
Fréttabréf Grenivíkurskóla
6. tbl. 4. árg. - júní 2023
Kæra skólasamfélag
Þá er einu skólaárinu enn lokið og framundan bíður verðskuldað sumarfrí, sem vonandi verður sólríkt og skemmtilegt.
Í ræðu minni á skólaslitunum kom ég inn á nokkur atriði sem valda mér nokkrum áhyggjum og ég tel að við þurfum í sameiningu að leita leiða til að bregðast við. Niðurstöður Skólapúlsins sýna til að mynda að áhugi nemenda á lestri hefur hrapað á örfáum árum, og ljóst að samkeppni við snjalltæki og aðra afþreyingu verður sífellt meiri áskorun. En við megum ekki gefast upp og hreinlega verðum að finna leiðir til þess að tryggja það að börnin lesi, sér til ánægju og yndisauka, og fái næga þjálfun í þessari grunnfærni alls náms. Hér má sjá greinar og síður með upplýsingum, ráðum og hvatningu í þeim efnum:
Að lesa fyrir börn - Læsisvefurinn
Lesum fyrir börnin okkar - grein á Vísir.is
Þá ræddi ég einnig áhyggjur mínar af auknu agaleysi, sem og virðingarleysi gagnvart námsgögnum, samnemendum, og starfsfólki, sem hefur ýmsar birtingarmyndir. Ég held við þurfum öll, heimili, skóli, og samfélagið í heild, að leggja enn meiri áherslu á að rækta með börnunum okkar - og kannski sjálfum okkur líka - meiri samkennd, jákvæðni og virðingu, og reyna að snúa þessum mótbyr í meðvind.
Með áðurnefnt í huga er það á stefnuskránni í haust að efna til skólaþings, þar sem allir aðilar skólasamfélagsins koma að borðinu, með það að markmiði að leita leiða til úrbóta.
En maímánuður var annars fjörugur og skemmtilegur sem endranær. Runólfur, kveðjuhátíð 10. bekkjar, var á sínum stað, nemendur fóru í sveitarferðir og skemmtu sér á útivistardögum, svo eitthvað sé nefnt. Grenivíkurskóla var svo slitið föstudaginn 2. júní. Um flest af þessu má lesa hér að neðan, en einnig má finna myndir úr skólastarfinu neðst í fréttabréfinu.
Fyrir hönd starfsfólks skólans þakka ég ykkur fyrir liðið skólaár og óska ykkur gleðilegs sumars!
Með kveðju úr skólanum,
Þorgeir Rúnar Finnsson
skólastjóri Grenivíkurskóla
Skólapúlsinn - niðurstöður
Á heimasíðu skólans má skoða niðurstöður Skólapúlsins og nálgast fleiri gögn er varða innra mat skólans: Matsgögn/skýrslur.
Við í skólanum munum bregðast við og leita leiða til úrbóta, en skýrsla um innra mat og umbótatillögur er í vinnslu og verður sett á heimasíðu skólans.
Skólaslit
Skólaslit Grenivíkurskóla fóru fram þann 2. júní síðastliðinn. Að þessu sinni útskrifaðist einungis einn nemandi úr skólanum, Marsibil Anna, en er þetta í annað sinn í sögu skólans sem svo háttar til að einn nemandi útskrifast. Eftirsjá verður að Marsibil, en við óskum henni og fjölskyldu hennar til hamingju með tímamótin og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni.
Runólfur
Heilsueflandi skóli
Dagatal Velvirk fyrir þennan mánuð ber yfirskriftina "Gleðilegi júní". Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi, svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.
Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.
Á döfinni í ágúst
- 22. ágúst: Skólasetning / útivistardagur
- 23. ágúst: Útivistardagur
Grenivíkurskóli
Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla
Email: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is
Website: http://www.grenivikurskoli.is
Location: Grenivík
Phone: 414-5413
Facebook: https://www.facebook.com/search/top?q=greniv%C3%ADkursk%C3%B3li