
Flataskólafréttir
Skólaárið 2021-2022 - 1. janúar 2022
Kæra skólasamfélag!
Nýtt ár heilsar og eins og alltaf er um að gera að nýta tækifærið til að setja sér ný og uppbyggileg markmið og stefna að enn betra lífi og starfi! Það gerum við að sjálfsögðu í skólanum og horfum björtum augum til nýja ársins.
Hins vegar er Covid19 okkur enn og aftur ofarlega í huga. Eins og allir vita eru smit nú afar útbreidd um samfélagið og má því búast við að eitthvað muni bera á þeim innan skólans nú þegar skólastarf hefst af fullum krafti á nýjan leik. Eins og alltaf förum við eftir þeim takmörkunum og leiðbeiningum sem við fáum frá yfirvöldum og óskum eftir góðu samstarfi við heimilin í þeim efnum. Hér neðar í fréttabréfinu má sjá yfirlit yfir gildandi takmarkanir en þær gilda að minnsta kosti til 12. janúar nk. Í skólanum fylgjum við þessum reglum og gætum að sóttvörnum í hvívetna. Matsalurinn verður hólfaskiptur meira en áður var, nemendur verða sprittaðir í bak og fyrir áður en þeir matast og sitja í ákveðnum sætum, starfsfólk notar grímur og gætir að fjarlægðum, kaffistofur verða hólfaskiptar o.s.frv. Morgunsamverur og fjölvalstímar verða ekki á dagskrá á næstunni en að öðru leyti ætti skólastarfið að geta fylgt stundaskrá og skólatími nemenda verður óbreyttur. Ef um breytingar verður að ræða kynnum við þær með tölvupóstum til foreldra.
Eins og kynnt hefur verið í fjölmiðlum hyggst heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á bólusetningar fyrir nemendur í janúarmánuði. Fyrirkomulagið er ekki ljóst enn sem komið er en það er hins vegar alveg ljóst að enginn verður skyldaður í bólusetningu, gætt verður að persónuverndarmálum og að foreldrar verða upplýstir áður en að þessu kemur. Væntanlega verður skólum falið að koma nánari upplýsingum á framfæri þegar nær dregur og málin skýrast nánar.
Við þökkum fyrir gott samstarf á liðnu ári og óskum nemendum okkar og fjölskyldum þeirra gleðilegs nýs árs.
Bestu kveðjur úr skólanum!
Stjórnendur
Helstu viðburðir framundan:
- 3. jan - Kennsla hefst skv. stundaskrá að loknu jólaleyfi
- 11. jan - Skipulagsdagur grunn- og leikskóla. Krakkakot opið fyrir skráða nemendur
- 2. feb - Samtalsdagur
- 21.-25. feb - Vetrarleyfi í grunnskólum Garðabæjar
Skipulagsdagur 11. janúar - skráning í Krakkakot
Þriðjudagurinn 11. janúar er skipulagsdagur í grunn- og leikskólum bæjarins. Þann dag verður Krakkakot opið frá 8:00-16:30, skráning fyrir daginn er hafin og stendur yfir til 4. janúar. Við getum ekki tekið á móti skráningum eftir 4. janúar og ekki tekið á móti börnum sem eru ekki skráð. Þennan dag þurfa krakkarnir að koma með morgunnesti og hádegismat, þau fá síðdegishressingu hjá okkur. Skráningin fer fram í gegnum völuna (www.vala.is) undir "Lengd viðvera".
Ef það er eitthvað óljóst má alltaf hafa samband við forstöðumann í gegnum netfangið: askellar@flataskoli.is
Gildandi takmarkanir í skólastarfi vegna Covid19
Skjánotkun og geðheilbrigði barna
Samrómur - raddgagnasafn - lestrarkeppni
Þriðja Lestrarkeppni grunnskólanna á vegum Samróms hefst þann 17. janúar næstkomandi. Sem fyrr gengur keppnin út á að lesa setningar inn í gagnasafn, í gegnum vefinn samrómur.is. Upptökurnar verða svo notaðar til að þróa máltæknilausnir sem kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku. Forseti Íslands og forsetafrú munu hefja keppnina og verðlaunaafhending að henni lokinni fer fram á Bessastöðum.
Nemendur, foreldrar og starfsfólk skóla geta lesið inn fyrir sinn skóla. Allir eru hvattir til að taka þátt því miklu skiptir að fá framlög frá breiðum hópi og tryggja þannig að tæknin skilji raddir og framburð allra.
Viðtökur við síðustu Lestrarkeppni Samróms fóru fram úr björtustu vonum. Alls tóku um 6.000 einstaklingar þátt fyrir hönd 136 skóla og lásu rúmlega 776 þúsund setningar.
Samrómur er raddgagnasafn á vegum Almannaróms - Miðstöðvar máltækni og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn með söfnum Samróms er að safna raddgögnum sem máltæknilausnir verða byggðar á. Þannig tryggjum við að tölvur og tæki sem við tölum við muni skilja íslenskt talmál.
Nánari upplýsingar má finna á vefnum https://samromur.is/
Endurskinsmerki
Viðbrögð við óveðri
Nú er kominn sá árstími að allra veðra er von og því rétt að vekja athygli foreldra á upplýsingum sem varð viðbrögð við óveðri. Skólastarf fellur ekki niður nema tilkynnt sé um það sérstaklega. Í upphafi skóladags getur í verstu veðrum tafist að fullmanna skóla og mega forsjáraðilar þá búast við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra.
Forsjáraðilar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í eða úr skóla vegna veðurs, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forsjáraðilar aðstæður svo að ekki sé óhætt fyrir börn þeirra að sækja skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það sem lítur þá á tilvikið sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða forsjáraðilar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa. Nánari upplýsingar um viðbrögð við óveðri má finna hér.
Opnunartími skrifstofu
Hægt er að senda skólanum tölvupóst á netfangið flataskoli@flataskoli.is
Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.
Flataskóli Garðabæ
Email: flataskoli@flataskoli.is
Website: flataskoli.is
Location: Flataskóli, Gardabaer, Iceland
Phone: 513 3500