sniði. Vegna aðstæðna var vinnan núna sett upp í valgreinalotu og fengu nemendur í 8., 9. og 10. bekk að velja um að taka þátt.
Nemendur hanna húsin, gera snið sjálf, baka og skreyta eftir sínu höfði. Í flestum tilfellum vinna tveir og tveir saman. Þau gera ekki deigið sjálf, Bryndís heimilisfræðikennari segist gera það, bara svo allir sitji við sama borð. Í ár var jólaþema, eitthvað sem tengdist jólum.
Nemendur sem tóku þátt að þessu sinni voru mjög metnaðarfullir og vandvirknir og árangurinn eftir því flottur. Aðrir nemendur sem ekki tóku þátt í verkefninu völdu svo vinningshúsin ásamt yngri nemendum, starfsfólki og dómnefnd. Það er vandasamt að velja þegar afraksturinn er eins glæsilegur og raun ber vitni. þeir sem hafa spreytt sig í hönnun, bakstri og skreytingu piparkökuhúss vita að verkefnið er ekki svo einfalt.
Úrslitum og afhendingum viðurkenninga var svo streymt í stofur svo allir gætu fylgst með. Það heppnaðist ljómandi vel og var leyst mjög vel úr aðstæðum. Vegna sóttvarnarhólfa gátum við ekki komið öll saman eins og vant er.
Vinningshafar og piparkökuhúsameistarar 2020 eru Iðunn Holst og Jóhanna Guðrún Pálsdóttir. Í öðru sæti voru Finnur Héðinn Eiríksson og Hrafn Helgi Gunnlaugsson. Í þriðja sæti voru Lydía Einarsdóttir og Þóra Emilía Ólafsdóttir.
Til hamingju nemendur, Bryndís og annað starfsfólk sem kom að samkeppni piparkökuhúsa í ár. Mjög góður árangur hjá ykkur.
1. sæti Iðunn og Jóhanna Guðrún
2. sæti Finnur Héðinn og Hrafn Helgi
3. sæti Lydía og Þóra Emilía
Dagbókin mín, gjöf til 4. bekkjar
Lilja Gunnlaugsdóttir gaf nýverið út bókina Dagbókin mín og ákvað að færa öllum nemendum 4. bekkjar, í grunnskólum Skagafjarðar, bókina að gjöf. Vegna aðstæðna gat hún því miður ekki komið sjálf og afhent börnunum bókina. Bókin er þakklætisdagbók, byggð á hugmyndafræði vaxandi hugarfars sem byggir á jákvæðri sálfræði. Bókin inniheldur 65 daga dagbók sem hægt er að fylla út í daglega og styðja lesandann til hugsana um fyrir hvað þeir eru þakklátir, um líðan og hegðun auk annarra verkefna. Námsráðgjafi kynnti bókina fyrir nemendum í skólanum auk þess sem foreldrar nemenda í 4. bekk hafa fengið frekari upplýsingar og kynningu á bókinni í tölvupósti. Við bindum vonir við að bókin verði vel nýtt og sendum Lilju hjartans þakkir fyrir góða gjöf.
Varmahlíðarskóla afhent gjöf frá Kaupfélagi Skagfirðinga og dótturfyrirtækjum
Í gær var Varmahlíðarskóla færð gjöf frá Kaupfélagi Skagfirðinga og dótturfyrirtækjum. Skólinn fékk afhentan þrívíddarprentara af gerðinni MakerBot Replicator+ ásamt skanna og þrívíddarforritunum MakerBot Print og MakerBot Mobile. Tækin eru af nýjustu gerð. Bjarni Maronsson, stjórnarformaður KS, afhenti gjöfina og sagði tilganginn vera að kynna þessa nýju tækni fyrir ungu fólki. ,,Hugurinn sé eina takmörkunin á því sem svona tæki geta gert og munu geta gert í framtíðinni.” Hanna Dóra skólastjóri tók við gjöfinni og þakkaði hjartanlega fyrir rausnarlega gjöf til skólans sem mun svo sannarlega styðja vel við fjölbreytileika skólastarfsins. Það verði spennandi að koma tækinu í notkun og sjá hvernig það efli enn frekar frjóa hugsun nemenda í nýsköpun og hönnun. Einnig þakkaði Hanna Dóra Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir öflugan stuðning síðustu ár sem hafi átt ríkan þátt í að styðja við framsækið skólastarf.
Varmahlíðarskóli
Email: varmahlidarskoli@varmahlidarskoli.is
Website: www.varmahlidarskoli.is
Location: Birkimelur 2
Phone: 4556020