
Fréttabréf Grenivíkurskóla
10. tbl. 4. árg. - desember 2023
Kæra skólasamfélag
Þá höldum við inn í síðasta mánuð ársins og fyrir mörgum þann skemmtilegasta. Framundan eru jól og áramót og undirbúningur kominn á fullt, hér í skólanum sem annars staðar. Í desember höldum við í ýmsar hefðir eins og laufabrauðsdag og kyndlagöngu, og þann 19. desember höldum við litlu jól og förum að þeim loknum í jólafrí. Nánari upplýsingar um þessa daga alla berast ykkur þegar nær dregur.
Í nóvember var ýmislegt á dagskránni. Nemendur í 9. og 10. bekk fóru í vel heppnaða skólaheimsókn í MA og VMA og skoðuðu einnig heimavistina, sem er líklegt framtíðarheimili allnokkurra nemenda. Við héldum upp á dag gegn einelti, og þá fengum við frábæra heimsókn frá þeim Rán Flygenring og Hjörleifi Hjartarsyni í tengslum við verkefnið Skáld í skólum.
Skólinn fékk á dögunum rausnarlega styrki frá fyrirtækjunum Gjögri, Darra og Sparisjóði Höfðhverfinga, sem nýttur verður til þess að kaupa fjölmargar nýjar og skemmtilegar bækur í skólann. Eru komin allmörg ár þar sem skólinn hefur fengið slíka styrki til kaupa á bókum til handa nemendum og erum við afar þakklát fyrir það!
Sem fyrr segir er síðasti kennsludagur fyrir jólafrí þriðjudagurinn 19. desember og litlu jólin verða svo haldin seinni partinn þann sama dag. Að þeim loknum halda nemendur í jólafrí, en skóli hefst svo aftur að loknu jólafríi fimmtudaginn 4. janúar.
Við í skólanum vonum að þið eigið notalega aðventu og njótið hátíðanna sem allra best.
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Jól í skókassa
Líkt og undanfarin ár tóku nemendur og starfsfólk Grenivíkurskóla þátt í verkefninu Jól í skókassa. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni sem felst í því að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir.
Skókassarnir frá Íslandi fara til barna í Úkraínu og verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til fólks sem býr við sára fátækt. Líkast til hefur þörfin fyrir hvers kyns aðstoð í Úkraínu aldrei verið meiri en um þessar mundir, í ljósi þess ömurlega stríðs sem þar geysar.
Að þessu sinni söfnuðust gjafir sem fylltu ríflega 20 skókassa og þökkum við öllum þeim sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir sitt framlag.
Dagur gegn einelti
Þann 21. nóvember sl. var haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti í skólanum. Safnast var saman um morguninn og horft á myndbönd þar sem meðal annars var fjallað var um mikilvægi þess að við ákveðum öll að vera saman í baráttuliðinu gegn einelti og að segja frá ef við vitum af því að verið sé að leggja í einelti. Einnig spjölluðum við almennt um einelti, Olweusaráætlunina, og eineltishringinn góða, sem er gott verkfæri þegar unnið er með eineltismál.
Að því loknu hengdu nemendur og starfsfólk hin ýmsu form, sem þau höfðu föndrað, í kringum græna kallinn okkar. Markmiðið er að minna okkur öll á mikilvægi þess að taka skýra afstöðu gegn einelti og leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn þessu samfélagsmeini.
Skáld í skólum
Þann 23. nóvember sl. fengum við í skólanum sérdeilis góða heimsókn frá listafólkinu Rán Flygenring og Hjörleifi Hjartarsyni. Rán er mynd- og rithöfundur sem hefur skrifað og/eða myndlýst fjölda bóka og tekið þátt í hinum ýmsu sýningum. Hjörleifur er rithöfundur og tónlistarmaður sem hefur skrifað fjölda bóka, bæði í bundnu og óbundnu máli. Í sameiningu hafa þau svo gefið út nokkrar bækur, t.d. bókina Fuglar og um fluguna Skarphéðin Dungal svo eitthvað sé nefnt.
Í heimsókn sinni sögðu þau okkur sögur, sýndu okkur myndir og spiluðu tónlist, og lögðu áherslu á með hversu fjölbreyttum hætti væri hægt að segja sögur og skapa list.
Frábær heimsókn, og þökkum við þeim Rán og Hjörleifi kærlega fyrir skemmtunina.
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "Góðvild í desember". Raunar var ekki búið að þýða dagatalið á íslensku þegar fréttabréfið fór í loftið, og því er þetta ágætist enskuverkefni í leiðinni! Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Grænfáninn
Frekari upplýsingar og hugmyndir að ýmsum verkefnum má finna á hér.
Myndir úr skólastarfinu
Matseðill
Á döfinni í desember
- 1. desember: Fullveldisdagurinn. Dagur íslenskrar tónlistar - samsöngur kl. 10:00.
- 11. desember: Laufabrauðsdagur - nemendur koma með nesti.
- 18. desember: Kyndlaganga (gæti breyst ef veður verður óhagstætt).
- 19. desember: Síðasti kennsludagur fyrir jól. Litli jól seinni partinn.
- 23. desember: Þorláksmessa.
- 24. desember: Aðfangadagur.
- 25. desember: Jóladagur.
- 26. desember: Annar í jólum.
- 31. desember: Gamlársdagur.
Útgefandi: Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Tölvupóstur: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Heimasíða: http://www.grenivikurskoli.is
Sími: 414-5413
Facebook: Grenivíkurskóli