
Fréttabréf Kópavogsskóla
September 2022
Framkvæmdir
Framkvæmdir í skólahúsinu eru nú á lokametrunum og komi ekkert óvænt upp eiga allir nemendur og starfsmenn að vera komnir í sínar kennslustofur á mánudaginn. Þó framkvæmdirnar hafi dregist töluvert verður að segjast að viðgerðirnar hafa heppnast mjg vel og öll rýmin eins og ný. Vinnuaðstaðan er því mun betri en áður og með nýjum gluggum eru loftgæðin mun betri. Töluverðar framkvæmdir hafa verið á skólalóðinni og þeim verður væntanlega lokið um 20. september. Hér eru nokkrar myndir sem sýna uppgerðar kennslustofu og lagfæringar á skólalóðinni.
Stofa 2. bekkjar
Framkvæmdir á leiksvæði
Hringekja sett niður
Samræmd próf ekki lögð fyrir á skólaárinu
Samkvæmt lögum á að leggja samræmd könnunarpróf fyrir nemendur í 4., 7. og 9. bekk á hverju skólaári. Vegna tæknivandamála hafa prófin ekki verið lögð fyrir sl. tvö skólaár því það kerfi sem Menntamálastofnun notaði réð ekki við umfangin og því þurfi að hætta við fyrirlögn prófanna. Nú hefur Menntamálaráðuneytið ákveðið að prófin verði ekki lögð fyrir fram til 2024 en fram til þess tíma verður unnið að nýju samræmdu námsmati, sem fengið hefur heitið Matsferill, sem kemur í stað samræmdu könnunarprófanna. Nánari upplýsingar er að finna á vef menntamálaráðuneytisins.
Skólakynningar
Skólakynning fyrir foreldra barna í 1. bekk verður seinni hluta dags og með öðru sniði. Þar verður boðið upp á fræðslu og matur í boði skólans. Tímasetningar koma eftir helgi.