
Fréttir úr Varmahlíðarskóla
19. nóvember 2020 - 3. fréttabréf
Sóttvarnarfréttir úr skólanum
Frá því að sóttvarnarreglur voru hertar í byrjun nóvember hefur skólastarf nemenda verið eilítið skert og skóladagur allra nemenda verið frá kl. 8:15-13:00. Fyrri helming nóvember var ekki einungis starfsfólki gert skylt að bera andlitsgrímur heldur bar öllum nemendum miðstigs og unglingastigs að bera grímur nema tryggt væri að að minnsta kosti 2 metra fjarlægð væri í næsta mann. Okkar nemendur náðu að taka grímurnar niður hluta úr degi þegar setið var í sætum inni í kennslustofu. Skólasund og íþróttakennsla var óheimil og takmarkaðri list- og verkgreinakennslu sinnt. Hópar nemenda og starfsfólks voru aðskildir í hólf og þess hefur verið sérstaklega gætt að skörun væri sem allra minnst á milli hópa. Það er skemmst frá því að segja að skólastarf hefur gengið vonum framar. Börnin ykkar hafa staðið sig afskaplega vel, mætt hinum ýmsum takmörkunum með skilningi og aðlagað sig fljótt að breyttum aðstæðum.
Í aðdraganda aðventu og jóla vakna ýmsar spurningar varðandi hinar ýmsu hefðir. Það er óljóst hverju við getum náð og viðhaldið en við reynum eftir megni að finna eða útfæra leiðir í takt við hvað takmarkanir leyfa.
Frá og með gærdeginum, 18. nóvember, var eilítið létt á sóttvörnum. Upplýsingar og breytt reglugerð barst okkur ekki fyrr en seint og því gafst lítið svigrúm til að stokka upp og undirbúa breytingar á stundatöflu. Kennsla með breyttu skipulagi hófst í morgun. Nú megum við kenna íþróttir og skólasund. Nemendur miðstigs geta nú, líkt og yngstu nemendurnir, verið grímulausir í skólanum og skólabíl. Það gladdi svo sannarlega mörg börn miðstigs að geta nú setið nær sessunaut og átt samvinnu um námið. Einnig er okkur nú heimilt að nota körfubolta og fótbolta í útiveru. Við þurfum þó áfram að gæta okkar og vanda til í sóttvörnum. Við höldum sóttvarnarhólfum áfram í skólanum, en færum aðeins til verkgreinakennara til að jafna á milli hópa og auka fjölbreytni í náminu. Unglingarnir fá nú einn dag í vali, næstu 3 vikur og völdu milli tveggja verkgreina; heimilisfræði (piparkökuhúsagerð) og hönnun/smíðar. Hér eftirfarandi fylgja frásagnir kennara af hverju skólastigi fyrir sig frá fyrra tímabili nóvembermánaðar í skertu skólastarfi.
Hanna Dóra
Fréttir frá unglingastigi
Kennsla á unglingastigi Varmahlíðarskóla hefur verið með þeim hætti, síðan takmarkanir á skólastarfi tóku gildi, að lögð hefur verið áhersla á bóklega kennslu. Útbúin var bráðabirgðastundaskrá sem lagði áherslu á að öll helstu bóklegu fögin fengju sitt vægi og sinn tíma - á kostnað íþrótta og sunds (sem ekki er leyfilegt að kenna) og valgreina. Takmörkun valgreina kemur aðallega til vegna þess að kennarar eru tengdir við ákveðið stig (unglinga- mið - og yngsta stig) og samgangur milli stiga er ekki leyfilegur nema í undantekningum. Þó hafa málmsmíðanemendur aðeins fengið að grípa í sitt val - enda Orri tengdur við unglingastig og eins hefur UTN hjá Unni haldið sér.
Annað slagið fara nemendur og kennarar út og draga að sér ómengað ferskt loft - og liðka fæturna - allt innan leyfilegra marka fjarlægðar og grímunotkunar, að sjálfsögðu. Ekki er um íþróttakennslu að ræða - heldur aðeins verið að endurnýja súrefnisbirgðir.
Það er mat okkar unglingastigskennara að vel hafi tekist til, miðað við aðstæður, og eins vel sé spilað úr tímanum og aðstæður leyfa. Nemendur hafa undantekningarlaust tekið þessum takmörkunum vel og staðið sig með miklum sóma.
Það verður þó að segjast eins og er að flestir fagna því eflaust þegar haftalaust skólastarf fer af stað að nýju.
Starfsfólk og kennarar á unglingastigi
Fréttir af miðstigi
Skólastarfið á miðstigi gengur vel. Nemendur una sér vel í breyttum aðstæðum og eru fljótir að aðlagast nýju fyrirkomulagi. Bekkirnir eru hver í sinni stofu, Trostan sér að mestu um kennslu í 5.bekk með aðstoð Sigrúnar Gylfa og Söru Regínu. Þyrey sér að mestu um kennslu í 6.bekk með aðstoð Sigrúnar Gylfa og Söru Regínu. Kristvina sér að mestu um kennslu í 7.bekk með aðstoð Línu. Allir hóparnir fá textílkennslu í 60 mín á viku, Lína sér um reglulega hreyfingu í hópunum auk þess sem Hafdís Edda og Lísa fara út með alla bekkina einu sinni til tvisvar á dag. Nemendur koma með nesti að heiman til að snæða í morgunhressingu, hádegismatinn fáum við úr mötuneytinu inn í kennslustofurnar og gengur það fyrirkomulag mjög vel. Allir hóparnir fara reglulega í lotupróf í stærðfræði og er þá sendur póstur heim til að láta vita af því. Framundan eru einnig kannanir í íslensku og munum við senda tölvupóst með upplýsingum þess efnis þegar þar að kemur. Við erum nýlega byrjuð að vinna með Snorra sögu í samfélagsgreinum, hlustum á söguna og vinnum verkefni eftir hvern kafla. Einnig fá nemendur kennslu í átthagafræði þar sem nemendur skoða Íslandskort og læra að lesa út úr því og kynnast sögulegum stöðum Íslands.
Kennarar og starfsfólk miðstigs
Fréttir af yngsta stigi
Kennsluhættir á yngsta stigi í þessum Covid-höftum hafa verið með þeim hætti að allar námsgreinar hafa verið samþættar. Segja má að nemendur hafi fengið kennslu í öllum greinum nema íþróttum. Textílkennari og tónmenntakennari sem ekki eru í sóttvarnahólfi yngra stigs hafa séð okkur fyrir verkefnum sem umsjónarkennarar hafa sinnt og tvinnað saman sinni kennslu. Allt hefur gengið vel og nemendur eru duglegir að tileinka sér þær reglur sem nú gilda.
Nemendur í 1. og 4.bekk hafa verið að vinna að mörgum skemmtilegum verkefnum undanfarna daga. Verið er að samþætta námsgreinar mikið þessa dagana og gengur mjög vel. Stöðvavinna er áberandi þar sem nokkur verkefni eru í boði og nemendur fara á milli verkefna. Nemendur eru mjög vinnusamir og duglegir. Við nýtum morgunmatstímann til að hlusta á sögur og erum aðeins farin að huga að jólaundirbúningi.
Árni Árnason rithöfundur sendi frá sér leikþátt upp úr nýjustu bókinni sinni Háspenna, lífshætta á Spáni sem nemendur 3. og 4. bekkjar hlustuðu á og bjuggu svo til fjórar spurningar sem þau sendu á Árna og hann svaraði svo þeim í dag, 12.nóvember. Fannst nemendum þetta æðislegt og gaman að sjá hvað rithöfundar eru hugmyndaríkir með að koma bókum sínum á framfæri í Covid ástandinu.
Starfsfólk og kennarar yngsta stigs
Varmahlíðarskóli
Email: varmahlidarskoli@varmahlidarskoli.is
Website: varmahlidarskoli.is
Location: Birkimelur 2, Varmahlíð, Iceland
Phone: 455020